Stundaðu heilsurækt og slökun – og þú verður stinnur eins og tré

Líkamlegar orsakir liggja ekki síður en sálrænar að baki stinningarvanda hjá karlmönnum. Góð stinning er háð mörgum þáttum, gott blóðflæði í liminn er þar lykilatriði. Sterk tenging er milli almenns heilbrigðis og góðrar reisnar, gott ástand á hjarta- og æðakerfi er lykill að góðu blóðflæði hið neðra.

ÁHRIF STREITU Á HORMÓNAJAFNVÆGI

Þegar við horfumst í augu við lífshættulegar aðstæður þá þarf líkaminn þarf að bregðast kröftulega við svo við höldum lífi. Í slíkum aðstæðum eykst magn kortisóls, aukið magn glúkósa berst í til vöðva og í blóðrásina, sem gefur okkur „orkuskot“ til þess að takast á við þessar lífshættulegu aðstæður. Vandamálið er að líkaminn gerir ekki greinamun á milli lífshættulegra aðstæðna og venjulegrar streitu. Það er stór munur hvort við þyrftum að hlaupa undan mannvígum ísbirni eða standa í rifrildi við annað fólk. Við myndum brenna þessari auka orku við hlaupin en sitjum uppi með fullt af umfram orku án verulegrar líkamlegrar áreynslu annars. Þessari umfram orku er einfaldlega breytt í fitu og geymd sem forði og við fitnum með öllum þeim heilsufarsáhættuþáttum sem því fylgir.

HVERNIG FÆRÐU RIS ?

Þessa skýringu fékk ég að láni hjá Vísindavefnum:
Risvefirnir eru umluktir bandvefjum og húð. Í risvefjunum eru holrúm eða svokallaðir blóðstokkar (e. sinuses). Við kynörvun víkka slagæðar í vefjunum út og holrúmin fyllast blóði. Blóðfyllingin í risvefjunum þrýstir á bláæðar í typpinu og lokar þeim og hindrar þannig að blóð berist úr því. Þetta aukna blóðflæði í typpinu hefur í för með sér að það rís, lengist og gildnar. Er þá talað um að manni standi en ef það varir lengi er talað um standpínu.

typpi_260407


STREITA ER ÓVINUR ÞINN Í SVEFNHERBERGINU

Streita, kvíði og stinningarvandamál eru nátengd. Streita og kvíði geta orsakað vandamál að ná góðri reisn og viðhalda henni. Að auki er algengt að menn sem eru undir miklu álagi hafi háan blóðþrýsting og hækkað kortisól, hvorutveggja vinnur gegn góðri stinningu. Hátt magn kortisóls, streituhormónsins, dregur úr fyllingu risvefjanna og þannig verður risið ekki eins hátt.

SLAKAÐU Á OG STUNDAÐU KYNLÍF MEÐ REISN

Með minnkun á streitu og góðri líkamsrækt getur þú gert það sem í þínu valdi stendur til bæta ánægju þína og makans með meiri reisn.

REYKINGAR DREPA STAURINN

Beint orsakasamband er milli reykinga og stinningarvandamála. Enn ein góð og gild ástæða til að drepa í rettunni fyrir fullt og allt!

SVEFN OG SLÖKUN

Eru fyrirbæri sem nútímamaðurinn fær ekki nóg af en skipar veigamikið hlutverk í að halda kortisól í skefjum. Ef við sofum ekki nóg erum við undir meira álagi og kortisólmagnið í okkur er hátt. Góður svefn er nauðsynlegur til að minnka magn kortisóls í líkamanum ásamt því að gefa líkamanum tækifæri á endurhlaða sig að sinna viðhaldsstarfi sínu.

ÆFÐU EN EKKI ÆFA OF MIKIÐ

Heilsurækt styrkir hjarta- og æðakerfið, hækkar testosterón og lækkar kortisól. En allt er gott í hófi og mikilvægt er að finna hinn gullna meðalveg að góðri heilsu. Ef um of stífar æfingar er að ræða eða of margar æfingar með miklu álagi í viku hverri er líklegt að magn kortisóls hækki. Nánar tiltekið eykst svokallað stýrihormón nýrnahettubarkar (SHNB eða ACTH) sem aftur eykur seyti kortisóls og skyldra streituhormóna í blóðrásina. Gott er að fylgjast með hvíldarpúlsi til að greina æfingarálag, ef hvíldarpúlsinn hækkar er það ágæt vísbending um að þú sért að ofgera þér í æfingum.

HVERNIG NÆ ÉG AÐ SLAKA Á

Prófaðu jóga, hugleiðslu, lestu bók, farðu út að ganga með konunni, spjallið um allt hið góða í lífinu. Verum þakklát fyrir hvern dag. Lífið er ekki endalaust, þó við viljum oft halda það, njótum líðandi stundar með þeim sem okkur þykir vænt um.


SLÖKUM Á, EFLUM HEILSURÆKT OG STUNDUM GOTT KYNLÍF! 🙂




Heimildir:
http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/24044107
http://www.visindavefur.is/svar.php?id=5439
http://breakingmuscle.com/health-medicine/why-and-how-you-absolutely-must-manage-your-cortisol