Ketilbjöllur eru lóð notuð til líkamsræktar. Ketilbjallan sjálf er kúlulaga steypt járn með handfangi ofan á og er oft líkt við fallbyssukúlu í laginu. Uppruna þeirra má rekja til Rússlands þar sem þær hafa verið notaðar til þjálfunar í mörg hundruð ár. Ketilbjöllur eru að margra mati bestu og skilvirkustu þjálfunartæki sem völ er á, svo lengi sem þær eru notaðar á réttan hátt.
Einn helsti kosturinn við að notast við ketilbjöllur er að þær henta öllum aldurshópum, óháð líkamlegu formi og úthaldi. Með ketilbjölluþjálfun nærðu góðri alhliðaþjálfun og byggir upp mikinn styrk. Ekki skemmir fyrir að hægt er að nota þær nánast hvar sem er, þannig þjálfunin er ekki bundin við líkamsræktarstöð.
Undanfarin ár hefur sú tíska verið áberandi í líkamsræktargeiranum að meta hraustleika út frá líkamlegu útliti frekar en raunverulegri líkamlegri getu og úthaldi. Þetta hefur leitt til þess að æfingar sem einblína á að þjálfa einangraða vöðvahópa hafa tíðkast, með því megin markmiði að bæta útlit. Nýlega virðist hinsvegar vera ákveðin vakning í gangi í þjálfunarheiminum og sí fleiri að skipta út slíkum æfingum fyrir hagnýta þjálfun sem byggist á að auka hreyfigetu, styrk og úthald líkamans.
Ketilbjölluþjálfun býður upp á marga kosti:
- Heildar líkamsþjálfun. Líkaminn lærir betur að vinna sem ein samverkandi heild.
- Meiri árangur án þess að eyða miklum tíma í ræktinni. Ketilbjölluþjálfun felur í sér að þjálfa marga vöðvahópa og kerfi á sama tíma.
- Aukin geta í íþróttum jafnt sem í daglegu lífi.
- Aukið viðnám gegn meiðslum.
- Þjálfar eiginleikan að vinna með loftháðri og loftfirrtri þjálfun samtímis.
- Aukin hreyfigeta.
- Aukin styrkur án þess að auka sérstaklega vöðvamassa.
- Mjög mikil brennsla. Nýleg rannsókn framkvæmd af American Council on Exercise sýndi að í meðal ketilbjöllutíma brenndu þátttakendur um 20 hitaeiningum á mínútu – það eru 1,200 hitaeiningar á klukkutíma. Til samanburðar brennir maður að meðaltali um 740 hitaeiningum í klukkutíma spinning tíma.
Þegar ketilbjölluþjálfun er hafin, er gífurlega mikilvægt að byrja undir leiðsögn góðs ketilbjölluþjálfara. Rétt tækni skiptir höfuð máli og það er mjög auðvelt að öðlast meiðsli ef ekki er farið rétt að með svona miklar þyngdir.