Áfengis- og vímuvarnir og ungt fólk

Neysla áfengis er samfélagaslega viðurkennd og hluti af samfélagslegri hegðun. Neysla áfengis er þó ýmsum takmörkum sett. Áfengi er engin venjuleg neysluvara heldur er hér um að ræða efni sem hefur áhrif á vitund, hegðun og skynjun og getur valdið neytandanum og öðrum í umhverfi hans skaða.

Neysla áfengis er sérstaklega skaðleg ungu fólki sem er á mótunarstigi, bæði andlega og líkamlega. Áfengi getur haft varanleg áhrif á þroska líffæra og þá sérstaklega á heilann.

Samkvæmt gildandi lögum um áfengi er bannað að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem er yngri en 20 ára.

Varðandi önnur vímuefni, s.s. kannabis, amfetamín, e-töflur o.fl., eru þau efni með öllu ólögleg. Neysla þessara efna veldur einnig skaða á neytendanum sjálfum sem og öðrum í umhverfi hans.

Heldur hefur dregið úr neyslu íslenskra ungmenna á áfengi og öðrum vímuefnum undanfarin ár.

Grein frá: landlaeknir.is