Frændi minn og góðvinur hringdi í mig fyrir síðustu helgi og spurði hvað ég tæki fyrir nudd í Laugum. Ég sagði honum að heilnudd sem er klukkutími ásamt dagspassa í tækjasal og Baðstofu kostaði 10.900.- kr. Þetta fannst honum of dýrt og málið þar með sett í salt.
Ófögur sjón á sunnudegi…
Á sunnudeginum kíki ég á kallinn í heimsókn. Hann kemur til dyra eins og hann hafði orðið fyrir valtara, hreinlega eins og barinn harðfiskur. Draugþunnur og ómögulegur. Hann hafði s.s farið á fyllerí í staðinn fyrir að stunda heilsurækt og njóta slökunar. Ég spurði að gamni hvað kvöldið hefði kostað, hann vildi helst ekki hugsa út í það en taldi svo upp nokkrar upphæðir sem fóru í leigubílinn og á barnum.
Öllarar og spreð
En sá gamli fékk sér nokkra öllara og skot ásamt því að bjóða nokkrum gellum í glas sem þáðu sopann með þökkum en hurfu síðan á braut, fyrir utan eina sem hnéaði hann í punginn þegar hann gerðist aðeins of ágengur við að fá eitthvað í staðinn fyrir að hafa boðið í glas.
Minnst 20.000 kr
Hann hélt að kvöldið hefði kostar minnst 20.000.- kr. Ok, hann eyddi 9.000.- kr meira í að fara á djamm og sjóða nokkrar heilasellur, sía út mörg nauðsynleg næringarefni og hræra tímabundið í grunnefnaskiptunum, auk þess að vera helaumur í pungnum á eftir og loks að eyða deginum eftir í bælinu.
Heilbrigðari fjárfesting
Hefði hann ákveðið að fjárfesta í heilsu sinni og komið í nudd hefði hann getað mætt um hádegi og tekið góða æfingu, farið síðan í gufu eða heitan pott og hitað sig vel upp fyrir nuddið. Slakað síðan vel á í nuddinu auk þess að njóta ávinning þess að unnið sé á stífum vöðvum, vöðvabólgu og hreyft við sogæðavökvanum sem sér um að sía út úrgangsefni. Loks að fá inn orku og heilun en allt þetta býður nudd uppá. Eftir nuddið hefði hann getað haldið áfram slökun í heitum potti eða gufu og notið enn þeirra áhrifa sem nuddið býður upp á.
Lærð lexía
Hann lofaði sjálfum sér því að næst myndi hann fjárfesta í nuddinu til að næra sig á líkama og sál og spara tvo fimmara. Í stað þess að spandera á djamminu og enda í líkamlegu og andlegu niðurrifi, með auman pung og bullandi þynnku.
Lifið heil!