Mér fannst vatn vont!

Ég ólst upp við að hafa gosdrykki á boðstólnum alla daga, alltaf. Nóg var til. Kók með matnum og kók við þorsta. Ég man ekki hvenær ég byrjaði að drekka gosdrykki en það hefur verið frekar snemma. Ég man hinsvegar eftir því, á unglingsárunum, að hafa komið heim af körfuboltaæfingu og skellt í mig hálfum lítra af kóki með klaka! Mér fannst þetta gífurlega svalandi. Vatnið lét undan, það var bara drukkið þegar ekkert annað var í boði, t.d. í hléum á æfingum ofl.
 

Ekki tók betra við

Þegar ég svo fór að lesa mér til og fræðast um heilsutengd málefni komst ég að því að allur þessi sykur gæti ekki talist hollur. Ég skipti yfir í „Diet“ drykki, þeir voru „sykurlausir“ og kaloríulausir, eða það voru skilaboðin sem okkur neytendum voru send á þessum tíma. Ég drakk ótæpilega af þessum Diet drykkjum, fyrst fannst mér þeir ógeðslegir en það vandist frekar fljótt og eftir stuttan tíma fannst mér ég vera háður þeim. Ég minnkaði gosdrykkjaneysluna eitthvað en drakk samt a.m.k. 1L af þessu á degi hverjum í mjög langan tíma.
 

Sterk fráhvarfseinkenni

Einn daginn, eftir að hafa lesið mér til um aspartame og mögulega skaðsemi þessi, ákvað ég að hætta að drekka diet-drykki og það sem innihélt aspartame. Ég hætti strax, samdægurs. Það var vægast sagt MJÖG erfitt! Ég fékk mjög sterk fráhvarfseinkenni, s.s. höfuðverk, svima og leið almennt mjög illa. Þetta varði í um 3 daga, en eftir það þá var ég „laus“ undan þessu og hef ekki drukkið þetta síðan! Síðan eru liðin amk 10 ár og þetta hefur verið ein sú besta ákvörðun lífs míns að losna við þetta.
 

Af hverju er gott að drekka vatn?

Stærstur hluti mannslíkamans er vatn, eða um 70%, en nægilegt magn vökva er nauðsynlegt til að viðhalda vökvajafnvægi líkamans og eðlilegri líkamsstarfsemi. Flest efnahvörf fara fram í vatni og því er mikilvægt að okkur skorti það ekki. Vatnið er drykkur án viðbætts sykurs eða sætuefna, sítrónusýru (E330) og rotvarnarefna. Vatn skemmir ekki tennur og eyðir ekki tannglerungi.
 

Spörum peninga og hitaeiningar

Hér á Íslandi höfum við víðast hvar gott aðgengi að drykkjarvatni beint úr krananum. Því er það skynsamlegt að spara bæði peninga og hitaeiningar með því að velja sem oftast vatn til drykkjar.
 
Vatn er besti svaladrykkurinn! Drekkum vatn!
 
Hefur þér reynst erfitt að hætta að drekka gos, sykraða eða með sætuefnum ? Okkur þætti gaman að heyra þína sögu, vinsamlegast deildu henni með okkur.