Kemur þetta fólk í jarðarförina þína ?

Öll erum við sek um að eyða alltof miklum tíma og orku í að hugsa um hugsanir og álit annara. Við getum ekki látið sjá okkur svona til fara eins og við erum, hárið í messi, fötin of þröng eða of víð… Við getum ekki látið sjá okkur með ákveðinni manneskju því þá mun fólk halda AB og C um okkur… 🙂

Í fyrsta lagi þá kemur fólki ekkert við hvað maður gerir, hvern mann hittir eða hvernig maður lítur út. Í öðru lagi þá höfum við enga stjórn á hugsunum annara og því ætti maður að eyða tíma og orku í að reyna að hafa áhrif á eitthvað sem maður hefur enga stjórn á ?

Hamingjan er ákvörðun
Hamingja er tilfinning sem allar manneskjur þrá í hjarta sínu. Þegar við vorum lítil þá kunnum við þetta fullkomnlega, við létum tilfinningar okkar í ljós með skýrum hætti, okkur var sama hvað fólki fannst. Eftir sem árin líða mótumst við af umhverfinu og það virðist vilja steypa okkur í svipað mót. Okkur verður mjög umhugað um skoðanir annara og við viljum standa okkur, samkvæmt ramma sem aðrir setja fyrir okkur.

Leitin að hamingjunni
Við leitum oft að hamingjunni á röngum stöðum, við leitum að hamingjunni fyrir utan okkur sjálf, í einhverjum hlutum eða eftir að einhver annar veiti okkur hamingju. Við förum frá herbergis til herbergis, manni til manns að leita að hamingjuhattinum, þegar við erum svo með hann á hausnum! Við leitum að hamingjunni allstaðar en sjáum ekki hvar hún raunverulega býr, í okkur sjálfum.

Hamingju er ekki hægt að finna í ytri heimi
Hamingjan veltur ekki á öðru fólki, hvort við umgöngumst „rétta“ fólkið eða ekki. Hamingjan er ekki í ytra umhverfi, hamingjan finnst innra með þér. Þú berð hamingjuhattinn með þér, við gleymum því of oft.

Áhrif annara
Þegar við erum föst í þankagangi okkar varðandi álit og skoðanna annara er oft gott að spyrja sig: „myndi þetta fólk koma í jarðarförina mína?“ Með þessari einföldu spurningu getum við takmarkað áhrif skoðanna þeirra á okkur. Það hreinlega skiptir okkur ekki meira máli en það.

Áhrif annara ræna okkur oft af eigin hamingjuleit því við viljum, af einhverjum ástæðum, þóknast gildum annara varðandi okkar eigið líf og hamingju. Við erum öll betur sett að hugsa minna um hvað aðrir séu mögulega að hugsa um og leita inn á við og mæta hamingjunni í öllu sínu veldi og taka á móti henni fagnandi og öðlast hamingjusamt líf.

Taktu ákvörðun um að vera hamingjusamur einstaklingur og njóttu dagsins!