Svefn er öllum manneskjum mikilvægur enda ein af grunnþörfum mannsins. Hann endurnærir líkamann, veitir hvíld, endurnýjar orku auk þess að styrkja ónæmiskerfið sem gerir okkur betur í stakk búin til að mæta alls kyns umgangspestum og öðrum kvillum. Ef við náum ekki að uppfylla svefnþörf okkar þá getur það valdið streitu sem safnast upp í líkama okkar. Slíkt getur valdið pirringi, hvatvísi, skorti á einbeitingu og skert hæfni okkar til náms. Því er nægur og góður svefn einfaldlega mikilvæg forsenda góðrar líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar heilsu og vellíðunar.
Svefntími barna
Samkvæmt rannsóknum Örnu Skúladóttur, barnahjúkrunarfræðings, á íslenskum börnum, spannar heildarsvefntími 9-14 mánaða gamalla barna 12,5 – 15,5 klst. á dag og sefur þessi aldurshópur að meðaltali 10,8 klst. að nóttu og 2,9 klst. að degi.
Heildarsvefntími barna í aldursflokknum 15 – 23 mánaða mælist á bilinu 11,5 – 15,5 klst. á dag og sefur sá aldurshópur að meðaltali 11 klst. yfir nóttina og 1,8 klst. yfir daginn. Heildarsvefntími 2-4 ára barna er 10,5 – 13 klst. og er meðalhlutfall dagsvefns ekki nema 0,1 klst. enda flest börn á þessum aldri hætt að sofa á daginn. Frá 5 ára aldri og fram á táningsár er heildarsvefntíminn á bilinu 9 – 11 klst. á sólarhring.
Svefnmynstur og –umhverfi
Svefnmynstur einstaklinga eru að sjálfsögðu mismunandi en til að reyna að meta hvort barn hafi fengið nægan svefn er ágætt að miða við að ef það á auðvelt með að vakna þá hafi það sofið nóg. Góður svefn næst með heilbrigðum svefnvenjum og þar gegna foreldrar lykilhlutverki þegar kemur að því að leiðbeina börnum sínum um slíkt. Svefn og svefnvenjur barna snerta nefnilega alla fjölskylduna og hafa óhjákvæmileg áhrif á það hvernig foreldarnir sofa.
Mikilvægt er umhverfið þar sem við leggjumst til svefns sé rólegt og hlýlegt og til þess fallið að kalla fram vellíðan. Þá eru mun meiri líkur á því að við náum þeirri slökun og ró sem er svo nauðsynleg til að geta fjarlægst áreiti dagsins og notið hvíldarinnar sem gerir okkur síðan tilbúnari til að takast á við næsta dag með jákvæðu hugarfari og gleði.