Það að stunda reglulega líkamsrækt er tær snilld, fjöldi fólks leggur leið sína í ræktina til að auka hreysti sína og bæta útlit. Nokkrar góðar reglur má þó hafa á kantinum til að fá sem mest út úr hverri æfingu.
Byrjum á bílaplaninu:
Mér finnst það alltaf jafn magnað að sjá fólk hringsóla um stæðin sem næst inngangnum. Sumir meira að segja bíða eftir að stæði losni frekar en að leggja aðeins lengra frá og fá sér göngutúr í fersku lofti og byrja að hreyfa sig, s.s hefja æfinguna þannig. Það er þá alveg hægt að setja á sig húfu sé veðrið það svakalegt að ekki er hægt að labba meira en 20 metra.
Upphitun:
Er mjög mikilvæg, hún undirbýr líkamann undir frekari átök, vöðvarnir hitna og verða teygjanlegri og meiri líkur eru á árangri og minni hætta á meiðslum. Ráðlagt er að hita upp í amk 10 mín og gott er að hafa upphitunina stigvaxandi, t.d ef hitað er á bretti að byrja að ganga á hraða 5 og smám saman að gefa í og enda kannski á hraða 15. Hita fram að svita, ennið er besti hitamælirinn en ef það er rakt eftir upphitun þá tókst hún vel upp.
Þjálfaðu alla þætti:
Eftir upphitun þá endilega taka æfingu sem þjálfar alla þætti, þ.e þol, liðleika, styrk, jafnvægi og samhæfingu. Fáið ráðleggingar hjá einkaþjálfurum eða flettið upp æfingum og aðferðum á netinu, það er alger óþarfti að finna upp hljólið, leitið og þér munið finna.
Ekki skella lóðum:
Þetta fyrirbæri finnst mér vera að aukast, í flestum tilfellum er það karlkynið sem skellir lóðum svo glymur um allan sal, sumir halda kannski að þeir looki sterkari með því að negla lóðunum niður en það fólk sem verkjar í eyrun á eftir eru ekkert að pæla í því. Eins og Bjössi í World Class segir oft, ef þú getur ekki lagt lóðin hljóðlaus frá þér, ekki taka þau upp.
Nýttu tímann vel og taktu á því:
Ég ætla að byrja á að hrósa þeim sem mæta fyrir að mæta og stunda líkamsrækt, það er frábært. Margir geta þó nýtt tímann sinn mun betur. Hægt er að ná mjög góðri æfingu á 30 mín sé haldið sig við efnið. Ekki of löng bið á milli setta og tækja, taka stuttar en snarpar lotur, gæta þess þó að fara ekki framúr sér, það þarf að gera hlutina vel.
Margir eru síðan að mæta sér til skemmtunar og til að hitta fólk og það er gott og blessað, bara á meðan það hittir aðra í sömu erindagjörðin og trufli ekki þá sem eru að hamast.
Ekki halda í brettið eða hanga á steppernum:
Ef verið er að ganga í halla á brettinu til styrkja fætur og auka þol, á ekki að halda sér í brettið, þá er verið að taka út hallinn og því tilgangslaust að hafa yfirhöfuð halla. Frekar á að ganga hægar fyrst um sinn en auka síðan hraðann jafnt og þétt eftir því sem líkaminn aðlagast áreitinu.
Það sama gildir um stepper, ekki stilla á hátt level svo viðnámið verði lítið en hanga síðan uppi á höndunum, það skilar litlu. Frekar að notast við hæfilegt viðnám og virkilega nota fæturna og auka síðan erfiðleikastigið eftir því sem þolið batnar.
Ekki gleyma að teygja:
Teygjur eru gríðarlega mikilvægar í lok æfingar, ekki gleyma þeim
Endilega síðan að fá sér heilsusamlega næringu eftir góða æfingu, eitthvað sem inniheldur prótein og flókin kolvetni. Mæli með lífrænum möndlum og lífrænni peru og skola því niður með og boosti úr avocado, eplum og smá sítrónu.
Heilsukveðja,
Víðir Þór