fbpx

Hvað er góð heilsa og hvernig öðlumst við hana ?

Höfundur:   0 athugasemdir

Er góð heilsa að vakna verkjalaus? Eða geta geta gengið upp 2 hæðir í húsi án þess að vera aðframkominn af þreytu og vanlíðan ?  Er góð heilsa að hlakka til morgundagsins án kvíða og laus við áhyggjur ?  Er góð heilsa að geta hlaupið 5km ?  Er góð heilsa að geta stokkið til þegar vinur þinn býður þér í hestaferð eða fjallgöngu ?

Svarið er JÁ.

Við þurfum fyrst að skilgreina hvað góð heilsa þýðir fyrir okkur.  Ef við höfum skýra mynd af því heilsufarslega ástandi sem við viljum ná þá eigum við möguleika á að ná því.

Hvað er góð heilsa fyrir þér ?

Við höfum öll mismunandi forsendur fyrir okkar nálgun á lífið og tilveruna.  Við búum að þeirri reynslu sem er að baki okkur og hefur mótað okkur. Við höfum etv mætt erfiðleikum á leiðinni, lent í slysi eða öðrum áföllum sem hafa mikil áhrif á okkur á degi hverjum.   Allir þessir þættir hafa áhrif á okkar stöðu í dag, bæði líkamlega og andlega.

Hvernig við skilgreinum góða heilsu miðast við okkar ástand í dag.  Ef þú býrð við ágæta heilsu og ferð hæglega í gegnum daginn án þess að vera þjakaður af verkjum við minnstu hreyfingar þá eru þín heilsutengd markmið eðlilega annars eðlis en þeirra sem eru þjakaðir af verkjum, sofa illa og með litla sem enga hreyfigetu.

Hver eru þín markmið ?

Byrjaðu á því að skoða hvað þú getur gert og hefur gaman af því að gera.  Því næst skaltu hugsa um hvað þig langar að geta en hefur e.t.v. ekki heilsu til eins og staðan er í dag.  Þú gætir verið að glíma við veikindi, slys, bakvandamál, þunglyndi eða aðrar aðstæður sem halda aftur af þér.

Settu þér tímaramma

Bandaríski rithöfundurinn Napoleon Hill hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði: „ A goal is a dream with a deadline.“.  („Markmið er draumur með eindaga.“)

Ef enginn eindagi er á markmiði þínu þá dregur þú sjálfkrafa úr mikilvægi þess að ná því.  Við það að setja eindaga á markmiðið þá ertu kominn með ábyrgð sem þú þarft að axla, fyrst og fremst gagnvart sjálfum þér en hugsanlega öðrum líka.

Settu þér raunhæf markmið en hafðu þó takmarkið í huga

Ef þitt markmið er t.d. að geta gengið 1km, en átt í erfiðleikum með að ganga lengra en út að næsta ljósastaur, prófaðu þá að ganga örlítið lengra næst og ögraðu þér smá en hugaðu að því að fara ekki of geyst af stað í markmiðin.  Taktu einn dag í einu.   Bútaðu stóra markmiðið niður í minni viðráðanlegar einingar, þannig kemstu nær markmiðinu með fullt af litlum sigrum. Markið þín geta verið margvísleg, þau geta tengst hreyfingu, hugarfari, mataræði, samskiptum eða hvað annað sem þér dettur í hug.

Hvað þarftu til að ná þínum markmiðum ?

Getur þú náð markmiðum þínum ein/n eða þarftu hjálpar einhvers ? Það eru frábærir fagaðilar á heilsusviðinu reiðubúnir til að aðstoða þig að ná þínum settum markmiðum.  Ekki vera feimin/n að biðja um aðstoð.

Ekki gefast upp!

Mundu að það tekur tíma að fá uppskeru.  Það er alltof mikill hraði í nútíma samfélagi sem hefur svolítið skekkt kompásinn okkar hvað varðar verðlaun erfiðisins.  Ef við notum líkinguna við uppskeru þá setjum við niður kálið snemma sumars og sinnum því duglega, nærum það, vökvum og uppskerum eftir því.   Hafðu markmiðið þitt ávallt í huga.  Skrifaðu þau niður og lestu upphátt… „ég ætla að xxxxx fyrir xxx (dagsetningu)“.

Gangi þér vel!

Bent er ÍAK einkaþjálfari og auk þess með sterkan bakgrunn í vef- og markaðsmálum og vann m.a. um árabil við markaðs- og auglýsingamál hjá World Class. Bent var vefstjóri Kópavogsbæjar um árabil og hefur einnig unnið við margvísleg verkefni hjá mbl.is. Bent er ljósmyndari og hafa myndir eftir hann verið birtar í blöðum víðsvegar um heim. Hann er auk þess bæði tónlistarmaður og tónlistarkennari og brautryðjandi í fjarkennslu á gítar. Bent er einnig menntaður í garðyrkjufræðum frá Garðyrkjuskóla ríkisins.

Segðu þína skoðun...