Epli, kanill og eplabaka – er hægt að biðja um það betra. Það er nefnilega óhætt að segja það að epli og kanill er eitt af mínu uppáhalds og í þessari blöndu er útkoman baka sem óþarfi er að baka.
Innihald – botninn:
- 2 bollar valhnetur
- ½ bolli döðlur
- ¼ tsk sjávarsalt
Aðferð – botninn:
- Döðlurnar steinhreinsaðar og saxaðar smátt áður en þær eru settar í bleyti í sjóðandi heitu vatni í 15-30 mínútur – vatninu er svo hellt af þeim
- Valhneturnar eru settar í matvinnsluvél og muldar niður í gróft mjöl (forðastu að gera of lengi því að þá verða þær að “smjéri”).
- Döðlunum ásamt saltinu er bætt við og blandað vel saman þar til blandan er aðeins klístrug.
- Ef þér finnst þetta vera of þurrt þá geturðu bætt við 1 tsk af vatni og séð svo til.
- Blöndunni er svo þjappað niður í form sem er klætt að innan með bökunarpappír (þá er svo auðvelt að kippa í pappírinn og skera bökuna í sneiðar).
- Botninn er geymdur í frystinum á meðan fyllingin er gerð.
Innihald – fyllingin:
- 3 stór græn epli (t.d. Granny Smith)
- 1 bolli eplasafi* (ath. heimagerður)
- ½ msk eplaedik
- ½ msk nýkreistur sítrónusafi
- 1 – 2 tsk kanill
- ¼ tsk múskat
- 1/8 tsk negull
- 1 bolli döðlur
*Eplasafi – best að nota sinn eigin – 4 epli pressuð í safapressu ná rúmlega bollanum sem þarf. Nú ef þú ert ekki með safapressu þá er hægt að nota venjulegan eplasafa.
Aðferð – fyllingin:
- ¼ bolli af eplasafanum er settur til hliðar.
- Eplin eru flysjuð, kjarnhreinsuð og skorin í þunna báta.
- Eplin, ¾ bolla af eplasafanum, edikið, sítrónusafinn ásamt kanil, múskat og negul er hrært saman í potti rétt yfir meðalhita þar til byrjar að sjóða. Þá er hitinn lækkaður og leyft að krauma í um 10 mínútur – hrærið í af og til.
- Á meðan eplin eru að krauma þá er döðlunum ásamt ¼ bolla af eplasafa blandað vel saman þar til silkimjúkt (t.d. í blender/matvinnsluvél).
- Botninn tekinn úr frystinum, helmingnum af döðlukreminu er smurt yfir botninn, þá er helmingnum af eplablöndunni dreift yfir.
- Því næst er afganginum af döðlukreminu dreift yfir og að lokum er afganginum af eplablöndunni hellt yfir og dreift vel úr.
Hægt að skreyta með valhnetum ef vill og bera fram með heimagerðum kókosrjóma eða jafnvel vanilluís.
Eplabökuna er hægt að bera strax á borð eða geyma í ísskáp – þ.v. í 2-3 daga.
Njótið!
Bestu heilsukveðjur frá Rotterdam,
Ásthildur Björns