fbpx

Ferðafélaginn í lífsferðalaginu

Höfundur:   0 athugasemdir

Viltu finna lífsförunautinn þinn í lífinu? Ef svo er, þá skaltu líta inn á við. Fyrsti, síðasti og mikilvægasti lífsförunautur þinn er nefnilega þú. Já, þú.

Þú þarft fyrst að læra að elska þig, sjá fyrir þörfum þínum, blómstra í lífinu af sjálfsdáðum, venjast því að taka á móti ást og umhyggju frá þér, áður en þú getur farið að huga að því að bjóða annarri manneskju inn í líf þitt. Það er ekki fyrr en þú hefur komið þér á þann stað andlega, að geta séð um allar þínar þarfir, bæði efnislegar og tilfinningalegar, og vanist því að bæði gefa og taka á móti kærleik, þá fyrst getur þú byrjað að huga að lífsförunauti.

Ímyndaðu þér að þú gefir þér ekki þennan tíma til að öðlast þennan sjálfkærleik áður en þú hefur leitina. Þú hittir einhvern sem þú fellur fyrir, nema hvað að þessi einstaklingur kann ekki nægilega að meta þig og sem sýnir þér takmarkaða ást og umhyggju. Hvernig áttu eftir að geta gert þér grein fyrir stöðu mála, ef þú hefur ekki tekið þennan tíma fyrir þig og lært að meta og elska þig? Takmörkuð ást gæti virkað eins og hellingur fyrir þig, þegar þú hefur vanið þig á að gefa takmarkað af þér til þín. Þú átt skilið að sá sem er með þér í sambandi elski þig 100%. Til þess að þú getir fundið þannig manneskju og skynjað þannig frá annarri manneskju, þarf slíkt fyrst að koma frá þér.

Hlutverk lífsförunauts er nefnilega ekki að sjá fyrir öllum þínum þörfum eða sýna þér skilyrðislausa ást og umhyggju, án nokkurns framlags frá þér. Samband er samvinna, gagnkvæmt traust, gagnkvæm ást, gagnkvæm umhyggja. Þið eruð saman af því þið viljið það bæði, ekki af því að annað þarf á hinu að halda og hitt t.d. upplifir sig skuldbundið (eða eitthvað þaðan af verra). Mikilvægt er að samband hefjist á þessum forsendum og að þeim sé haldið til haga. Þannig ná báðir aðilar að þróast, þroskast og mótast og sambandið nær að þróast með, traust og gagnkvæm hrifning styrkist og dafnar.

Séu forsendurnar þínar að finna einhvern sem elskar þig til að koma í veg fyrir depurð og einmanaleika, ber það þess merki að þú kunnir ekki að elska þig skilyrðislaust og leitir að sambandi á röngum forsendum. Þú munt ekki finna einhvern sem er þess verðugur að koma inn í líf þitt fyrr en þú þekkir og elskar þitt eigið virði. Sjálfsást er vinna og tekur bæði tíma og fyrirhöfn.

Þú þarft að elska þig, algerlega, hverja frumu í líkama þínum og hvern afkima í sálu þinni, líka þá hluta sem þú vilt breyta og/eða bæta. Þú þarft að finna fyrir skilyrðislausri ást til þín, áður en þú getur treyst einhverjum öðrum til að elska þig. Þegar þú ert komin/á þann stað, að elska þig skilyrðislaust, geturu farið að sjá fyrir þér hvernig lífsförunaut þú vilt og hafið leitina. Njóttu ferðalagsins til sjálfsástars og góða leit að því loknu!

Berglind Rúnarsdóttir

Ég heiti Berglind Rúnarsdóttir og er jógakennari með BS gráðu í matvælafræði, kafari, fríkafari, ferðalangur, móðir, stjúpmóðir og kærasta. Ég hef ástundað jóga, hugleiðslu og öndunaræfingar í yfir 20 ár og snúast áhugamálin yfirleitt um að hámarka heilsu og vellíðan, dansa og að busla í vatni við hvert tækifæri. Árið 2006 varði ég þremur mánuðum við köfun við strendur Thailands til að ná PADI köfunarmeistararéttindum (e. Dive Master). Það var þá sem ég gerði mér grein fyrir mikilvægi meðvitaðrar öndunar og að viðhalda ró í krefjandi aðstæðum.

Ég hef tekið þátt í IFBB módel fitness þar sem ég vann í mínum flokki, æft Roller Derby með íslenska landsliðinu um árabil, gegnt hlutverki lukkudýrs og ferðast víðsvegar um heiminn eins míns líðs, bæði innan og utan Evrópu. Þetta hef ég gert til að fá þær upplifanir sem ég vildi, til að skora á sjálfa mig og til að þjálfa með mér hæfni til að dvelja utan þægindarammans.

Ég leitast sífellt við að bæta við mig þekkingu í næringarfræði, öndunartækni (Wim Hof, Buteyko, Soma og DMT öndunaræfingum) og hverskyns lífsleikni. Ég brenn fyrir að hjálpa fólki að ná árangri í sínu lífi og sigrast á sínum vandamálum.

Vefsíðan mín brglndyoga.is er komin í loftið og er hægt að óska eftir ráðgjöf á brglndyoga@gmail.com

Segðu þína skoðun...