Megrunarkúrar – Hvaða kúr virkar?

Þegar fólk fer á kúra og nær að hrista af sér nokkur kíló endar það oftast á sama veg – fólk hrekkur í gamla farið og endar jafnvel með að bæta frekar á sig en hitt. Það virðist samt ekki skipta máli hversu oft fólk hjakkar í sama farinu, við erum alltaf tilbúin að skella okkur á næsta “kúr”. Ég gæti eflaust lært sitthvað um markaðsetningu frá fólkinu á bakvið kúrana.

Ég sem næringarfræðingur byggi mína ráðgjöf á ráðleggingum frá Embætti landlæknis og norrænu ráðleggingunum. Vandamálið er að það er ekki nægilega spennandi og engum töfralausnum lofað, nema að þú munt léttast hægt, verða heilsumeiri og líða betur. Meinið er að það þarf að halda þessu við – þetta er lífstíll. Heillandi? Trúið mér – það er erfitt að selja þessa aðferð.

Ég hef alla tíð talið kúra verkfæri djöfulsins. En eftir því sem maður hittir fleira fólk áttar maður sig á því að það eru ekki allir steyptir í sama mót – það hafa ekki allir áhuga á íþróttum, metnað til að ná langt og borða hollt til að ná árangri. Eftir þessa stórkostlegu uppgvötun, að hafa lent í meiðslum og þurft að leggja skóna tímabundið á hilluna ákvað ég að stíga út fyrir kassann og prófa eitthvað af þessum kúrum. Ég vildi sjá hvort kúrar gætu mögulega verið fýsilegur kostur fyrir einhverja. Það er ágætt að hafa reynslu af því sem ég er að tala um við fólk.

Eftir að hafa fínkempt netið ákvað ég að slá til og byrja á að fasta með hléum (16:8).

Fastað með hléum (16:8)

Þar eru til nokkrar tegundir af intermittent fasting, til dæmis 5:2 (borða venjulega í 5 daga og minna í 2 daga) og 16:8 (borða í 8 tíma og fasta í 16 tíma).

fastad-med-hleum

 

Persónulegt mat

Auðvelt að fylgja honum, aðal áskorunin var að ná því að borða fjölbreytt (fá allt sem ég þarf) á þessum stutta tíma. Þar af leiðandi var ekki mikið pláss fyrir sætindi. Það var smá vesen þegar fólki datt í hug að bjóða í mat sem teygði sig yfir “borði tíma”. Ég var mjög orkumikil á meðan á föstunni stóð, nema fyrstu dagarnir voru svolítið erfiðir. Kúrinn hafði lítil áhrif á félagslífið nema það getur verið leiðinlegt ef maður ætlar að fá sér bjór eða hvítvínsglas með vinkonunum  – þá er erfitt að fá þær til þess að byrja snemma og hætta klukkan 20:00. Það er mjög ódýrt að fylgja þessu því það er ekkert sérfæði og maður hefur lítinn tíma til að borða drasl (sem er vanalega dýrt). Það var ekki erfitt að æfa, ég var orkumikil eins og vanalega. Ég léttist (0,6 kg) og fituprósentan lækkaði (tæp 2%), sem er mjög góður árangur fyrir einstakling í kjörþyngd.

Næst prófaði ég Paleo

Svokallað steinaldarmataræði, það má borða magurt kjöt, sjávarfang, ávexti, ber og grænmeti (sem ekki inniheldur sterkju). Það má ekki borða mjólkurvörur, morgunkorn, baunir, sterkju eða unnar matvörur. Hjá mér gekk þetta skelfilega, erfitt að fylgja þessu og ég átti sérstaklega erfitt með að halda mér frá mjólkurvörum. Mér fannst ég vera orkumikil en fólki í kringum mig fannst ég vera grá og aumingjaleg og hvöttu mig til að slaufa þessari tilraun.

Ég hvet fólk sem fer á paleo að vera vel undirbúið og tilbúið að undirbúa sinn eigin gúmmelaði hellisbúamat, ekki borða bara í mötuneyti eins og ég gerði. Fæðan varð svakalega einhæf og ég naut ekki matarins. Ég léttist (0,2 kg) og fituprósentan lækkaði (0,2 %). Þess má geta að ég gat ekki verið lengur en í tvær vikur á paleo.

Í rauninni breyttu þessar tilraunir mínar ekki viðhorfi til kúra, heldur frekar að ef þú ert tilbúin til að gera eitthvern kúr að lífsstíl þá er það allt annað mál. Hinsvegar breytti þessi tilraun svolítið viðhorfi mínu til fasta, sem ég væri alveg til í að vera á 300 daga ársins.
Uppáhalds “kúrinn/lífstíllinn” minn er samt ennþá almennar næringarráðleggingar frá Embætti landlæknis og ég hvet einhvern af þessum markaðssetningarmeisturum í heilsugeiranum til þess að hanna kúr byggðan á ráðleggingum þaðan. Norræni kúrinn kemst næst þessum ráðleggingum og ég tel að það sé vert að gera hann að lífsstíl.

Vilji fólk aðstoð við að breyta um lífsstíl, hvort sem það er samkvæmt sérhæfðum lífsstíl eða hreinlega ráðleggingum landlæknis þá eru næringarfræðingar einmitt menntaðir í því og veita aðhald og stuðning.

Norræni kúrinn: http://fvm.dk/fileadmin/user_upload/FVM.dk/Dokumenter/Ministeriet/EU_og_Internationalt/EU-samarbejdet/Formandskab/1903_Faktaark_FVM_Formandssk_New_Nordic_Diet_v3_4korr.pdf

Ráðleggingar Embættis landlæknis:
http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item25796/radleggingar-um-mataraedi-2015.pdf

Nýju norrænu ráðleggingarnar 2012:
http://www.norden.org/en/theme/tidligere-temaer/themes-2014/nordic-nutrition-recommendation