Er fjölskyldustefna á þínu heimili?

Þegar rýnt er í rannsóknir á vellíðan kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Fyrir það fyrsta þá vega efnisleg gæði ekki þungt í tengslum við hamingju. Peningar hafa ekki áhrif nema upp að því marki að eiga vel í sig og á. Eftir það hafa tekjur lítil áhrif á hamingju manna. Rannsóknir sýna að hamingjusamir einstaklingar eiga það sameiginlegt að eiga sér tilgang í lífinu og vera í nánum félagslegum samskiptum, sérstaklega við maka og fjölskyldu.

Börn vilja meiri tíma með foreldrum sínum
Í nýlegri rannsókn sem náði til 1100 barna um 12 ára aldur í Danmörku, kom fram að þegar foreldrar eru önnum kafnir hefur það áhrif á lífsgæði barna þeirra. Þar kemur einnig fram að börnin vilja verja tíma með foreldrum sínum. Meðal þess sem börnin töldu mikilvægt til að lifa góðu lífi var:

  • góðir vinir
  • glaðir og góðir foreldrar
  • að maður hafi áhrif á skipulagið í daglegu lífi
  • að maður finni það að einhverjum þyki vænt um mann

Ætla má að viðhorf íslenskra jafnaldra þeirra sé í sömu átt. Nýlega sagði kennari 12 ára barna hér í Reykjavík frá samstarfsverkefni kennara og foreldra þar sem nemendur mega velja sér verðlaun fyrir góða frammistöðu. Efst á óskalista barnanna eru ekki hlutir heldur samvera með fjölskyldunni, eins og fjölskyldu-sundferð.

Metnaður í vinnu og metnaður fyrir góðu fjölskyldulífi
Það er umhugsunarvert að margir í okkar samfélagi telja það merkilegra að leggja metnað sinn í vinnu og að safna hlutum og fjármagni en að leggja metnað í að eiga góða fjölskyldu og vini. Af hverju er sá sem er tilbúinn til að leggja sig allan fram í vinnunni talinn metnaðarfyllri en sá sem setur fjölskyldu og vini ofarlega á forgangslistann og leggur sig fram við að eiga farsælt fjölskyldulíf? Þetta breytist ekki nema við breytum eigin hugarfari. Við getum byrjað á okkar eigin viðhorfum og ákveðið að verja tíma í það sem skiptir mestu máli meðan við höfum tíma.

Fjölskyldustefna
Eva María Jónsdóttir hitti naglann á höfuðið á málþingi nýlega þegar hún benti á að algengt væri að spyrja fyrirtæki í dag um fjölskyldustefnu en minna færi fyrir stefnu í fjölskyldumálum heima fyrir. Margir halda því fram að þeir hafi ekki val um að verja meiri tíma með börnum sínum og eflaust er það þannig í einhverjum tilvikum. En stundum þurfum við bara að hugsa dæmið upp á nýtt. Oft höfum við meira val en við gerum okkur grein fyrir. Spurningin snýst um það hvernig við viljum verja tíma okkar og hvers konar lúxus við sækjumst eftir. Er það lúxus-jeppi eða lúxus-fjölskyldulíf?

Samvera fjölskyldunnar er öllum í hag
Að verja tíma með fjölskyldunni ætti að vera eftirsóknavert fyrir alla í fjölskyldunni. Ef það er ekki nóg að hafa það gaman saman þá sýna rannsóknir að það er einnig heillavænlegt fyrir börnin og foreldrana. Fyrir þá foreldra sem vinna fulla vinnu er enn nægur tími eftir fyrir fjölskylduna ef hún er sett í forgang eftir vinnu. Það getur hjálpað að eiga fastar fjölskyldustundir í viku. Einnig er hægt að setja sér þá stefnu að vera með börnunum þegar frí er í skólum vegna starfsdaga, í vetrarfríum og páskafríi eins og núna er framundan. Hvað ætlar þín fjölskylda að gera saman um páskana? Dekraðu við börnin, gefðu þeim af tíma þínum, hann er þeim dýrmætari en það sem fæst keypt fyrir yfirvinnukaupið.

Birt með góðfúslegu leyfi Embætti landlæknis. Sjá nánar hér.