Það getur oft verið erfitt að átta sig á því hvernig kornmeti passar inn í mataræðið eða hvort það passi yfir höfuð. Það eru mörg vinsæl mataræði í samfélaginu þar sem hallar verulega á trefjaríka fæðu. Trefjarík fæða er nauðsynleg fyrir þarmaflóruna okkar. Trefjar eru prebiotics, sem er ómeltanlegur hluti matarins og er næring fyrir örverurnar í ristlinum. Þegar velja skal kornmeti er mikilvægt að velja trefjaríkt kornmeti til þess að næra gagnlegar örverur í þörmunum og stuðla að öflugri og fjölbreyttri þarmaflóru.
Trefjaríkir kostir
Dæmi um trefjaríka kosti eru heilhveiti brauð (velja þær vörur sem hafa mikið af tefjum í hverjum 100 grömmum, íslenskar ráðleggingar mæla með allavegana 5-6 grömmum). Kínóa, bygg, heilhveiti pasta, hafrar og fleira kornmeti innihaldur einnig trefjar. Gott er að hafa í huga að magnið af kornmeti sé í samræmi við hversu mikið þú hreyfir þig. Svo dæmi má nefna þá nýtist kornmeti einstaklingi sem hreyfir sig betur en þeim sem hreyfa sig ekki. Einstaklingur sem hefur ekki tök á að hreyfa sig ætti frekar að setja áherslu á að fá mest af sínum trefjum frá grænmeti, baunum, hnetum, fræjum, ávöxtum og borða litla skammta af kornmeti.
Grænmeti og ávextir innihalda mikið af trefjum og því viljum við leggja áherslu á að borða vel af grænmeti (alltaf með hádegis- og kvöldmat) og hafa ávexti hluta af fæðuvali hvers dags. Best er að temja sér að borða grænmeti og ávexti í öllum litum, til þess að fá mismunandi vítamín og steinefni.
Baunir, linsur, hnetur og fræ innihalda einnig trefjar. Hnetur og fræ eru mjög orkurík og því er sniðugt að borða hnetur og fræ reglulega í litlum skömmtum. Baunir og linsur eru hollur kostur sem að margir Íslendingar geta bætt í mataræðið sitt og gert tilraunir með í matseldinni.
Fjölbreytnin
Góð leið er að stefna að fá fá trefjar frá fjölbreyttri uppsprettu, skemmtileg áskorun er að fá trefjar úr 30 mismunandi matvælum í hverri viku. Byrjaðu í dag og skrifaðu niður alla þá mismunandi trefjaríka fæðu sem að þú borðar út vikuna. Gangi þér vel!