fbpx

Heilsurækt – hvað er í boði ?

Höfundur:   0 athugasemdir

Þegar kemur að heilsu og líkamsrækt þarf að hafa að leiðarljósi að góðir hlutir gerast hægt og að hreyfingin þarf að vera lífstíll, s.s hluti af lífi hvers og eins. Stutt átak gagnast eins og nafnið ber til kynna stutt og hætta er á að sá árangur sem náðst hefur fari forgörðum og skrokkurinn jafnvel í verra far, þegar gamli sófalífstíllinn tekur aftur við.

Finndu hreyfingu sem þér finnst skemmtileg
Það er æðislega gaman að stunda líkamsrækt og það er um að gera að finna sér eitthvað við hæfi. Ég heyri reglulega að margir hreyfa sig af illri nauðsyn, finnast þetta bæði erfitt og hundleiðinlegt. Slíkt viðhorf er ekki gott og ég hvet fólk til að leita sér upplýsinga um hvað sé í boði og fara af stað með markmið í huga og fögur fyrirheit um glæða líf sitt með skemmtilegri hreyfingu fyrir líkama og sál.

Úrvalið er miklu meira en fólki órar fyrir
Það er nefnilega fjölmargt í boði og í raun miklu meira en fólki órar fyrir. Fyrir utan þá aðstöðu sem líkamsræktarstöðvarnar hafa, alla einkaþjálfarana og alla þá hóptíma sem í boði eru, er einnig að finna eitthvað við hæfi flestra hjá aðildarfélögum ÍSÍ.

Til að mynda er hægt að mæta í byrjendatíma í badminton hjá TBR, einnig trimmaratíma og síðan er hægt að leigja sér völl hvaða kvöld sem er alla daga vikunnar. Það sama gildir um skvass t.d hjá Veggsport. Einnig eru margir að spila old boys eða old girls í fótbolta, körfubolta og blaki. Hægt er að stunda dans og allt þar fram eftir götunum.
Á gönguleiðir.is er að finna fjölmargar skemmtilegar gönguleiðir um land allt. Þar má m.a finna greinagóðar lýsingar á gönguleiðum, myndir og fróðleik.

Hreyfitorg.is er síðan gagnvirk vefsíða sem ætlað er að stuðla að aukinni hreyfingu landsmanna. Hlutverk vefsíðunnar er að brúa bilið á milli þeirra sem leita eftir þjónustu og þeirra sem bjóða upp á hana. Hægt er að fletta upp hvað er í boði eftir svæði á höfuðborgarsvæðinu eða eftir bæjarfélagi. Þeir aðilar sem standa að baki verkefnisins eru m.a landlæknir, Ísí og íþrótta-og heilsufræðifélag Íslands. Vefurinn er í vinnslu en nú þegar er ýmislegt komið sem flestir geta haft gagn og gaman af.

Eitthvað í boði fyrir alla
Það er alveg ljóst að eitthvað er í boði fyrir alla. Það er bara að opna sig fyrir öllum möguleikunum. Margir forðast að mæta í stórar líkamsræktarstöðvar, fá hreinlega víðáttubrjálæði og snúast bara í hringi innan um öll tækin. Fyrir slíka einstaklinga er um að gera að fara reglulega út að ganga, fara í sund eða verða sér út um tuðru og arka á næsta völl og skvetta úr klaufunum.

Það er í höndum þjálfara og reyndar aðstandenda ef svo ber undir að hvetja, leiðbeina og vera til staðar en ekki að draga fólk af stað. Fólk verður að finna til þess viljann og áhugann. Verum meðvituð um eigin heilsu og könnum hvað er í boði og prófum okkur áfram.

Víðir Þór Þrastarson

Víðir Þór er íþrótta- og heilsufræðingur frá HÍ og heilsunuddari frá Nuddskóla Íslands.

Segðu þína skoðun...