Fiskur tvisvar til þrisvar sinnum í viku

Höfundur:   0 athugasemdir

Samkvæmt nýjum opinberum ráðleggingum um mataræði er mælt með fiskneyslu 2-3x í viku.

Fiskur er góður próteingjafi og í honum eru einnig ýmis önnur næringarefni, svo sem selen og joð. Feitur fiskur er einnig auðugur að D-vítamíni og löngum ómega-3 fitusýrum en þessi næringarefni eru í fáum öðrum matvælum en sjávarfangi. Regluleg neysla á feitum fiski getur dregið úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum. Bæði feitur fiskur og magur hefur jákvæð áhrif á heilsuna en næringarinnihaldið er ólíkt og þess vegna skiptir máli að borða hvort tveggja. Ráðlagt er að borða fisk tvisvar til þrisvar sinnum í viku sem aðalrétt. Algengur skammtur af fiski er um 150 g. Æskilegt er að ein af fiskmáltíðunum sé feitur fiskur, t.d. lax, bleikja, lúða eða makríll.

Hollráð um fiskneyslu

  • Prófa mismunandi aðferðir við að matreiða fiskinn.
  • Hægt er að sjóða, gufusjóða, steikja eða grilla fisk eða baka í ofni með grænmeti og kryddjurtum.
  • Nota hvert tækifæri til að fá sér fisk, t.d. í mötuneytinu eða þegar farið er út að borða.
  • Nota fisk eða skelfisk sem álegg á brauð, í salöt, súpur og smárétti.
  • Nota afganga af fiskréttum í salöt, plokkfisk eða sem tortillufyllingu.
  • Velja skráargatsmerktar fiskvörur þegar kostur er.

 

Birt með góðfúslegu leyfi Embætti landlæknis

 

Bent er ÍAK einkaþjálfari og auk þess með sterkan bakgrunn í vef- og markaðsmálum og vann m.a. um árabil við markaðs- og auglýsingamál hjá World Class. Bent var vefstjóri Kópavogsbæjar um árabil og hefur einnig unnið við margvísleg verkefni hjá mbl.is. Bent er ljósmyndari og hafa myndir eftir hann verið birtar í blöðum víðsvegar um heim. Hann er auk þess bæði tónlistarmaður og tónlistarkennari og brautryðjandi í fjarkennslu á gítar. Bent er einnig menntaður í garðyrkjufræðum frá Garðyrkjuskóla ríkisins.

Segðu þína skoðun...