Þegar við keyrum bílinn þá fylgjumst við gjarnan með mælaborðinu sem gefur okkur margvíslegar upplýsingar um ástand bílsins og aksturslags okkar. Í mælaborðinu eru allskonar mælar hraðamælir, snúningsmælir, vegalengdarmælir, kælikerfishitamælir, eldsneytismælir, klukka ofl. Allt þetta hjálpar okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir varðandi aksturslag okkar.
Hagkvæm eyðsla
Svo við höldum áfram með samlíkinguna við bílinn þá vitum við að ef snúningsmælirinn er mjög hátt þá eyðum við óþarfa bensíni og setjum auka álag á bílvélina. Við erum með hraðamæli, vegalengdarmæli og klukku, og getum því auðveldlega reiknað út hvenær við getum búist við að vera komin á áfangastað. Þetta eru mjög mikilvægar upplýsingar.
Upplýsingar um púls á æfingu
Eins og með bílinn þá gefur púlsinn okkur lykilupplýsingar um “vélina” okkar, hjartað. Til þess að fá sem mest út úr æfingunni þá borgar sig fyrir okkur að fylgjast vel með hjartanu. Við viljum setja hæfilegt álag á það, ekki of mikið og ekki of lítið.
Mjólkursýra
Mjólkursýra (C3H6O3) er lífræn sýra sem myndast í vöðvum eða rauðum blóðkornum. Hún verður til við ófullkomið niðurbrot þrúgusykurs í vöðvum sem á sér stað vegna skorts á súrefni og berst út í blóðrásina og þaðan til lifrarinnar sem breytir mjólkursýrunni aftur í þrúgusykur og sendir aftur út í blóðrásina og þaðan til vöðvanna. Ferli þetta nefnist mjólkursýruhringurinn.
Þegar vöðvar eru undir miklu álagi og lungun ná ekki að sjá þeim fyrir nægilegu súrefni þá verður ófullkomið niðurbrot á glúkósa ráðandi vegna þess að það krefst minna magns súrefnis en fullkomið niðurbrot á glúkósa.
Mjólkursýruþröskuldur
Sem fyrr greinir hækkar styrkur mjólkursýru í blóði magnast jafnt og þétt við vaxandi álag, svo kemur að því að styrkurinn snögghækkar, það er svokallaður mjólkursýruþröskuldur. Til þess að hafa úthald lengur og draga úr meiðslahættu er best að vera undir mjólkursýruþröskuldinum. Hægt er að gera próf sem sýnir okkur við hvaða álag/púls okkar mjólkursýruþröskuldur er, og við notum púlsmæli til að halda okkur á réttum hraða, þeas rétt undir eða við mjólkursýruþröskuldinn.
Hitaeiningabrennsla
Í púlsmælinn setur þú inn þínar upplýsingar, aldur, hæð, þyngd, kyn. Út frá þessum upplýsingum og púlsslögunum þínum reiknar græjan út hitaeiningaeyðslu þína á æfingunni. Það er afskaplega hvetjandi að taka létta æfingu og sjá „brennslu“ á borð við tæplega 1.000 kcal, eins og á myndinni hér að neðan.
Mikið af upplýsingum
Púlsmælar eru mismunandi og sýna/geyma mismikið af upplýsingum. Sjálfur nota ég Polar M400, sem ég algjörlega elska. Hér er hægt að sjá dæmi um upplýsingar sem hægt er að fá úr græjunni.
Heimild:
Hvað er mjólkursýra og hvaða tilgangi þjónar hún? – http://www.visindavefur.is/svar.php?id=2169