Snjallsími eða GPS hlaupaúr fyrir hlaupara ?

Hlauparar sem vilja fylgjast vel með hlaupunum sínum skiptast eiginlega í tvo hópa, þeir sem nota GPS hlaupaúr eða nota forrit í snjallsímanum. Bæði hlaupaúrin og snjallsímarnir geta tengst hjartanema sem festist yfir bringuna og sendir upplýsingar í tækin með Bluetooth tækni.

Hvort er betra ?
Það eru kostir og gallar við hvorutveggja. Og ekki í raun eitt rétt svar við því, í þessari grein skoðum við möguleikana og vonandi hjálpa þeir þér að ákveða hvora leiðina þú vilt fara.

 

GPS hlaupaúr

Kostir

  • Græjan er minni um sig
  • Auðvelt að fylgjast með tölunum á æfingunni
  • Þú þarft ekki að vera með símann með þér
  • GPS upplýsingarnar eru yfirleitt nákvæmari en í símunum og skila þ.a.l. nákvæmari upplýsingum um vegalengd og hraða
  • Sum GPS úr bjóða einnig upp á möguleika að tengjast við aukahlut sem festur er við skó til að hægt sé að nota innanhúss
  • Almennt gott aðgengi að upplýsingum um æfingarnar þínar, annaðhvort í úrinu sjálfu eða á vefþjónustu sem tengist því

Gallar

  • Auka kostnaður, enn ein græjan sem þarf að kaupa. Verð frá c.a. kr. 40.000
  • Græjan kemur með þeim möguleikum sem hún býður upp á frá byrjun, bætist ekkert við

Hjartanemi, snjallsími og forrit

Kostir

  • Ef þú átt snjallsíma þá er þetta ódýrari kostur
  • Þú getur hlustað á tónlist úr símanum fyrst þú ert með hann hvort eð er
  • Ef þú fílar ekki forritin sem þú ert með, sækiru bara önnur eða uppfærir þau sem þú ert með sem oft koma með nýja möguleika
  • Hjartanemi ekki dýr, eða í kringum kr. 10.000

Gallar

  • Þú þarft að hafa símann með þér, annaðhvort í vasanum eða í einhverskonar hulstri sem þú festir á þig
  • Erfiðara að sjá á skjáinn þegar þú ert að hlaupa
  • Stundum eru GPS upplýsingarnar ekki mjög nákvæmar
  • Geymsla upplýsinga og aðgengi að upplýsingum er mjög misjafnt

 

Þetta er ruglandi… hjálp!
Til að hjálpa þér að taka ákvörðun er gott að leita svara við eftirtöldum spurningum:
Viltu hafa símann með þér þegar þú ferð út að hlaupa ?
Hversu mikið ert þú tilbúinn að eyða ? Ef þú átt nú þegar snjallsíma þá er þetta eðlilega ódýrasti kosturinn.
Skiptir nákvæmni upplýsinga þig höfuðmáli ? Þá er GPS hlaupaúr fýsilegri kostur.