Hvað á ég að fá mér fyrir æfingu ?

Ég fæ þessa spurningu oft og iðulega og það er nú bara með þetta eins og annað að það sem hentar einum hentar kannski ekki öðrum. En smá „töfralausn“ sem ég sjálfur hef notað, og hefur reynst mér vel, er að fá mér hafragraut (með möndlum og chiafræjum) 90 mínútum fyrir æfingu, 2-3 soðin egg og kaffibolla. 20-30 mínútur fyrir æfingu fæ ég mér banana eða lúkufylli af vínberjum og kaffibolla. Dúndur!

Ég er alls ekki næringarfræðingur en áhugamaður mikill og þetta er mín reynsla og ég vill alls ekki vera of flókinn og blaðra um næringarefnin kolvetni, prótein og fitu, en örlítið samt ! Kolvetni í fæðu skiptist í einföld kolvetni (sykrur) og flókin kolvetni (sterkjur og trefjar). Og svo flæki ég þetta meira með því að segja að einföld kolvetni eru vondu kolvetnin og flóknu kolvetnin eru góðu kolvetnin. Þau eru sögð góð og slæm út frá áhrifum þeirra á blóðsykurinn, þeas þau kolvetni sem hækka blóðsykurinn hratt eru slæm en þau sem hækka hann hægt eru sögð góð. Best er auðvitað að hafa blóðsykurinn stöðugan og jafnan.

Vona að ég sé ekki búin að tapa þér frá pistlinum en svo ég snúi mér aftur að „töfralausninni“ þá gefur hafragrauturinn mér góð kolvetni(sterkju) og jafnan blóðsykur, chiafræin og möndlurnar gefa mér góða fitu og prótein og eggin eru einnig góður próteingjafi. Banani gefur mér svo góð kolvetni (trefjar) og gefur blóðsykrinum örlítið boozt þannig að ég sé ljónharður og klár í æfinguna. Kaffi er auðvitað bara kaffi og þurfum við ekkert að ræða það frekar 🙂

Svo er auðvitað mikilvægt að næra sig strax eftir æfingu, talað er um 20-30 mínútum eftir átök. Eftir það byrjar líkaminn að brjóta niður vöðva til að sækja sér orku, það viljum við ekki. En það er efni í annan pistil.