Ég er óstöðvandi!

Á íþróttavellinum má sífellt heyra þjálfarana hvetja sitt fólk. Þegar fólk hleypur í Reykjavíkurmaraþoninu þá talar það oft um hversu mikla hvatningu það fékk frá þeim sem stóðu á hliðarlínunni. Hvatning skiptir máli – hvatning hefur mjög góð, jákvæð og jú hvetjandi áhrif.

Þegar vinkona/vinur okkar stendur fyrir framan okkur og líður greinilega ekki nógu vel – hvað gerum við? Jú við segjum nú yfirleitt eitthvað til uppörvunar. Við hvetjum viðkomandi. Veitum hrós, segjum eitthvað fallegt og uppbyggjandi.

Hvernig er það þegar okkur sjálfum líður ekki nógu vel? Við dettum stundum niður í sjálfsniðurrifsorðin en myndum við segja slík orð við vinkonu/vin okkar?

– Ég efast um það.

Þú hefur eflaust staðið á hliðarlínunni hjá einhverjum sem þér þykir vænt um og jafnvel hrópað og kallað til að hvetja einstaklinginn áfram.

Af hverju ekki að hvetja þig sjálfa t.d. ef þú ert að fara á mikilvægan fund, ert að fara á æfingu – já eða til að gera þig klára fyrir daginn.

Það sem þú segir við sjálfa þig hefur mikil áhrif á hvernig þér líður og mun líða þann daginn. Ef þú ert stöðugt að segja við sjálfa þig “ohhh ég er svo stressuð” þá muntu verða stressuð. Hugsaðu í staðinn um hvernig þig langar til að líða og búðu þér jafnvel til kröftuga möntru (litlu einræðuna þína) sem inniheldur uppbyggileg og hvetjandi orð til þín. Gefðu þér þessa gjöf – daglega.

Notaðu orð eins og: sterk, áhrifamikil, örugg, óstöðvandi, einbeitt, nær árangri, eldmóður, þorin, ákveðin, óttalaus – við listann má lengi bæta við – notaðu þín orð og ef þú rekst á jákvæð orð sem þér finnst lýsa þér – orð sem þú rekst á t.d. í dagblöðum eða heyrir á fundum – skrifaðu þau niður og notaðu þau í möntruna þína.

Veldu orð sem kveikja í þér, orð sem fá þig til að langa til að koma hlutunum í verk, orð sem hafa þau áhrif á þig að þér finnst þú geta allt.

Þegar þú vaknar á morgnana horfðu þá á sjálfa þig í speglinum og endurtaktu frasana sem virka fyrir þig:

  • “ÉG er óstöðvandi og hræðist ekki framtíðina!”
  • “ÉG er með fullkomna stjórn!”
  • “ÉG ætla að komast í gegnum þetta!”
  • “ÉG get þetta!”
  • “Mig langar til að ná þessum árangri……!”
  • “ÉG get, ÉG ætla, ÉG skal = GÆS!”

Vendu þig á að gefa þér jákvæð orð og setningar á morgnana – byrjaðu daginn vel með góðum og vel völdum orðum frá þér til þín.

Jákvætt “sjálfstal” virkar. Margir af fremstu íþróttamönnum heims gefa sjálfum sér “sjálfstal” til að gera þá andlega tilbúna fyrir leikinn/keppnina – og þú getur einnig gert það.  Prófaðu!  Veittu sjálfri þér hrós – strax í dag!

Gangi þér innilega vel.

Bestu heilsukveðjur frá Rotterdam,
Ásthildur Björns