Nú er styrktarþjálfun „inn“ og margir að eiga við lóðin þessa dagana eftir að hafa sett sér háleit markmið um áramótin. Styrktarþjálfun er eitt af því besta sem þú mögulega getur gert fyrir líkama þinn og með styrktarþjálfun eykur þú vöðvamassa og styrk og hliðaráhrif eru styrking beina og sina. En það er sorgleg staðreynd að stór hluti af þeim sem eru að rembast við lóðin huga frekar að því hversu miklar þyngdir þeir eru að eiga við heldur en hvernig þeir bera sig að við æfingarnar. Hérna eru karlmenn í miklum meirihluta. Eins og styrktarþjálfun getur verið frábær leið til bættrar heilsu getur glæfraleg styrktarþjálfun farið illa með þig. Þú ættir ávalt að hafa það að leiðarljósi að beita þér rétt við æfingarnar og því ætti egóið alltaf að lúffa þegar kemur að því að eiga við lóðin. Ein röng ákvörðun í þessum efnum getur haft alvarlegar afleiðingar. Byrjendur í þessu ættu ávalt að leita ráðgjafar til sérfræðinga í þessu en annars eru allar líkamsræktarstöðvar með ýmis tæki og tól þar sem hægt er að gera styrktarþjálfun á nokkuð áhættulausan hátt. Þau tæki henta byrjendum vel.