fbpx

Er eitthvað hægt að gera við appelsínuhúð?

Höfundur:   0 athugasemdir

Stutta svarið er: já, helling.

Skoða þarf heildrænt hvaða þættir eru ábyrgir fyrir myndun appelsínuhúðar, en þessir þættir eru:

 • Mataræði
 • Bjúgmyndun
 • Heilbrigði bandvefs

Appelsínuhúð myndast þegar fituvefur og millifrumuvökvi í líkama okkar myndar nokkurskonar poka sem þrýstist svo í gegnum bandvefinn yfir vöðvunum. Við þetta myndast áferð á húðinni sem ágerist svo þegar aukning verður á millifrumuvökva, semsagt þegar bjúgur myndast.

Til þess að vinna á appelsínuhúð, minnka hana eða jafnvel losna alveg við við hana, þarf að vita hvað veldur henni og hvaða varanlegu lífsstílsbreytingar við getum tileinkað okkur til að vinna á henni. Mögulegt er að losna við appelsínuhúð, jafnvel að öllu leyti. Ég afrekaði það þegar ég tók þátt í módel fitness 2018 m.þ.a tileinka mér mjög hreint plöntumiðað mataræði, ekkert áfengi, lítinn sem engan sykur (og alls engan gervisykur) ásamt reglubundinni líkamsrækt, yogastöðum þar sem farið er á hvolf (e. Inversion Yoga), þurrburstun og notkun Foamflex púða.

Pósuæfing fyrir IFBB módel fitness 2018.

Mataræði

Þegar mataræði er skoðað má sjá að:

 • Fylgni hefur fundist á milli þyngdaraukningar og appelsínuhúðar
 • Sykur, djúpsteiktur matur og óhófleg áfengisneysla stuðlar að þyngdaraukningu.
 • Hreyfingarleysi stuðlar að þyngdaraukningu og bjúgsöfnun.
 • Neysla á kjöti hefur verið tengd þyngdaraukningu, þá sérstaklega neysla á unnum kjötvörum, burtséð frá heildar kaloríufjölda sem innbyrtur er.
 • Fjölliðan Spermine hefur verið tengd appelsínuhúð. Eftirfarandi matvæli innihalda Spermine: Hakk, svínakjöt, kalkúnakjöt, egg og grænar baunir.
  • Neysla á þessum matvælum eykur því og viðheldur myndun appelsínuhúðar.

Neikvæð fylgni er hinsvegar milli trefjaríks mataræðis og appelsínuhúðar og þar sem trefjar eru einungis að finna í plöntumiðuðum mat má sjá að:

Plöntumiðað fæði eða grænkerafæði minnkar líkur á myndun appelsínuhúðar.

Bjúgmyndun

Til að losna við bjúg er gott að:

 • Hreyfa sig, stunda líkamsrækt, gera hvolfstöður í jóga
 • Takmarka saltneyslu
 • Drekka nóg vatn

Sogæðakerfið hefur enga sjálfvirka hreyfingu þar sem í því er engin pumpa eins og hjartað er fyrir hjarta- og kransæðakerfið. Reiðir því á vöðvanna að fá hreyfingu í sogæðakerfið. Hreyfing er einnig mikilvæg til viðhalds á heilbrigðum bandvef.

Heilbrigði bandvefs

Bandvefurinn eru n.k. límkenndir þræðir sem liggja utan um vöðva okkar og gegna stóru hlutverki við að halda öllu á sínum stað. Ef við vanrækjum hreyfingu, er hætta við að þessir þræðir byrji að festast saman, sem gerir myndun appelsínuhúðar enn meira áberandi. Til að vinna á móti þessu er, auk reglubundinnar hreyfingar, gott að nudda vandamálasvæðin með fingrum og hnúum, nota Foamflex púða, fara í sogæðanudd og þurrbursta húðina.

Einnig er gott að hvíla fótleggi aðeins upp við vegg meðan legið er á bakinu eftir vinnudaginn, til að létta á þrýstingnum í fótum og auðvelda blóðflæði tilbaka.

Að lokum, heilsa okkar og vellíðan mun alltaf vera með hinu besta móti með heilsusamlegum lífsstíl. Það sem gerir okkur þó fallegust, færir okkur mesta vellíðan og gefur okkur hugarró, er að elska og samþykkja okkur sjálf, hvernig sem við erum, að utan sem innan.

Berglind Rúnarsdóttir

Ég heiti Berglind Rúnarsdóttir og er jógakennari með BS gráðu í matvælafræði, kafari, fríkafari, ferðalangur, móðir, stjúpmóðir og kærasta. Ég hef ástundað jóga, hugleiðslu og öndunaræfingar í yfir 20 ár og snúast áhugamálin yfirleitt um að hámarka heilsu og vellíðan, dansa og að busla í vatni við hvert tækifæri. Árið 2006 varði ég þremur mánuðum við köfun við strendur Thailands til að ná PADI köfunarmeistararéttindum (e. Dive Master). Það var þá sem ég gerði mér grein fyrir mikilvægi meðvitaðrar öndunar og að viðhalda ró í krefjandi aðstæðum.

Ég hef tekið þátt í IFBB módel fitness þar sem ég vann í mínum flokki, æft Roller Derby með íslenska landsliðinu um árabil, gegnt hlutverki lukkudýrs og ferðast víðsvegar um heiminn eins míns líðs, bæði innan og utan Evrópu. Þetta hef ég gert til að fá þær upplifanir sem ég vildi, til að skora á sjálfa mig og til að þjálfa með mér hæfni til að dvelja utan þægindarammans.

Ég leitast sífellt við að bæta við mig þekkingu í næringarfræði, öndunartækni (Wim Hof, Buteyko, Soma og DMT öndunaræfingum) og hverskyns lífsleikni. Ég brenn fyrir að hjálpa fólki að ná árangri í sínu lífi og sigrast á sínum vandamálum.

Vefsíðan mín brglndyoga.is er komin í loftið og er hægt að óska eftir ráðgjöf á brglndyoga@gmail.com

Segðu þína skoðun...