Ég elska kókosmjöl og já súkkulaðið – jú sú aðlögun gengur bara vel en ég er bara nýbyrjuð að borða svoleiðis. Ég veit það er nánast fáránlegt að hugsa til þess að konunni hafi bara ekkert fundist súkkulaði gott og því fannst mér ég þurfa að finna gott súkkulaði – það er svo fullorðins að eiga sitt uppáhalds. Allavegana þessir bitar eru dásamlegir – ekki bara á bragðið heldur einnig hversu fáránlega auðvelt það er að gera þá. Frábærir í saumaklúbbinn, kósíkvöldið eða bara svona seinnipartinn á góðum degi.
Innihald – bitarnir:
- ½ bolli kókosmjöl (fínt)
- 2 msk kókosolía
- 1 msk hunang
- 1 msk vatn
- ¼ tsk vanilla extract dropar
- Nokkur korn af sjávarsalti
Innihald – Súkkulaðið:
- 2 msk lífrænt kakóduft
- 2 msk kókosolía
- 1 msk hunang
Aðferð – bitarnir:
- Fínt að byrja á því að setja kókosolíu og hunang saman í lítið glas og velgja t.d. í heitu vatni í vaskinum. Verður þægilegra að eiga við olíuna þannig.
- Kókosmjöl, kókosolíu, hunangi, vatni, vanillu extract og sjávarsalti blandað saman í skál.
- Látið standa í 5-10 mínútur til að allt kókosmjölið verði örugglega blautt í gegn.
- Fínt að nota litla kúpta skeið til að móta bitana. Á þessum tímapunkti eru þeir mjög lausir í sér. Engar áhyggjur þeir munu harðna þegar olían harðnar í frystinum.
- Bitunum raðað á smjörpappír t.d. á lítið skurðarbretti sem kemst svo fyrir í frystinum.
- Sett í frysti í 15-20 mínútur.
Á meðan bitarnir eru í frysti er súkkulaðið gert tilbúið.
Aðferð – súkkulaðið:
Það er einnig vel hægt að notast við tilbúið súkkulaði –þá er það bara brætt t.d. í potti eða vatnsbaði.
- Lífrænt kakóduft, kókosolía og hunang er blandað saman í skál – hér er einnig gott að setja skálina ofan í eldhúsvaskinn með heitu vatni og hræra þessu saman þar. Passa bara að vatnið sullist ekki ofan í skálina.
- Bitarnir teknir út úr frystinum.
- Ég setti nú bara bitana ofan í súkkulaðið og velti þeim þar svo þeir yrðu alveg þaktir.
- Aftur sett í frystinn í a.m.k. 10 mínútur.
Meira súkkulaði – einhver?
- Hér getur verið spurning hvort þú viljir gera aðra umferð af súkkulaðibaðinu. Ég gerði það allavegana og þá varð þetta ennþá betra.
- Svo er fínt að sáldra kókosmjöli yfir síðasta lagið af súkkulaðinu – en þú verður að hafa ansi hraðar hendur því að súkkulaðið harðnar mjög fljótt þar sem bitarnir eru ískaldir.
- Aftur sett í frystinn og tekið út t.d. 5 mínútum áður en boðið er uppá bitana (þ.e.a.s. ef þeir eru þá ekki þá þegar búnir!).
Þetta eru u.þ.b. 10-12 bitar – fer eftir stærð.
Njóttu!
Bestu heilsukveðjur frá Rotterdam,
Ásthildur Björns