Tilfinninga verkfærakassinn

Höfundur:   0 athugasemdir

Það kemur fyrir að ég er ekki eins hress og ég vildi vera, fæ kvíðahnút eða missi sjálfstraustið. Þegar það gerist leyfi ég mér að sitja með tilfinningum mínum og minni mig á að allir upplifa vanlíðan á einhverjum tímapunkti, það er hluti af lífinu. Svo hefst ég handa við að lyfta mér upp. Það er nefnilega svo magnað, að það er ekki agi sem hvetur okkur til dáða, heldur venjur okkar. Því er svo mikilvægt að tileinka okkur góðar venjur, verkfæri til að notast við þegar við hrösum á lífsleiðinni. Hér eru nokkur verkfæri sem mér hefur áskotnast í tilfinninga verkfærakassann.

Leyfðu þér að sitja með tilfinningum þínum

Það að sitja með tilfinningum sínum er ekki það sama og að leyfa sér að leggjast í sjálfsvorkunn. Við verðum að viðurkenna tilfinningar okkar og samþykkja okkur þrátt fyrir að hafa þær. Þannig getum við byrjað að sættast við þær, vinna úr þeim og halda áfram.

Andaðu meðvitað

Það er magnað hversu vanmetið verkfæri það er að draga andann djúpt og meðvitað. Öndun er bæði sjálfráð og ósjálfráð og því komumst við upp með að vanrækja öndunina. Öndun er fljótlegasta og áhrifaríkasta leiðin sem við höfum, til að koma okkur úr streituástandi (fight/flight) og yfir í slökunarástand (rest/digest). Til eru nokkrar mismunandi tegundir öndunaræfinga sem vinna að mismunandi marki. T.a.m. er Buteyko öndunaræfingin ætluð til slökunar en Wim Hof og Soma ætlaðar til að lyfta vellíðan og orku.

Faðmaðu þig

Hvort sem þú tilheyrir tryggum vinahóp, ert í kærleiksríku sambandi eða í góðum samskiptum við mömmu þína og færð faðmlag oft á dag eða aldrei, er gott að vera meðvitaður um það að: við getum faðmað okkur sjálf til að upplifa kærleik og hressa okkur við. Faðmlag frá sjálfu þér er faðmlag frá einhverjum sem þú elskar og sem elskar þig.

Ekki hafna þér

Það er ríkt í samfélaginu að dæma og verst dæmum við okkur sjálf og höfnum okkur. Það er gífurlega sárt og mikilvægt er fyrir alla tilfinningalega velmegun að samþykkja allt við okkur (líka það sem okkur finnst mega bæta). Ef þér reynist þetta erfitt prófaðu þá þessa hugaræfingu: Ímyndaðu þér að inni í innstu hjartarótum þínum dvelur lítið saklaust barn, sem treystir þér fullkomlega, hlustar á hvert orð sem þú segir og meðtekur það. Hvert orð sem þú segir við þig, ertu líka að segja við þetta saklausa barn. Þú berð ábyrgð á að kenna þessu barni heilbrigð samskipti og sjálfkærleik. Því þetta barn ert þú.

Valda stöður

Prófaðu einhverjar af Valda stöðunum (e. Power Pose), t.d. að setja hendur á mjaðmir eða upp í loftið og þrýsta bringunni fram eins og Súperman, í tvær mínútur. Sýnt hefur verið að þessi staða (meðal annarra sem hægt er að fræðast um hér) vekur upp og eflir sjálfstraust okkar.

Dansaðu

Það að dansa við uppáhalds lagið gerir kraftaverk fyrir andlega líðan. Komdu þér fyrir í næði, settu uppáhaldslagið í græjurnar eða heyrnartólin og fáðu útrás. Það jafnast fátt á við tilfinninguna að upplifa frelsi í eigin líkama þegar við leyfum okkur að hreyfa hann eftir orkunni sem við finnum fyrir.

Farðu yfir HNALT

Ertu HNALT (Hungry, Neglected, Angry, Lonely, Tired)? Hefuru sýnt þér kærleik í verki með því að passa upp á svefninn, mataræðið, félagsþörf, skipulag, tiltek, eða eitthvað annað sem gefur þér öryggi og veitir vellíðan? Það eru svona hlutir sem við pössum upp á til að sýna okkur sjálfsást og sem hjálpar okkur að halda andlegu jafnvægi og viðhalda vellíðan.

Skrifaðu það niður

Ef ég upplifi gremju yfir einhverju þá hjálpar mér til að vinna úr því að hluta það í sundur í 5 dálka. Fyrst skrifa ég ágreiningsefnið (gremjuna) og hver á í hlut. Í næsta dálk útskýri ég ástæðu gremjunnar. Í næsta á eftir: hvaða hluti sjálfs míns var ógnað (sjálfsvirðing, stolt, tilfinningalegt öryggi, félagslegt öryggi, fjármál, kynferðissamband eða annað). Í fjórða dálk skrifa ég niður hvernig mín hegðun í samskiptunum var (var ég óheiðarleg, eigingjörn, óttaslegin o.s.frv). Í síðasta dálkinn fer uppgjör mitt á eigin hegðun (hvað gerði ég til að orsaka).

Þegar ég hef lokið við að koma ástæðu gremju minnar svona niður á blað og get horft á hana hlutlægt, hverfur gremja mín í langflestum tilfellum.

Endilega prófaðu eitthvað af þessum aðferðum næst þegar þú ert eitthvað niðri. Gangi þér vel, frá mér til þín.

Ég heiti Berglind og er einkaþjálfari og jógakennari með BS gráðu í matvæla- og næringarfræði frá Háskóla Íslands. Ég hef kennt fólki að elska sig frá því ég tók minn fyrsta sporahring árið 2006. Ég kenni tækjaþjálfun, jógastöður, öndunartækni og hugleiðslu í World Class og býð einnig upp á 1:1 þjálfun í lífsleikni.

Frekari upplýsingar og tímabókarnir:
brglndyoga.is | brglndyoga@gmail.com

Segðu þína skoðun...