Hálsinn okkar er viðkvæmur og margir eru með hálsvandamál tengt vinnu við tölvu. Líkaminn okkar er hannaður fyrir hreyfingu og fáum fljótt álagstengd enkenni ef við erum í einhæfum stöðum.
Vöðvabólga í hálsi og herðum
Þegar við stífnum upp í hálsi og herðum er oft besta leiðin að hreyfa oft og létt. Snúningar og hliðarbeygjur fyrir hálsinn. Lyfta öxlum upp og niður fyrir herðar. Slaka á herðablöðum og öxlum. Passa sig á að vera ekki að spenna herðarnar aftur og niður. Við viljum hugsa um að hafa herðarnar breiðar og lausar. Hálsinn á að vera langur og horfa aðeins niður, hakan aðeins niður. Litlar léttar hreyfingar oft á dag sem auka blóðflæðið til vöðvana.
Hættum að teygja hálsinn
Stuttir hálsvöðvar eru sjaldnast ástæða þess að við fáum vöðvabólgu í hálsinn og þess vegna þurfum við ekki að teygja hálsvöðvana með það að markmiði að lengja vöðvana. Þegar verið er að teygja á hálsinum með því að leggja hendina á höfuð og toga til hliðar erum við að setja mikið álag á hálsliðina sem eru viðkvæmir eða slæmir. Mikið álag getur líka myndast á fáa liði sem eru einmitt þeir sem hreyfast of mikið meðan aðrir hálsliðir geta verið stífir. Gerum hálshreyfingarnar og liðkum hálsinn án þess að toga eða ýta!