Tiltekt í næringunni

Áramótaheitin okkar snúa mjög oft að einhverskonar næringartiltekt. Fólk ætlar að hætta að borða nammi, hætta í gosdrykkjum, hætta að borða brauð, henda út öllum mjólkurvörum, fara í kökustraff, borða minni fitu og svo framvegis og framvegis. Allt of margir ætla sér um of miklar breytingar sem er algjörlega dæmt til að mistakast. Sumum tekst það ágætlega en því miður mistekst langflestum okkar. Það er of mikið að hætta öllu og kemur líkaminn til með að öskra á óhollustuna sem við svo endum með að verða að dæla í okkur og fáum samviskubit yfir. Góð leið er að byrja rólega og gefa sér langan tíma í þessa „tiltekt“. Sem dæmi þá er hægt að prufa eina vikuna að taka út brauð, kex og kökur, þá næstu prófum við að taka út mjólkurvörur osfrv. Góð leið til að „trappa“ sig niður úr mikilli gosneyslu er að minnka skammtana jafnt og þétt yfir ákveðið langan tíma. Fara úr 2 lítrum á dag í 1,5 í eina viku og minka svo niður í 1L þangað til við erum komin niður í litla kók í gleri. Góðir hlutir gerast hægt.