Unnið rautt kjöt eykur líkur á hjartasjúkdómum

Árlega deyja um 9 milljón manns af kransæðasjúkdómum. Kransæðar eru æðar sem umlykja hjartað og sjá því fyrir blóði og því afar mikilvægt að kransæðarnar séu við góða heilsu. Af öllum sjúkdómum þá eru það kransæðasjúkdómar sem eru algengastir og skapa mikið álag á heilbrigðiskerfið og þjóðfélagið í heild.

Rannsóknarteymi hjá Oxford Nuffield Department of Population Health leiddi rannsókn sem er ein stærsta sinnar tegundar þar sem tengsl mataræðis og heilsu var skoðað. Rannsóknin náðir yfir m.a. 13 ferilrannsóknir sem spanna yfir 1.4 milljón manns þar sem mataræði þátttakenda var skoðað og heilsa þeirra rakin í allt að 30 ár. Ferilrannsóknir (hóprannsóknir, cohort studies) eru annað tveggja megin-rannsóknarsniða greinandi faraldsfræði. Í ferilrannsókn fylgist rannsakandinn með náttúrulegri tilurð eða gangi sjúkdóms eða útkomu og forðast að hafa nokkur áhrif á það ferli til að geta sem best áttað sig á tengslum útkomunnar við áreitið óháð utanaðkomandi þáttum. Þessi rannsókn var birt í dag (21.7.21) í Critical reviews in Food Science and Nutrition.

 

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þessar:

  • Hver auka 50 gr. neysla á dag á unnu kjöti (s.s. beikon, skinku og pylsum) benti til aukinnar tíðni kransæðasjúkdóma um 18%.
  • Hver auka 50 gr. neysla á dag á óunnu rauðu kjöti (s.s. nautakjöt, lamb og svín) benti til aukinnar tíðni kransæðasjúkdóma um 9%.
  • Ekki voru bein tengsl aukinnar neyslu fuglakjöts (s.s. kjúklings og kalkúns) við aukna tíðni kransæðasjúkdóma.

LDL kólestról og saltneysla

Þessar niðurstöður stafa e.t.v. af háu hlutfalli mettaðrar fitu í rauðu kjöti og mikils saltmagns í unnum kjötvörum. Mikil neysla mettaðrar fitu eykur hlutfall hins skaðlega LDL kólestróls (low-density lipoprotein). Aukin saltneysla hækkar blóðþrýsting. Þetta tvennt saman, aukið hlutfall LDL kólestróls og hár blóðþrýstingur, er sterklega tengt við kransæðasjúkdóma.

Rautt og unnið kjöt og aukin tíðni krabbameins

Fyrri rannsóknir þessa hóps sýndu einnig fram á tengsl milli neyslu á rauðu og unnu kjöti og aukinni tíðni ristilkrabbameins.
Dr. Keren Papier (Nuffield Department of Population Health), segir um rannsóknina: „Neysla á rauðu og unnu kjöti hefur áður verið tengd við aukna tíðni ristilkrabbameina og okkar niðurstöður benda einnig aukna tíðni kransæðasjúkdóma.“

Minni neysla á unnu rauðu kjöti bjargar mannslífum

Eins og staðan er nú í Stóra-Bretlandi þá eru líkur á að 10 af hverjum 100 muni deyja úr kransæðasjúkdómi. Rannsóknarhópurinn mælir með því að fólk dragi úr neyslu á unnu rauðu kjöti um 75%, eða frá t.d. fjórum sinnum í viku niður í einu sinni í viku, eða jafnvel sleppa því alfarið. Afleiðingin af þessari breytingu myndi þýða að í stað 10 andláta af hverjum 100 af sökum kransæðasjúkdóma, þá væri tölfræðilega talað um 9 andlát af hverjum 100.

Þess ber að geta að þátttakendur í rannsókninni voru mestmegnis fullorðnir hvítir einstaklingar búsettir á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum. Rannsóknarteymið segir nánari gagna þörf til að greina tengsl við þá sem búa á öðrum stöðum og með aðra matarmenningu sbr. austur Asíu og Afríku.

 

Heimildir:
Meat consumption and risk of ischemic heart disease: A systematic review and meta-analysis
Red and processed meat linked to increased risk of heart disease, Oxford study shows
Faraldsfræði í dag 36 Ferilrannsóknir