Áhrif erfiðleika í æsku á heilsufar á fullorðinsárum

Höfundur:   0 athugasemdir

Fjöldi fólks er að takast á við allskonar vanlíðan og veikindi, eitthvað sem virðist vera hluti af lífinu en þarf það að vera svo? Talið er að á Íslandi þjáist t.d. um 12-15 þúsund manns af þunglyndi á hverjum tíma. Ástæðan virðist oft vera óþekkt og lyf alltof oft að mínu mati fyrsta úrræði. Oft á tíðum deyfa þau aðeins einkennin í stað þess að vinna á rót vandans. En hver getur rótin verið?

Flest höfum við upplifað í einhverri mynd erfiðleika í æsku eða ACE sem stendur fyrir adverse childhood experience. Einelti, ósætti við foreldra, mikið drukkið á heimilinu, skilnaður foreldra eða einhverskonar vanræksla eða ofbeldi. Áhrif erfiðleika í æsku geta haft alvarlegar afleiðingar á heilsufar á fullorðinsárum. Mun meiri en flestir gera sér grein fyrir. ACE spurningarlisti er próf sem tekur saman mismunandi týpur af ofbeldi, vanrækslu og öðrum neikvæðum upplifunum úr æsku. Prófið samanstendur af 10 einföldum spurningum með já og nei svarmöguleikum. Ef svarið er Já t.d við þremur spurningum þá er skorið 3. Hærra skor eykur áhættuna og líkurnar á heilsufarsvandamálum síðar á lífsleiðinni.

Bresk heilbrigðisyfirvöld létu útbúa myndband þar sem fjallað er um málefnið og því gerð góð skil. Er því ætlað að efna til vitundarvakningar um þetta algenga og skaðlega fyrirbæri sem ACE er. Í myndbandinu er rakin saga af ungum dreng sem verður fyrir áföllum heimafyrir og hvernig það hefur áhrif á hann inn í unglingsárin og þaðan fullorðinsárin. Þar sem hann varð fyrir ofbeldi sjálfur er hann mun líklegri til að beita því sjálfur á börn sín og maka og þannig heldur vítahringurinn áfram. Myndbandið sýnir í raun framtíð þessa drengs á tvo vegu. Annars vegar án nokkurrar aðstoðar sem endar ekki vel ef ég kjafta nú aðeins frá og hins vegar með hjálp sem hreinlega bjargar honum og stoppar vítahringinn. Fræðsla skiptir sköpum og þannig má auka líkur á að tekið sé eftir börnum sem orðið hafa fyrir áföllum en þau eru oft óörugg og kvíðin.

Leiðir til bata geta síðan verið margvíslegar fyrir þá sem eru fullorðnir eru. Líkamsrækt hjálpar auðvitað alltaf til og hollt mataræði. Einnig slökun, hugleiðsla og góður svefn en ef sálin er brotin eftir áföll æskunnar þarf að vinna út frá þeirri rót. Ótal sjálfshjálparefni má finna á netinu og langar mig t.d að nefna HAM (hugræna atferlismeðferð) sem hefur reynst gagnleg en handbók um þá meðferð er öllum opin inn á heimasíðu Reykjalundar. Fjölmargar aðrar bækur geta einnig hjálpað, t.d reprogram your subconsciousness sem finna má á amazon kindle. Svo er um að gera að leita og prófa sig áfram, það sem hentar einum hentar ekki endilega öðrum. Að sjálfsögðu getur einnig þurft og verið gagnlegt að fá aðstoð fagaðila.

Geðhjálp heldur úti frábæru starfi í þágu andlegrar heilsu. Þar er hægt að fá stuðning og finna fróðleik um hvert sé hægt að snúa sér til að fá aðstoð. Á heimasíðu Geðhjálpar má m.a finna ACE- spurningalistann á íslensku.

Ég segi eins og nafni minn Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, verum góð hvort við annað og svo bæti ég við, leitum okkur hjálpar ef okkur líður illa og reynum að hjálpa öðrum með sama hætti.

Heilsukveðjur
Víðir Þór Þrastarson
Íþrótta- og heilsufræðingur

Víðir Þór er íþrótta- og heilsufræðingur frá HÍ og heilsunuddari frá Nuddskóla Íslands.

Segðu þína skoðun...