Um vatnsdrykkju

Ég tel það ákaflega mikilvægt að borða mat eins og náttúran gefur. Að hafa fæðuna í sinni hreinustu mynd, helst án allra auka- og uppfyllingaefna. Þetta á einnig við um drykki. Það vill svo til að við búum við eitt hreinasta og ferskasta vatn í heimi. Bara beint úr krana.

Það er mikill business í drykkjum. Fjölmargir vilja græða á að selja sykrað og litað vatn. Það sagði mér einn maður í bransanum að slegist væri um hillupláss fyrir drykki í stórverslunum. Ég tel mig ekki þurfa að telja upp skaðsemi gosdrykkja vegna m.a sykurs og gervisætuefna á borð við aspartame, um það hefur mikið verið rætt og flestum ætti að vera það ljóst.

Ég sótti fyrirlestur hjá hráfæðiskóngnum David Wolfe á Gló fyrir nokkrum árum. Hann átti ekki til orð yfir vatnið okkar. Hann sagði það svo hreint og ferskt og orkugefandi, að við hefðum okkar vatnssíu í gegnum berg og hraun, að betra vatn væri ekki að fá í heiminum.

Því miður eru fjölmargir engan veginn nógu duglegir að drekka þennan undradrykk. Alltof margir sem sötra kaffi og gos yfir daginn. Ávaxtasafar eru heldur ekki æskilegir, nema kannski nýpressaðir í hófi. Við eigum ekki að drekka hitaeiningar, ekki of mikið af þeim allavega og það er svolítið af sykri í einu glasi af pressuðum eplasafa. Það eru kannski pressuð 4-6 epli ofan í einu glasi. En þá vantar trefjarnar og hluta af ensímunum til að líkaminn geti unnið almennilega úr næringunni og sykrinum. Leikandi er hægt að drekka eitt glas án þess að vera saddur en ímyndið ykkur að borða 4-6 epli, það er sko saðsamt.

Ég ítreka samt að það er allt í lagi að fá sér pressaða safa og sjálfur geri ég það reglulega hjá Joe & the juice, sér í lagi ectomorph týpurnar. Þeir sem eru að passa línurnar geta síðan notið þess að drekka holla safa og sleppt skyndibitanum í staðinn. Annars ætlaði ég ekki að fjalla um ávaxtasafa núna heldur fjallavatnið góða. S.s drekkum vel af vatni jafnt yfir daginn en leyfum okkur einstaka safa til tilbreytingar og næringar.

Hversu mikið vatn á að drekka fer eftir hverjum og einum. Ég tel að 2 lítrar séu bara fínn dagskammtur fyrir meðalmanninn. Fylgjast með og hlusta á líkamann, ef maður gerir ekki annað en að míga, þá er sennilega verið að innbyrgða fullmikið.

Of mikið er ekki of gott, það getur m.a ýtt undir útskiljun á vatnsleysanlegum vítamínum og sumum steinefnum. Vissulega er hægt að ofgera öllu og það getur verið hættulegt að drekka of mikið af vatni en til þess þarf að þamba heil ósköp og þá er fólkilöngu farið að líða illa í maganum áður en það fer að valda einhverjum teljandi skaða.

Vatnsskortur er hins vegar verra mál enda er líkaminn háður vatni þegar kemur að svo mörgu. Halda má langa ræðu um mikilvægi vatns fyrir líkamann og eitthvað sem flestir vita, auk þess sem auðvelt er að fletta upp þeim fróðleik. En mig langar sérstaklega að nefna mikilvægi vatns við að flytja úrgangsefni við almenn efnaskipti í frumum. Ef ekki er nóg af vatni til staðar er hætta á að frumurnar drukkni í eigin skít, ekki hljómar það spennandi.

Drekkum vatn, vel af því og njótum þess !

Skál í botn