Börn eru börn til 18 ára aldurs ?

Höfundur:   0 athugasemdir

Ég vil byrja þessa grein á að taka fram að ég er hvorki lögfræðingur né sérfræðingur í vinnurétti. Ég er hins vegar foreldri á vinnumarkaði og það er aðalatriðið í þessum hugleiðingum mínum.

Eins og gengur og gerist þá eiga börn til að veikjast, næla sér í pestir hér og þar. Flest þekkjum við minniháttar pestir sem ganga á leikskólum, grunnskólum o.fl. Þetta þykir eðlilegt mál og við foreldrar þurfum þá stundum að vera frá vinnu vegna þessa og vinnuveitendur hafa sýnt þessu skilning með því að skrá fjarveru okkar sem veikindi barna, við höldum launum okkar að mestu og allir sáttir.

Ég hef blessunarlega ekki þurft að nýta þennan rétt minn hin síðari ár. Dóttir mín, nú 17 ára, var mjög heilsuhraust þar til nú í febrúar og ég vinn talsvert heima hvort eð er þannig að ég hef ekki misst úr vinnu vegna minniháttar veikinda eða slappleika hjá henni.

ALVARLEG VEIKINDI

Hún veiktist þó alvarlega nýverið. Lá heima með mikla kviðverki, uppköst og hita. Læknir var kallaður heim og greindi veikindi hennar ranglega – talaði um svæsna magapest og sagði okkur að athuga stöðuna eftir 2 sólarhringa. Heilsan hjá henni fór upp og niður, á fimmta degi var hún orðin mjög lasin og okkur foreldrunum leist ekki á blikuna. Hún fór á spítala í nánari rannsókn sem leiddi hið sanna í ljós, hún var með sprunginn botnlanga og vísbendingar um að hún hafi verið búin að vera þannig í marga daga. Hún fór í bráðaaðgerð sem leiddi í ljós allskonar flókið ástand vegna þess hve lengi hún var án réttrar meðferðar. Ástandið var lífshættulegt. Aðgerðin sjálf heppnaðist vel og erum við foreldrarnir þakklát frábærum læknum á Barnaspítala Hringsins sem og skurðlæknum og öllum þeim sérfræðingum og góða fólki sem kom að þessu máli.

Í kjölfar aðgerðarinnar var hún á spítalanum í viku, hún fór heim í tvo daga en svo fór allt á verri veg. Aftur var farið á á spítala og nú með sjúkrabíl. Sýkingin hafði tekið sig upp aftur og ástandið orðið grafalvarlegt. Hún var á spítalanum í fimm daga til viðbótar áður en hún var útskrifuð og mátti fara heim.

VEIKINDARÉTTUR BARNA ENGINN EFTIR 13 ÁRA ALDUR

Þá víkur sögunni aftur að veikindaréttinum. Á Barnaspítalanum átti ég samtal við móður sem sagði mér að vinnuveitandi sinn hefði sagt að hún ætti engan veikindarétt vegna barna því hann hætti við 13 ára aldur. Ég varð vægast sagt mjög hissa, ég hafði aldrei heyrt þetta! Fyrir mér eru börn áfram börn til 18 ára aldurs og ættu að njóta sömu réttinda allan tímann. Við nánari eftirgrennslan kemur þetta heim og saman, barnsmóðir mín hafði sömu sögu að segja. Hún var frá vinnu í allt að 4 vikur í tengslum við þessi veikindi og vinnuveitandi nefndi líka þessa reglu sem miðast við að veikindaréttur barna sé enginn eftir að þau verði 13 ára.

LAUNALAUSIR FORELDRAR MEÐ VEIK BÖRN

Eins og það sé ekki nógu mikið álag að vera með mikið veikt barn, þá eykst álagið til muna við þá hugsun að mögulega séu foreldrar tekjulausir á meðan því rétturinn er enginn. Ég hafði samband við stéttarfélag mitt sem nefndi tvær lausnir; A) að biðja launagreiðanda minn að skrá þetta sem mín eigin veikindi (ganga á minn eigin veikindarétt) og B) senda inn umsókn til sjúkrasjóðs stéttarfélagsins sem myndi, án ábyrgðar, greiða eitthvað hlutfall launa. Báðar lausnir hugnast mér illa. Í fyrra tilfellinu, að skrá veikindi barnsins sem mín eigin, finnst mér farið á bak við kerfi sem er greinilega gallað. Seinni kosturinn, að sækja til sjúkrasjóðs upp á von og óvon að fá eitthvað hlutfall launa greitt þaðan, er líka erfitt, tekur tíma og eykur álagið.

SKYLDUR FORELDRA

Börn eru börn og á ábyrgð foreldra til 18 ára aldurs.

Í 5. kafla 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 3 er fjallað um forsjárhugtakið og inntak þess. Þar segir meðal annars:

„Barn á rétt á forsjá foreldra sinna, annars eða beggja, uns það verður sjálfráða og eru þeir forsjárskyldir við það.
Foreldrum ber að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum.
Forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn hvers kyns ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.
Foreldrum ber að afla barni sínu lögmæltrar fræðslu og ala með því iðjusemi og siðgæði.
Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess.
Forsjárforeldri fer enn fremur með lögformlegt fyrirsvar barns.
Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.“

BÖRN 16-18 ÁRA Í HOLU Í KERFINU

Á vefsíðu BSRB segir svo um veikindarétt barna2:
„Í kjarasamningum er fjallað um rétt starfsmanna vegna veikinda barna. Starfsmaður á rétt á að vera frá vinnu samtals 12 vinnudaga á hverju almanaksári vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri ef annarri umönnun verður ekki við komið. Þessi réttur skerðir ekki önnur réttindi samkvæmt veikindakafla kjarasamnings.
Ef barn undir 16 ára aldri lendir í alvarlegum veikindum sem veldur sjúkrahúsvistun má nýta framangreindan rétt vegna þess samkvæmt kjarasamningum aðildarfélaga BRSB og Sambands íslenskra sveitarfélaga.“

Samkvæmt þessu þá lenda börn á aldrinum 16-18 ára í holu í kerfinu. Þetta er eitthvað sem þarf klárlega að laga.

Á vefsíðu ASÍ segir 3:
Meginregla vinnuréttar er sú að veikindaréttur stofnast vegna eigin veikinda en ekki annarra. Reglur kjarasamninga um sérstakan veikindarétt vegna veikra barna er undantekning þar frá.

GALLAÐ KERFI

Sem betur fer hafa vinnuveitendur okkar foreldranna í þessu tilviki verið skilningsríkir, en það er ekki sjálfsagt. Þónokkrir foreldrar sem ég hef rætt við um svona mál hafa, í samráði við vinnuveitendur, gengið á sína eigin veikindadaga til að standa ekki uppi með tekjuskerðingu í kjölfar alvarlega veikinda barna. Kerfið er að mínu mati meingallað þegar kemur að veikindarétti barna eftir 13 ára aldur. Þeir foreldrar sem ég hef rætt við um þetta eru gapandi yfir þessu fyrirkomulagi og allir sammála um að börn ættu að vera skráð sem börn til 18 ára aldurs. Ég tek heilshugar undir það. Ég hef fullan skilning á því að sjálfbjarga unglingar geti verið einir heima með minniháttar pestir en þegar um alvarleg veikindi eru að ræða þá horfa málin öðruvísi við. Í sumum tilvikum getur umönnun heima fyrir verið nauðsynleg og í öðrum þurfa börnin að leggjast inn á sjúkrahús. Umönnun foreldra var svo sannarlega nauðsynleg í tilviki dóttur minnar og er það því miður þannig farið hjá mörgum öðrum foreldrum með börn eldri en 13 ára.

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Málið er ekki einfalt, það er ósk okkar allra að við þurfum ekki að nýta okkur svona rétt en það er mikilvægt að hlúa að þeim sem þurfa á hjálp að halda. Í tilfellum þar sem foreldrar eru með alvarlega veik börn þá eru auknar launaáhyggjur það síst sem þarf. Ég tel ekki rétt að vinnuveitendur og foreldrar fari á „bakvið“ kerfið með því að ganga á veikindarétt foreldra í svona tilvikum, því ef kerfið virkar ekki rétt – þá er kerfið gallað! Sú lausn sem skjótt væri hægt að grípa til er að hækka aldurstakmörkin á veikindarétt í tengslum við alvarleg veikindi barna, úr 16 árum í 18 ár, og tryggja að slíkt eigi við um foreldra í öllum stéttarfélögum.

VEKJUM UMRÆÐU – DEILDU ÞESSUM PÓSTI

Markmið þessa pistils er að vekja umræðu um þetta mikilvæga mál. Ég hvet alla sem vilja láta sig málið varða að deila þessum pistli á samfélagsmiðlum og stuðla þannig að því að opna umræðuna með þá von að eitthvað verði gert í að laga þetta. Þörfin er sannarlega til staðar!

Tilvísanir:
1 – https://www.althingi.is/lagas/nuna/2003076.html
2 – https://www.bsrb.is/is/vinnurettur/starfsaevin/veikindarettur
3 – https://www.asi.is/vinnurettarvefur/vinnurettur/rettindi-og-skyldur/veikindi/veikindarettur/veikindi-barna/

Bent er ÍAK einkaþjálfari og auk þess með sterkan bakgrunn í vef- og markaðsmálum og vann m.a. um árabil við markaðs- og auglýsingamál hjá World Class. Bent var vefstjóri Kópavogsbæjar um árabil og hefur einnig unnið við margvísleg verkefni hjá mbl.is. Bent er ljósmyndari og hafa myndir eftir hann verið birtar í blöðum víðsvegar um heim. Hann er auk þess bæði tónlistarmaður og tónlistarkennari og brautryðjandi í fjarkennslu á gítar. Bent er einnig menntaður í garðyrkjufræðum frá Garðyrkjuskóla ríkisins.

Segðu þína skoðun...