Vítamín eru skilgreind sem lífræn efni er líkaminn þarfnast til að starfa eðlilega. Aðaluppsprettu vítamína er að finna í fæðunni, nema líkaminn getur framleitt D-vítamín fyrir tilstuðlan sólarljóss.
Líkaminn þarf vítamín (og steinefni) til þess að halda uppi starfsemi sinni til þess að búa til þúsundir ensíma, hormóna og annara efnasambanda sem hjálpa líkamanum að vaxa, gera við sjálfan sig, búa til orku, losa úrgang, vernda gegn sjúkdómum og allt annað hvað þarf til að líkaminn virki eðlilega.
Vítamín stjórna efnaskiptum í gegnum ensímakerfi líkamans. Skortur á einu vítamíni getur haft mikil áhrif á allan líkamann.
Vítamín hafa ólíka byggingu og virkni og hægt er að skipta þeim í tvo meginflokka:
Fituleysanleg vítamín (D-, E-, A-, K vítamín)
Geymast í líkamanum, mest í fituvef og í lifrinni. Þessi vítamín leysast í fitu en ekki vatni. Vegna þess að þessi vítamín geymast í líkamanum þá þurfum við ekki endilega að neyta þeirra daglega. En hinsvegar þá geta birgðir safnast upp og valdið vandamálum, jafnvel eitrunareinkennum ef neysla þessara vítamína er of mikil.
Vatnsleysanleg vítamín. (B- og C- vítamín).
Vatnsleysanleg vítamín staldra ekki lengi við í líkamanum. Þar sem þessi vítamín leysast upp í vatni þá losast þau auðveldlega út, m.a. með þvagi. Vegna þess að þessi vítamín geymast ekki í líkamanum þá þurfum við að fá nýjar birgðir daglega. Eitrunareinkenni eru sjaldgæf þar sem umframmagn skolast auðveldlega út, það er ekki nema að neysla sé langt úr hófi sem þau geta valdið vandamálum.
Heimildir:
Vitamin Bible for the Twenty-First Century (Earl Mindell’s)
Kennsluefni í Næringarfræði, ÍAK. Höf: Hrafnhildur Eva Stephensen, næringarfræðingur.