Meðvirkni verður til í æsku

Höfundur:   0 athugasemdir

Þegar ég settist niður og ákvað að skrifa um meðvirkni þá vissi ég að mér var vandi á höndum. Meðvirkni er ofboðslega algeng og margvísleg og mjög erfitt að ræða hana svo vel sé í stuttu máli. En mér hefur lærst með aukinni reynslu frá mínu starfi sem ráðgjafi að það er ákveðinn grunn þráður frá upphafi meðvirkni fram á fullorðinsár og mun ég gera mitt besta til að koma því til skila hér að neðan.

Meðvirkni er víðtækt vandamál

Meðvirkni er orð sem allir þekkja en fæstir vita í raun og veru hversu víðtækt vandamál er hér á ferðinni. Áður fyrr var litið svo á að aðallega konur væru meðvirkar, konur sem bjuggu við alkóhólískar aðstæður. Þetta voru óhamingjusamar konur sem létu allt yfir sig ganga, gerðu ekkert nema að tuða og kunnu ekki að segja nei.

Meðvirkni verður til í æsku

Meðvirkni verður ávallt til í æsku, hún verður til þegar barn býr við langvarandi vanvirkar aðstæður, þ.e.a.s. þegar háttalag annarra, hegðun, framkoma eða aðstæður gera það að verkum að barnið verður að aðlaga sig að vanvirkum aðstæðum, breyta sínu upprunalega sjálfi. Barnið hefur ekki lengur frelsi til að vera það sjálft heldur þarf að breyta sér. Ástæður þess að börn reyna að aðlaga sig að aðstæðum er vanlíðan. Þeim líður illa í einhverskonar aðstæðum sem kallar fram grunnviðbrögð heilans, að þegar okkur líður illa þá fer heilinn strax að leita leiða til að láta okkur líða betur. Okkur er ekki eðlislægt að dvelja í sársauka, við leitumst alltaf, jafnvel ómeðvitað, að láta okkur líða betur.

Dæmi: Barn sem verður reglulega vitni að rifrildum foreldra. Því líður sannarlega illa, það gæti tekið upp á því að blanda sér inn í, með því að biðja þau að hætta, öskra á þau eða kasta sér í gólfið og gráta. Hugsanlega virkar þetta háttalag í upphafi en foreldrar eiga það oftast til að vilja klára rifrildi. Með tímanum fer barnið að halda sig í fjarlægð, lokar sig af inni í herbergi, jafnvel grátandi eða það finnur sér eitthvað fyrir stafni svo það taki síður eftir sársaukanum. Barnið er farið að aðlaga sig að vanvirkum aðstæðum af einskærri sjálfsbjargarviðleitni. Barnið lærir leiðir til að láta sér líða betur, lærir að “fixa” sig. Vanvirkar aðstæður sem þrýsta barninu í að breyta sér skaða um leið eðlilega uppbyggingu á sjálfsmati og sjálfstrausti.

Í sjálfsbjargarviðleitni finna börn sér hlutverk

Margir hafa heyrt um hlutverkin sem börn fara í. Fjölskylduhetjan, oft elsta barn sem leggur sig fram við að fá hrós og viðurkenningu fyrir að standa sig vel í skóla, íþróttum, duglegt heimavið o.s. frv. sem er sjálfsbjargarviðleitni til að finnast það vera verðmætt. Ekki fyrir eigin verðleika heldur fyrir það sem það gerir. Bjargvætturinn, barnið sem einblínir á hag annarra, líðan annarra, setur aðra fram fyrir sjálft sig því með því upplifir það verðmæti. Svarti sauðurinn forðast vanlíðan sína með því að vera hvatvís, fá neikvæða athygli, setja upp tilfinningarlega veggi. Trúðurinn leggur sig fram við að vera hress og fyndinn til að finnast hann vera verðmætur og einnig svo enginn sjái hvernig honum líður. Týnda barnið einangrar sig, lætur lítið fyrir sér fara, býr sér til sinn eigin heim með dóti til að forðast sársaukann í samskiptum heimilisfólksins.

Hlutverkin eru flóttaleiðir barnsins, sjálfsbjargarviðleitni þess til að láta sér líða betur. Flestir hafa verið í fleiri en einu hlutverki á lífsleiðinni, en hlutverkið sem barnið fer í milli 2 og 8 ára aldurs hefur mér fundist mesti áhrifavaldurinn á lif barnsins. Því hvert hlutverk skilur eftir sig ákveðna vanvirkni sem betur kemur í ljós á fullorðins aldri.

Fermingaraldurinn er vendipunktur hjá meðvirku barni

Yfirleitt verða miklar breytingar á meðvirku barni í kringum fermingu. Barnið er að verða unglingur, kröfurnar aukast. Samfélagið krefur unglinginn um meira sjálfstæði t.d. varðandi nám, vinir þrýsta á aðskilnað frá foreldrum og kynþroskaskeiðið hefur sín áhrif. Hlutverkin hætta að virka sem skyldi og unglingurinn þarf betri flóttaleið fyrir vanlíðanina. Unglingur með mjög lágt sjálfsmat ánetjast svo ansi oft þeirri flóttaleið sem hann notast við og það eru fíknirnar okkar. Því miður eru flóttaleiðirnar í dag æði margar og margar hverjar líta út fyrir að vera eðlilegur hluti af tilveru okkar, s.s. vinnufíkn, innkaupafíkn, sjónvarpsfíkn og svo eru það allar hinar viðurkenndu fíknirnar sem við þekkjum öll.

Vandamálið er gríðarstórt. Sjáið fyrir ykkur einstakling sem fer í vinnuna kl. 8 eð a 9 að morgni, vinnur til fimm, fer heim lagar til, undirbýr matinn, sest fyrir framan sjónvarpið og fer svo að sofa. Þessi sama rútína er alla virka daga. Svo um helgar er drukkið áfengi eða passað upp á það að hafa nóg fyrir stafni svo við upplifum örugglega ekki hvernig okkur líður í raun og veru.

Sköpun meðvirkni í stuttu máli

Á mjög einföldu máli, vanvirkar aðstæður í æsku hjá barni skapa sársauka og lágt sjálfsmat, breytt sjálf sem við köllum meðvirkni. Í stað þess að vinna úr tilfinningunum og skilja hvað þær eru að segja okkur þá finnum við flóttaleiðir frá sársaukanum, sem eru hlutverkin í æsku og fíknirnar síðar meir. Það er því ekki nóg að losa sig við fíknirnar heldur nauðsynlegt að heila sársaukann innra með okkur, þ.e.a.s. því sem veldur fíkninni „meðvirknina.”

Kjartan Pálmason

Kjartan Pálmason er klínískur þerapisti hjá Hamskipti. Kjartan hefur starfað í tengslum við áfengis, vímuefna og meðvirkni mál frá árinu 2001, og hefur hann sérhæft sig sérstaklega í meðvirkni, áföllum, sambands-, samskipta- og hjónabandsmálum síðastliðin ár. Kjartan er einnig menntaður Guðfræðingur og hefur lokið embættisprófi frá Guðfræðideild Háskóla Íslands.

Segðu þína skoðun...


Provided by water damage columbus