Túrverkir og fyrirtíðarspenna – hvað er til ráða?

Flestar konur hafa einhvern tímann á lífsleiðinni fundið fyrir túrverkjum og jafnvel hinni ógurlegu fyrirtíðarspennu. Hjá sumum hafa einkennin breyst með árunum, meiri eða minni verkir, meiri eða minni blæðingar o.s.frv. – Sjálf fann ég einmitt fyrir breytingu eftir að ég átti eldri dótturina og aftur eftir að ég átti þá yngri. Þá hef ég fundið geysilegan mun til hins betra eftir að ég tók mataræðið í gegn. Við getum nefnilega haft ansi mikil áhrif á hvernig líkami okkar fer í gegnum þetta mánaðarlega ferli með því að vera meðvitaðar um hvað við setjum ofan í okkur og hvernig við hugsum um líkama okkar.

Hér eru nokkur ráð til að minnka einkennin:

1.) Hot Yoga.

Með því að svitna ertu að hreinsa út afgangs kortisóli og eykur einnig efnaskiptin á estrógeni, sem er nauðsynlegt fyrir jafnvægi hormónanna á þessum tíma mánaðarins. Þá hjálparðu einnig líkamanum að losna við umfram vatn, bjúg og að vera útblásin sem svo margar konur þekkja þegar þær eru á túr með því að svitna vel og mikið. Að lokum hjálpa mjúku og rólegu hreyfingarnar við að auka framleiðslu á hormónunum serótónin, dópamín og oxytosín sem mun hjálpa þér að líða ennþá betur andlega.

2.) Útbúðu þér þitt eigið dekur & spa heimafyrir.

Prófaðu að bæta við t.d. Epsom-salti í baðvatnið, notaðu einnig salt þegar þú nuddar líkamann með heitum þvottapoka, eða skrúbbaðu húðina með salti og jafnvel olíum í sturtunni. Leyfðu þér að hugsa vel um þig – settu þig í fyrsta sætið og dekraðu aðeins við líkama þinn – og best er ef þú getur komið þér upp rútínu og gert slíkt dekur reglulega. Þú munt finna muninn á þér sjálfri og líkami þinn mun vera þér innilega þakklátur.

3.) Hitapokinn góði!  

Á mörgum heimilum er gamli góði hitapokinn til og á þessum tíma tíðahringsins er einmitt snjallt að nota hann.  Með því að leggja heitan pokann yfir kviðinn þá slaknar á kviðvöðvunum og hefur þar með verkjastillandi áhrif.

4.) Heimagerður safi

Búðu þér til safa til að minnka einkenni fyrirtíðarspennunnar: 2 meðalstórar rauðrófur, ½ búnt kóríander, 1 lítil sítróna með hýðinu (ef hún er lífræn), 3-4 stilkar af grænkáli eða 3-4 lúkur af spínati, ½ grænt epli, 2 stilkar sellerí, 2-3 cm engiferbútur. Allt sett í safapressu og ef þú átt ekki safapressu þá geturðu notað blender og síað þá hratið frá með t.d. síupoka.

5.) Dragðu verulega úr neyslu á mjólkurvörum.

Mjólkurvörur eins og mjólk, ostur og jafnvel jógúrt geta haft aukin áhrif á tíðaverki og önnur einkenni með því að auka við estrógenmagnið í líkamanum. (Mjólkurafurðir unnar úr kúamjólk innihalda kvenhormónið estrógen). Skiptu út kúamjólkurafurðum fyrir t.d. möndlu- og kókosmjólk. Það getur einnig verið ágætt að lágmarka neyslu á sojavörum þar sem soja inniheldur efni sem virkar eins og estrógen í líkamanum.

6.) Forðastu að sleppa úr máltíðum.

Þú vilt halda góðu jafnvægi á blóðsykrinum og með því að sleppa úr máltíðum þá eykurðu á ójafnvægi hans. Á þessum tíma mánaðarins er einmitt mjög mikilvægt að halda blóðsykrinum stöðugum því ef hann er óstöðugur þá eru meiri líkur á skapsveiflum og einkenni fyrirtíðarspennu magnast upp.

Með heilsukveðju,
Ásthildur Björns


Heimildir:

Gottfried, S., (2013). The Hormone Cure. New York, NY:Scribner

Andres, S., Abraham, K., Appel, K. E., & Lampen, A. (2011). Risks and benefits of dietary isoflavones for cancer. Cr Rev Toxicol, 41(6), 463–506.

Helferich, W., Andrade, J., & Hoagland, M. (2008). Phytoestrogens and breast cancer: a complex story. Inflammopharmacol, 16, 219–226.