Það sem yoga gerði fyrir mig

Öll þráum við sálarró og þennan óútskýranlega innri frið.

Fyrir rúmum fimm árum síðan skráði ég mig á byrjendanámskeið í yoga, eitthvað sem ég hafði ætlað mér að gera í langan tíma. Ég kom mér aldrei af stað þó ég vissi innst inni að yoga myndi gera mér gott (líklega var ég hrædd við að fara út fyrir þægindarammann). Ég man eftir fyrstu vikunni á byrjendanámskeiðinu, tímarnir voru erfiðir og ég gat ekki gert neina stöðu almennilega, kunni ekki að anda rétt og var óörugg. Var þetta í raun eitthvað fyrir mig? Þrátt fyrir efann og óttann hélt ég áfram.

Fann fljótt fyrir breytingum
Á annarri og þriðju viku fór ég að finna eitthvað innra með mér sem þráði meira yoga. Á námskeiðinu lærði ég grunninn í yogastöðum (asana) öndun (pranayama) og hugleiðslu (meditation). Margar stöður voru mér erfiðar og ég svitnaði og fann fyrir öllum takmörkunum líkama míns. En samt fann ég að líkaminn byrjaði að styrkjast. Öndunaræfingarnar voru mér erfiðar og að slaka á í lok tímans gat gert huga minn brjálaðan. En eftir því sem tíminn leið og námskeiðið var að lokum komið, þá glitti í sálarró. Þessi óútskýranlega tilfinning varði í stutta stund eftir síðustu tíma námskeiðisins. Ég þráði að finna þessa tilfinningu vara lengur.

Yoga togaði í mig

Ég hélt ekki áfram að stunda yoga eftir þetta námskeið. Það voru mín mistök þá. Í millitíðinni gekk ég í gegnum mjög erfitt tímabil. Eftir nokkur ár fann yoga mig aftur. Ég sökk dýpra og dýpra inní yoga, ég fór að hugleiða heima, gera yogastöður og öndunaræfingar. Líf mitt fór að komast í jafnvægi. Samhliða fór ég að huga betur að matarræði og ég fann líkama minn styrkjast og huga minn kyrrast. Ég er rétt að byrja á þessu ferðalagi en ég finn að ég er nú loks á leið minni “heim“. Ég get ekki snúið við eða hætt við því yoga er nú orðið óaðskiljanlegur hluti af mínu lífi.

Ég hvet þig til að prófa yoga.

Vitu öðlast sálarró?
Viltu minnka streitu í þínu lífi?
Viltu styrkja líkama þinn?
Ertu stirð/stirður?
Ertu með gigt, bakverki?
Ertu í góðu líkamlegu formi?
Ertu í afleitu líkamlegu formi?
(…listinn heldur áfram)

Þá er yoga fyrir þig !