„Ef við segjum eitthvað, er okkur sagt að þegja“

Samkvæmt ráðleggingum frá Læknavaktinni nýverið var stefnan tekin á Bráðamóttöku Landspítalans til að fá hjartalínurit, blóðprufur og tilheyrandi. Blóðþrýstingurinn var í ruglinu, púlsinn hár og með þyngsli yfir brjóstkassanum. Fyrir utan Bráðamóttuna er lögreglubíll, alltaf nóg að gera á þeim bænum. Þegar inn var komið og ég búinn að troða grímunni á andlitið og spritta mig í drasl, tók á móti mér hjúkrunafræðingur á biðstofunni sem tók blóðþrýsting, athugaði súrefnismettun og spurði mig spjörunum úr. Þetta er í fyrsta sinn sem ég hef fengið svona mælingar á biðstofu, það var áhugavert en í ljósi aðstæðna á spítalanum þá er það svosem skiljanlegt.

 

Gangar smekkfullir af fólki

Hjúkrunarfræðingurinn sagði að ég myndi fá pláss inn á deild eftir smá stund, ég ætti bara að bíða rólegur. Eftir skamma stund, á spítala-bið-mælikvarða kemur hún og vísar mér á rúm sem ég hef til afnota. Á leiðinni inn á stofuna blasti við mér ástand spítalans, gangarnir yfirfullir af fólki. Rúmum var komið fyrir allstaðar þar sem var pláss og greyið fólkið auðvitað í misjöfnu ástandi. Og starfsfólk á stöðugum þeytingi framhjá þeim.

Ég var inn á stórri stofu með mörgum rúmum en pappírs-skilrúmi á milli „bása“. Fljótlega var komið og tekið hjartalínurit ásamt blóðprufum. Mér var sagt að línuritið liti vel út og ég ætti bara að bíða rólegur meðan kæmu niðurstöður úr blóðprufum og læknir myndi hitta mig.

 

Hrotur, stunur og þjáningaróp

Í ljósi þess að ég væri á spítala út af háum blóðþrýstingi og verk yfir hjartasvæðið þá var mér mikilvægast að reyna að ná slökun. Upplifun mín þarna inni var soldið blendin. Ég ligg í rúminu, að rembast við að slaka á…. hinumegin við skilrúmið liggur eldri maður sem hrýtur eins og konungur ljónanna, hátt og snjallt! Eldri kona í sama rými að segja ævisöguna við lækninn sinn, tæki pípa hægri vinstri og neðan úr ganginum heyrast þjáningaróp stúlku sem er greinilega að fást við eitthvað sárlega vont. Upp og niður gangana þramma spítalastarfsmenn, lögreglufólk og sjúkraflutningamenn á víxl.

 

Áreitiskokteill

Allur þessi áreitiskokteill fannst mér áhugaverð lífsreynsla, þetta er í fyrsta sinn sem ég kem á Bráðamóttökuna ekki sárþjáður af verkjum. Í þetta sinn var mér umhugað að ná slökun og þá eflaust varð ég betur var um það áreiti sem er í gangi eins og ég sagði frá fyrr. Það er ljóst að ástandið á spítalanum er afar slæmt og hefur víst verið lengi.

 

„Ef við segjum eitthvað, er okkur sagt að þegja“

Ég hef ekkert undan þjónustu starfsfólks spítalans að kvarta, þau voru öll yndisleg og tóku vel á móti mér. Ég spurði einn hjúkrunarfræðinginn, sem var að sinna mér, út í ástandið á deildinni – hvort þetta væri verra ástand nú eða hvort þetta væri normið. Hún sagði „þetta er bara alltaf svona…. ef við segjum eitthvað þá er okkur bara sagt að þegja,“. Þetta þótti mér auðvitað mjög slæmt að heyra að umræðan skuli ekki var lausnamiðuð heldur frekar í þöggunarstíl.

 

Leysa málið takk!

Ég vona svo innilega að stjórnendur spítalans sem og stjórnendur landsins taki höndum saman leysi þetta mál og skapi þessu góða fólki á Bráðamóttökunni, sem og víðar í heilbrigðiskerfinu, góðar aðstæður til að vinna í. Þetta ástand er ömurlegt fyrir alla, starfsmenn sem og skjólstæðinga spítalans. Aukið álag á alla, sem skilar sér í lakari þjónustu og hlýtur að leiða af sér lakari niðurstöðu fyrir skjólstæðinga sem og starfsfólk. Lausn á þessu takk fyrir kærlega!