Hvað eru fæðubótarefni og til hvers eru þau notuð?

Höfundur:   0 athugasemdir

Fæðubótarefni eru matvæli ætluð sem viðbót við venjulegt fæði og sem eru með hátt hlutfall af vítamínum, steinefnum eða annars konar efnum sem hafa næringar- eða lífeðlisfræðileg áhrif. Þessi efni geta verið ein sér eða blönduð saman, og eru markaðssett í formi skammta, nánar tiltekið sem hylki, brjóstsykur, töflur, pillur og í öðru svipuðu formi, duftpokar, vökvaampúlur, dropaglös og í öðru svipuðu formi vökva og dufts sem er ætlað til inntöku í mældum, smáum skömmtum (Reglugerð 624/2004). Fæðubótarefni skal neyta til að uppfylla ákveðinni næringarþörf, eða hafa önnur jákvæð áhrif á heilsu manna. Þó skal fæðubótarefni aldrei koma í staðinn fyrir hefðbundinn mat. Algeng fæðubótarefni eru lýsi og aðrar fitusýrur, fjölvítamín og stök vítamín og steinefni, ýmsar jurtir eða efni unnin úr jurtum, próteinduft, peptíð og amínósýrur. Þegar fólk er undir sérstaklega miklu álagi t.d. í íþróttum, líkamlegu og andlegu, að ganga í gengum breytingar eða að kljást við heilsubrest, getur það kallað á aukna þörf á ákveðnum efnum sem ekki er uppfyllt með hefðbundinni fæðu. Þar geta fæðubótarefni hjálpað. Markfæði getur einnig hjálpað, en markfæði eru matvæli sem eru bætt með ákveðnum efnum t.d. D vítamínbætt nýmjólk eða kalkbættur appelsínusafi.

LEIÐBEININGAR

Mikilvægt er að fara eftir gefnum leiðbeiningum um hvernig skal nota fæðubótarefni vegna þess að það má alls ekki fara yfir ákveðin mörk á magni á sumum efnum vegna þess að það getur leitt til eitrunaráhrifa, þetta á sérstaklega við um fituleyf-sin efni á borð við D- og E- vítamín. Einnig þarf að hafa í huga að sum efni hvetja til upptöku á hvort öðru en önnur standa í vegi fyrir upptöku á öðru efni, ef að þeirra er neytt á sama tíma t.d. D vítamín hvetur upptöku á kalki og fosfór, C vítamín hvetur til upptöku járns en kalk hins vegar hindrar upptöku á járni, því ætti ekki að taka járn og kalk á sama tíma. Á Íslandi sér Matvælastofnun um málefni fæðubótarefni og tekur við nýjum tilkynningum á fæðubótarefna og hefur eftirlit með því að merkingar og leiðbeiningar séu réttar.

NÆRINGAR OG HEILSUFULLYRÐINGAR

Flest fæðubótarefni bera næringarfullyrðingar og/eða heilsufullyrðingar. Næringarfullyrðingar eru staðreyndir um innihald eins og „inniheldur vítamín“ eða „er fituskert“. Heilsufullyrðingar segja til um ávinningin á heilsu sem varan getur haft eins og „kalk styrkir bein“ eða „stuðlar að þyngdartapi“. Í viðauka reglugerðar ESB um heilsufullyrðingar er langur listi yfir leyfðar fullyrðingar um næringarefni og tilgreint hvaða skilyrði vara þarf að uppfylla til að bera hverja fullyrðingu og er sá listi uppfæranlegur. Á bakvið hverja fullyrðingu verður að vera vísindalegur rökstuðningur þ.e.a.s. vísindalegar rannsóknir sem sýna fram á sannleiksgildi fullyrðinga. Efni þarf helst að vera búið að rannsaka með utan líkama tilraunum (in vitro) þ.e. tilraunir í efnaglösum og frumutilraunir, dýratilraunum og tilraunum á fólki þ.e.a.s. klínískum, faraldsfræðilegum og lífefnafræðilegum rannsóknum, til að það megi fullyrða um áhrif þess (svipað og á við um lyf, þó gilda ekki jafn strangar reglur um matvæli eins og á við um lyf). Eftir því sem rannsóknirnar eru stærri, fleiri og vandaðri eykst styrkur sannanna.

MIKILVÆGT AÐ LESA Á UMBÚÐIR

Þess vegna er mikilvægt að lesa á umbúðir, kanna hvort varan beri næringa- og/eða heilsufullyrðingu, og meta hvort að hún henti þér og þeim áhrifum sem að þú leitar að. Markaðurinn er stútfullur af alls kyns efnum og því er mikilvægt að velja vel. Íþróttafólki er oft ráðlagt að taka hin og þessi fæðubótarefni, og stundum spyr maður sig hvort það sé raunverulegur ávinningur af því að taka fjöldan allan af mismunandi fæðubótarefnum, eða hvort að þetta sé hreinlega bara markaðurinn að reyna að græða. Það hafa komið upp tilfelli þar sem að fólk fær eitrunaráhrif af því að taka of mikið af fæðubótarefni, sem stafar annað hvort af því að það er of stór skammtur af ákveðnu efni, eða vegna allra aukaefnanna sem eru sett með í vörurnar. Þumalputtareglur eru að hafa þetta einfalt, taka einungis það sem að þú veist hvað er og hver virknin er, og að sú virkni uppfylli því sem þú leitar að. Því betur upplýstur sem þú ert því líklegra er að þú takir réttar ákvarðanir hvað þetta varðar. Fæðubótarefni geta verið afar gagnleg notuð rétt, þau hjálpa til við vöðvauppbyggingu (s.s. prótein, peptíð og amínósýrur), hafa andoxunarvirkni, t.d. D-vítamín, E-vítamín, hjálpa til við meltinguna s.s. bætibakteríur, gefa aukna orku t.d. gingseng og beta-alanine, og svo mætti lengi telja.
Fæðubótarefni geta skipt sköpun í heilsu manna, og árangri í íþróttum, þegar þau eru notuð á skynsaman og upplýstan hátt.

Dr. Siggú / Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, PhD í matvælafræði frá Háskóla Íslands, BSc í matvælafræði frá Háskóla Íslands, ICF Markþjálfi frá Evolvia, og stundar nú Heilsunuddnám við Fjölbraut í Ármúla. Áður starfaði Siggú sem sérfræðingur og verkefnastjóri á Líftæknisviði hjá Matís, sérfræðingur í Hugverkamálum hjá Matís, og sem aðjúnkt hjá Háskóla Íslands. Sigrúnu stundaði mastersnám í Lögræði í Háskólanum í Reykjavík með áherslu á Hugverkaréttindi um skeið. Nú er Siggú með sjálfstæðan rekstur sem hún kallar Dr. Siggú, þar býður hún uppá nudd, markþjálfun, lífsstílsþjálfun og dáleiðslu. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu hennar drsiggu.is.

Segðu þína skoðun...