Bættu líf þitt með kókosolíudekri

Ég er alveg ofsalega hrifin af kókosolíu – nota hana í matargerð, hvort sem er til að steikja uppúr eða til að setja út í smoothies.  Þá nota ég hana einnig á þurrkubletti og eins getur verið gott að setja hana í þurran hársvörð.  Það góða við þessa dásamlegu olíu er að það er hægt að nota hana til viðbótar á marga vegu.

Ertu að nýta þér eiginleika kókosolíunnar út í hið óendanlega?

1. Settu olíuna í hárið.
Olían er þá notuð hvort sem er til að styrkja og auka gljáann í hárinu eða til að vinna á flösu – svona svipað og rándýrir hármaskar eiga að virka nema með olíunni ertu laus við ýmis óæskileg aukaefni. Það er einfalt að búa til þinn eigin maska:

Aðferð: bræða 3-4 msk af kókosolíu (setja í glas og ofan í vaskinn með heitu vatni eða skella olíunni í örbylgjuna ef þú notar slíka græju en þá verðurðu einnig að passa að hafa olíuna aðeins í örstutta stund svo að olían verði ekki of heit þannig að þú brennir þig). Olíunni er svo nuddað í hársvörðinn og dreift út í endana. Látið vera í hárinu í a.m.k. 1-2 klst og jafnvel yfir nótt. Fínt að nota sturtuhettu til að olían makist nú ekki út um allt. Svo er bara að skola olíunni úr með góðri hársápu og frekar köldu vatni og hárið verður dásamlegt á eftir.

2. Notaðu kókosolíuna sem húðgljáa.
Ýmsir snyrtivöruframleiðendur nota kókosolíu í sínar vörur til að gefa húðinni ákveðin gljáa og ljóma. Settu örlitla olíu á kinnbeinin og dreifðu vel úr með fingrunum.

3. Kókosolían notuð sem andlitshreinsir.
Ótrúlegt en satt þá getur stundum virkað að nota kókosolíu gegn bólum. Jómfrúar kókosolían stíflar ekki svitaholurnar og kemur í veg fyrir frekari unglingabólur með því að þrýsta út “slæmum” olíum sem stífla svitaholurnar ásamt óhreinindum og bakteríum sem valda bólum og fílapenslum. Það sem kókosolían gerir er að djúphreinsa húðina ásamt því að innihelda tvö öflug og náttúruleg næringarefni lárin- (lauric) og kaprýlsýru (carpylic) sem hafa góð áhrif á unglingabólur sem rekja má til baktería.

Aðferð: Byrjaðu á að þvo þér varlega með volgu vatni til að opna svitaholurnar, forðastu samt að nudda húðina of mikið og of fast. Notaðu þvínæst örlitla kókosolíu á andlitið og nuddaðu varlega allt andlitið, gott að nudda í örlitla hringi. Skolaðu olíuna með volgu vatni og rétt þerraðu andlitið með mjúku handklæði. Njóttu þess að hafa silkimjúka húð.

4. Kókosolía í staðinn fyrir rándýr augnkrem.
Þar sem húðin í kringum augun er mjög þunn þá viltu vita nákvæmlega hvað það er sem þú berð á þig. Því er dásamlegt að nota óunna og lífræna jómfrúar kókosolíu á þetta viðkvæma húðsvæði sem stundum vill verða of þurrt og er sérlega viðkvæmt fyrir hrukkumyndun. Húðin mýkist upp, fær góðan raka og þú getur einnig borið örlítið á augnhárin svo að þau fái einnig góða næringu ásamt fallegum gljáa.

5. Sem augn- og andlitsfarðahreinsi.
Hægt er að nota kókosolíuna sem farðahreinsi – ódýr og einföld leið. Olían getur jafnvel fjarlægt vatnshelda maskara á áhrifaríkan hátt. Gott að setja rétt um ½ tsk af olíu á bómullarhnoðra og þurrka varlega burt farðann í kringum augun og á andlitinu. Skolað svo vandlega með volgu vatni til að fjarlægja olíuna að mestu. Húðin verður mjúk og laus við þurrk á eftir.

6. Nuddaðu húðina með kókosolíu til að koma í veg fyrir húðslit.
Berðu olíuna t.d. á kviðinn og lærin kvölds og morgna til að koma í veg fyrir húðslit.

7. Heimagert kókosolíu húðskrúbb.
Ódýrt, einfalt og hreint skrúbb og þú veist nákvæmlega hvað þú ert að bera á þitt allra stærsta líffæri – húðina. Einföld uppskrift að heimagerðum húðskrúbb hljóðar þannig:

Aðferð: Notaðu brædda kókosolíu og púðursykur (ef þú ert kannski ein/n af þeim sem eru að fara að minnka sykurneysluna og átt eftir að fara í gegnum eldhússkápana og henda út öllum sykrinum þá er algjör óþarfi að henda stóra Kötlu-púðursykrinum) eða blandaðu saman matarsóda og hunangi í staðinn fyrir brúna sykurinn. Blandan er svo geymd í krukku og jafnvel notuð daglega til að skrúbba burt dauðar húðfrumur, fá góðan raka og mýkja upp húðina. Nuddaðu húðina í a.m.k. 5 mínútur áður en þú ferð í sturtu/bað. Þú gætir jafnvel fundið fyrir því að húðin sé frekar mikið olíuborin eftir að hafa þurrkað þér en eftir smástund ættirðu að finna hversu húðin er mýkri eftir þetta góða dekur.

Jarðarber - sma breytt

8. Jarðarberja & kókosolíu fótaskrúbb.
Dekraðu við þig með þessum dásamlega náttúrulega fótaskrúbb.

Aðferð: Ef svo dásamlega vill til að þú eigir til tvö stór og mjög þroskuð jarðarber þá er gott að nota þau í þennan skrúbb. Stappaðu þau vel niður í skál og bættu smávegis af kókosolíu saman við. Byrjaðu á að nota 1 msk af bræddri kókosolíu. Þú getur þá alltaf bætt við ef þarf. Áður en þú setur skrúbbinn á fæturnar þá skaltu fara í vel heitt fótabað í um það bil 5 mínútur. Þurrkaðu fæturna og nuddaðu svo skrúbbnum á þig. Litlu kornin í jarðarberjunum hjálpa til við að nudda harða hæla og losa þig við dauðar húðfrumur. Húðin verður silkimjúk á eftir.

9. Bættu kókosolíunni út í baðvatnið.
Örfáar teskeiðar af bræddri olíu út í heitt baðið heldur húðinn rakri og silkimjúkri ásamt því að lyktin mun hafa róandi áhrif. Ókosturinn við að fara þessa leið er að baðið verður frekar fitugt og í passaðu þig á að renna ekki á sleipum botninum.

10. Notaðu kókosolíuna í staðinn fyrir raksápu.
Þú getur alveg komist hjá því að nota raksápu með ýmsum óæskilegum aukaefnum við raksturinn þegar þú átt kókosolíu á heimilinu. Kókosolían hefur bæði bakteríu- og sveppaeyðandi áhrif. Olían inniheldur hollar fitusýrur sem mýkja og veita húðinni þann raka sem hún þarf. Eftir raksturinn verður húðin silkimjúk.

11. Berðu kókosolíuna á viðkvæma húð (t.d. bleyjuútbrot).
Hefur róandi áhrif á útbrotin án þess að erta húðina. Húðin grær því betur og jafnar sig fyrr.

12. Nuddaðu kókosolíunni á naglaböndin.
Byrjaðu á því að þvo þér vel um hendurnar með vel volgu vatni. Gefðu þér svo tíma til að nudda hvert og eitt naglaband með olíunni.

13. Kókosolían sem rakagjafi.
Þú getur þ.v. skipt út rándýra body-lotioninu þín og húðolíunni fyrir kókosolíuna sem veitir húðinni bæði raka, mýkt og græðandi áhrif.

14. Notaðu kókosolíuna sem varasalva.
Færðu stundum þurrar og sprungnar varir? Frábært að nota kókosolíuna til að mýkja upp varirnar. Fitusýrurnar í olíunni gefa þurrum vörunum góðan raka og varirnar verða sléttari og mýkri.

15. Róandi áhrif á húðexem.
Stundum blossar húðexem upp þegar húðin verður of þurr t.d. vegna kulda, ertandi þvottaefna, vegna neyslu á ákveðnum fæðutegundum o.fl og þá er hætta á mikilli ertingu og sárum. Því getur verið gott að nota olíuna reglulega til að fyrirbyggja hinn mikla þurrk sem getur orðið og viðhalda þá jafnframt hinum náttúrulega raka í húðinni.

16. Nota kókosolíuna sem munnskol (oil pulling).
Það eru til nokkrar litlar rannsóknir sem hafa sýnt fram á að munnskol með olíu geti haft ýmsan heilsusamlegan ávinning og þá sérstaklega varðandi munnheilsu. Þessi notkun á olíu er alls ekki ný af nálinni heldur aldagömul aðferð til að viðhalda munn- og tannheilbrigði. Hin góðu áhrif skolunarinnar felast í því að olían dregur í sig slæmar bakteríur, sveppi og aðrar óæskilegar örverur úr munninum, tönnunum, gómunum og jafnvel úr hálsinum.

Aðferðin: Þú gleypir um 1 msk af kókosolíu – alveg eins og þú gerir t.d. með venjulegt munnskol og lætur olíuna veltast um í munninum í 10-15 mínútur. Forðastu að kyngja olíunni því að jú olían dregur að sér þessar óæskilegu örverur sem við viljum losna við úr líkamanum. Þegar olían hefur fengið að veltast um munninn í þennan æskilega tíma er gott að spýta olíunni í ruslið eða klósettið – forðastu að spýta henni í vaskinn því að leiðslurnar hafa örugglega ekkert gott af því að fá olíuna í sig. Ég nota þessa aldagömlu hreinsunaraðferð þegar ég fer í sturtu á morgnana. Þá gleypi ég kókosolíuna rétt áður en stigið er inn í sturtuna, sturta mig og þurrka og þá ætti að vera komin tími til að spýta.

Skora á þig að prófa og finna hversu hrein/n í munninum þér átt þú eftir að finnast eftir skolunina.