Rannsóknir sýna að mataræði og næringarástand barna og ungmenna hefur áhrif á heilsu þeirra, þroska, vöxt og alhliða líðan. Miklu skiptir að foreldrar séu meðvitaðir um þessa staðreynd og hið sama gildir um alla aðra í umhverfi þeirra þannig að börn og ungmenni fái sömu skilaboðin alls staðar frá.
Næring í skólum
Allir skólar ættu að kappkosta að auka velferð barna með hollri og fjölbreyttri næringu. Mikilvægt er að hafa í huga að hver máltíð, hver dagur og hver vika myndar næringarlega heild og því þarf að setja hverja máltíð og sérhvern dag rétt saman út frá orku- og næringarþörf barnanna. Skólar ættu því undantekningalaust að styðjast við opinberar ráðleggingar um mataræði og næringarefni auk þeirra handbóka sem Embætti landlæknis hefur gefið út fyrir eldhús í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Þar má finna grunnatriði næringarfræðinnar ásamt góðum ráðum og tillögum að matseðlum. Helstu áherslurnar eru:
- Grænmeti og ávextir daglega
- Fiskur að minnsta kosti 2 x í viku
- Vatn er besti svaladrykkurinn
- Þorskalýsi eða annar D-vítamíngjafi
- Olía eða mjúk fita í stað harðrar fitu
- Gróf brauð (a.m.k. 5-6 g í 100 g) og annar trefjaríkur kornmatur
- Sykur í lágmarki
- Salt í hófi
- Fituminni mjólkurvörur fyrir eldri en 2 ára
Í þessu tilliti er einnig mikilvægt að upplýsingar um matseðla skólanna séu aðgengilegar og foreldrar skoði þá þegar verið er að huga að heimilismatnum svo þetta næringarlega samhengi tapist ekki. Að sama skapi þarf að passa upp á að framboðið verði ekki einhæft og leiðigjarnt.
Skammtastærðir
Hvert barn þarf að læra að hlusta á líkamann og taka eftir merkjum um svengd og seddu. Hluti af því er að hver og einn fái að skammta sér sjálfur á diskinn og læri þannig á sitt magamál. Leikskólar standa sig alla jafna vel í þessu, þ.e. að kenna börnum að skammta sér sjálfum, en margir grunnskólar mættu leggja meiri áherslu á þetta atriði og halda áfram þar sem leikskólarnir skildu við. Bæði er þetta mikilvægt í næringarfræðilegu tilliti og eins hefur það sýnt sig að nýting matar þar sem börn og ungmenni skammta sér sjálf er mun betri og eru heimilin þá síður en svo undanskilin.