fbpx

Kórónaveiran COVID-19 Algengar spurningar og svör

Höfundur:   0 athugasemdir

Hvað er vitað um þessa nýju veiru og faraldurinn á þessu stigi?

Orsök núverandi faraldurs er ný tegund kórónaveiru sem hefur ekki áður greinst í mönnum. Veiran var fyrst nefnd 2019-nCoV en vegna mikils skyldleika við SARS veiruna hefur hún nú hlotið nafnið SARS-CoV-2 og sjúkdómurinn kallast nú COVID-19. Veiran er ekki eins skæð og SARS eða MERS kórónaveirur sem höfðu 10% og 35% dánartíðni, en virðist mun meira smitandi og þessi faraldur hefur nú þegar haft mun meiri áhrif á heimsvísu en SARS faraldurinn hafði. Tíðni alvarlegra veikinda og dauðsfalla er mun hærri meðal ákveðinna hópa en almennings en dánarhlutfall er um 2–3% í heildina, undir 1% fram að fimmtugu en rís eftir það og er um 12–15% hjá elstu einstaklingum sem fá staðfest smit. Athugið að sennilega er töluvert mikið um vægari smit á öllum aldri sem lækka þá þessar tölur.

 

Hvað er kórónaveira?
Kórónaveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum (m.a. fuglum og spendýrum). Kórónaveirur eru þekkt orsök kvefs en aðrar kórónaveirur geta einnig valdið alvarlegri lungnabólgu og jafnvel dauða. Fyrri sjúkdómshrinur sem vitað er að voru af völdum kórónaveiru voru SARS sem barst frá Kína á árunum 2002–2003 og MERS í Mið-Austurlöndum frá árinu 2012. SARS og MERS voru minna smitandi en inflúensa, en ollu faröldrum á ákveðnum svæðum og á sjúkrahúsum. Dánartíðni SARS- og MERS-sýkinganna var einnig mun hærri en fyrir inflúensu eða COVID-19.

 

Hvað er verið að gera á Íslandi?
Viðbúnaður á Íslandi er samkvæmt viðbragðsáætlun sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

 • Frá 6.3.2020 er unnið samkvæmt NEYÐARSTIGI áætlunar um heimsfaraldur
 • Leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsmanna hafa verið uppfærðar og gefnar út.
 • Leiðbeiningar til almennings og ferðamanna um hvernig eigi að nálgast heilbrigðiskerfið ef grunur vaknar um COVID-19 hafa verið gefnar út.
 • Viðbragðsáætlanir fyrir alþjóðaflugvelli og hafnir  landsins hafa verið gefnar út.
 • Heilbrigðisstofnanir hafa uppfært sínar viðbragðsáætlanir.
 • Ekki er ástæða til að setja á ferðabann til eða frá Íslandi en ferðamenn eru hvattir til að sleppa ónauðsynlegum ferðalögum til áhættusvæða COVID-19 og huga vel að sýkingavörnum á ferðalögum almennt.
 • Ekki er talin ástæða til að skima farþega við komu eða brottför á flugvöllum hér á landi, en upplýsingum um COVID-19 og hvernig eigi að nálgast heilbrigðiskerfið vegna veikinda er dreift til ferðalanga með ýmsum leiðum.
 • Íbúar landsins sem snúa heim frá áhættusvæðum og aðrir sem gefa sig fram sem nýkomna frá áhættusvæðum eru beðnir um að viðhafa sóttkví í 14 daga eftir að farið var frá áhættusvæði.
 • Einstaklingar sem greinast með COVID-19 fara í einangrun og tengdir aðilar þurfa að fara í sóttkví ef þeir hafa umgengist viðkomandi sjúkling síðustu 24–48 tímana áður en einkenni komu fram. Fyrirmæli um hverjir þurfa að fara í sóttkví koma frá yfirvöldum í hverju tilfelli fyrir sig.
 • Einstaklingar sem þurfa að fara í sóttkví eða einangrun en eiga ekki hér samastað eða ekki er fýsilegt að séu heima við í sóttkví eða einangrun geta fengið inni í sóttvarnahúsi á vegum yfirvalda í samráði við heilbrigðisyfirvöld á hverjum stað.

Er til bóluefni eða lyf gegn nýju kórónaveirunni?
Það er ekkert bóluefni til gegn þessari veiru og ekki er vitað um nein veirulyf sem hafa veruleg áhrif á sjúkdómsgang við COVID-19. Ýmis lyf hafa verið rannsökuð í Kína á undanförnum vikum og er niðurstaða beðið með eftirvæntingu um allan heim. Bóluefni eru einnig á grunnrannsóknarstigi en mun taka töluverðan tíma að fá þau í notkun. Bóluefni sem ekki byggja á bóluefnum sem þegar eru í notkun eru yfirleitt áratugi í rannsóknum áður en þau eru tekin í almenna notkun.

 

Hvaða meðferð er í boði?
Engin lyf eða önnur sértæk meðferð er þekkt við sjúkdómnum en rannsóknir á ýmsum veirulyfjum eru í gangi í Kína og er niðurstaða beðið með eftirvæntingu. Sýklalyf virka ekki því þau virka á bakteríur en kórónaveiran er veira. Meðferð beinist því enn sem komið er að því að sinna grunnþörfum og einkennum eftir ástandi sjúklings.

 

Hver eru einkennin?
Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta o.s.frv. Meltingareinkenni (kviðverkir, ógleði/uppköst, niðurgangur) eru ekki mjög áberandi með COVID-19 en eru þó þekkt, líkt og við inflúensu og MERS. COVID-19 getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.–8. degi veikinda. Veikindi geta verið langdregin, jafnvel langdregnari en við inflúensu, og virðist vera hætta á öðrum sýkingum í kjölfarið, s.s. bakteríulungnabólgu, svipað og við inflúensu.

 

Hverjir eru í mestri hættu á að smitast af COVID-19?
Nánir aðstandendur einstaklinga sem hafa veikst af COVID-19 eru í mestri hættu á að smitast sjálfir. Einstaklingar sem í starfi sínu eða félagslífi umgangast náið mikinn fjölda einstaklinga eru einnig í meiri smithættu en þeir sem umgangast fáa aðra. Handhreinsun og almennt hreinlæti eru mikilvægasta vörn gegn smiti.
Ákveðnir skilgreindir hópar sem bregðast þurfa við veikindum annarra, s.s. lögregla, bráðaliðar/sjúkraflutningamenn og heilbrigðisstarfsmenn eiga að hafa aðgang að hlífðarbúnaði við sín störf sem dregur verulega úr smithættu við þær aðstæður.

 

Hverjir eru í mestri hættu á að fá alvarleg einkenni?
Líkur á alvarlegum sjúkdómi hækka með hækkandi aldri, sérstaklega eftir 50 ára aldur. Einstaklingar með ákveðin undirliggjandi vandamál eru einnig í aukinni hættu á alvarlegri sýkingu ef þeir smitast af COVID-19 sjúkdómi. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mikið aukin hættan er ef þessi vandamál eru til staðar, en þegar borin eru saman væg og alvarleg tilfelli er greinilegt að ákveðin vandamál voru til staðar hjá mun fleirum með alvarlegan sjúkdóm en vægan sjúkdóm. Þessi vandamál eru: hár blóðþrýstingur/hjartasjúkdómar, sykursýki, langvinn lungnateppa, langvinn nýrnabilun og krabbamein.

Einstaklingar sem reykja virðast vera í aukinni hættu á alvarlegum sjúkdómi en ekki er hægt að útiloka að þar sé í raun langvinn lungnateppa undirliggjandi vandamál sem eykur alvarleika sjúkdómsins.

Á þessari stundu er óvíst hvort ónæmisbælandi meðferð (s.s. sterar, methotrexate eða líftæknilyf) eykur líkur á alvarlegri kórónaveirusýkingu.

 

Eru börn og unglingar í hættu?
Allir geta sýkst af kórónaveiru en mjög lítið virðist vera um alvarlegar sýkingar meðal barna. Upplýsingar um sjúkdómsgang hjá börnum eru takmarkaðar enn sem komið er. Ef engin tilfelli hafa greinst í skólanum er ekki er ástæða að halda hraustum börnum heima úr skóla. Börn með alvarlega langvinna sjúkdóma ættu mögulega að forðast margmenni, þ.m.t. í skólum nú þegar talin er hætta á að smit verði útbreitt hér á landi á næstu vikum. Rétt er að ítreka hreinlæti og sérstaklega tíðan handþvott við öll börn bæði í skólanum og annars staðar (sjá einnig „Hvað get ég gert til að forðast smit“).

 

Eru barnshafandi konur í sérstakri áhættu?
Engar upplýsingar hafa komið fram um sérstaka hættu fyrir barnshafandi konur eða hættu á fylgikvillum meðgöngu vegna COVID-19. Engar vísbendingar eru heldur um að fóstur geti smitast á meðgöngu. Engar sérstakar ráðleggingar eru því í gildi fyrir barnshafandi konur (sjá „Hvað get ég gert til að forðast smit“). Ef nýjar upplýsingar berast verður þeim bætt við hér.

 

Er hægt að greina nýja kórónaveirusýkingu á Íslandi?
Já. Próf til að greina nýja kórónaveiru er gert á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Læknir metur hvort taka skuli sýni og framkvæmir sýnatöku. Ekki er mælt með að taka sýni hjá einkennalausum til að leita að COVID-19 en niðurstaða prófsins er yfirleitt neikvæð þar til einkenni koma fram.

 

Hvað er vitað um smit manna á milli?
COVID-19 smitast á milli einstaklinga. Smitleið er snerti- og dropasmit, svipað og inflúensa. Það þýðir að veiran getur dreifst þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða snýtir sér og annar einstaklingur andar að sér dropum/úða frá þeim veika eða hendur mengast af dropum og viðkomandi ber þær svo upp að andliti sínu. Fólk virðist ekki vera smitandi á meðgöngutíma áður en einkenni koma fram en sumir fá lítil sem engin einkenni og geta þó verið smitandi.

 

Hver er hættan á frekari útbreiðslu?
Sýkingin hefur borist með mörgum einstaklingum frá nokkrum mismunandi stöðum til Íslands og hafa smitaðir einstaklingar ekki allir verið í sóttkví eða einangrun frá komunni til landsins. Vitað er um smit hér á landi frá áður þekktum tilfellum og líkur á útbreiddu samfélagssmiti hér á landi fara því vaxandi.

 

Af hverju er Íslendingum ráðlagt að fara í sóttkví eftir að hafa verið á áhættusvæði , en ferðamönnum sem hingað koma frá áhættusvæðum ekki?

 • Þeir sem eru búsettir á Íslandi og eru þátttakendur í íslensku samfélagi er hættara við að smita út frá sér hér á landi ef þeir veikjast heldur en ferðamenn. Þetta gildir bæði um íslenska ríkisborgara og erlenda sem eru búsettir hér.
 • Ef erlendir ríkisborgarar sem eru hér á ferðalagi gefa sig fram vegna veikinda eða tengsla við veika einstaklinga með COVID-19 verða þeir einnig settir í einangrun eða sóttkví.

 

Af hverju er ekki skimun fyrir kórónaveirunni á flugvellinum hér?
Ekki er ráðlagt að leita að veirunni hjá einkennalausum ferðalöngum þar sem hún finnst yfirleitt ekki fyrr en einkenni koma fram. Hitamælingar og spurningalistar til farþega frá sýktum svæðum hafa verið notaðir í fyrri faröldrum með litlum sem engum árangri. Sóttkví þeirra sem hafa verið á áhættusvæðum og leit að veirunni ef einkenni koma fram er mun vænlegri til árangurs. Veikir einstaklingar og einstaklingar sem hafa umgengist veika einstaklinga eru einnig hvattir til að gefa sig fram til að þeir geti fengið læknishjálp og ráð um hvernig þeir geta takmarkað smithættu til annarra. Ef samfélagssmit verður útbreitt hér en ekki á áfangastöðum sem flogið er til héðan er hugsanlegt að grípa þurfi til skimunar við brottför til að draga úr hættu á að smit dreifist héðan.

 

Hvað get ég gert til að forðast smit?
Góð handhreinsun er mikilvægasta ráðið til að forðast smit. Handþvottur með vatni og sápu er æskilegastur ef hendur eru óhreinar, en hendur sem virðast hreinar en hafa komið við sameiginlega snertifleti s.s. hurðahúna.

Handspritt má nota ef hendur eru ekki sýnilega óhreinar eða eftir meðhöndlun peninga eða greiðslukorta.

-Rétt er að forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni, hnerra eða hósta, eins og raunhæft er.

Grímur nýtast best þegar veikir nota þær en einnig þegar náið samneyti er óhjákvæmilegt, s.s. fyrir heilbrigðisstarfsmenn eða aðra viðbragðsaðila þegar þeir hlúa að veikum.

-Við þrif eftir aðra, s.s. í veitingasölum eða á almenningssalernum ætti að nota einnota hanska en mikilvægt er að taka af sér hanska þegar slíkum verkum er lokið og þvo vel hendur. Sjá nánar hér.

 

Get ég smitast af COVID-19 við að opna vörusendingar frá áhættusvæði?
Nei.

 

Er hætta á því að matvæli geti borið smit?
Ekkert bendir til þess að kórónuveiran berist með matvælum skv. áliti matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) . COVID-19 er ekki matarborinn sjúkdómur. Þeir sem eru í einangrun ættu þó ekki að útbúa mat fyrir aðra.

 

Getur veiran borist með ferskum ávöxtum og grænmeti?
Veiran þrífst ekki í ávöxtum og grænmeti, né öðrum matvælum. Hins vegar gæti hún setið á yfirborði eftir úðasmit (hnerra eða hósta frá sýktum einstaklingi) en ekki er vitað hversu lengi. Mjög ólíklegt er þó að hún nái að berast milli landa með ávöxtum og grænmeti. Matvælastofnun hvetur neytendur, nú sem áður, til að skola vel ávexti og grænmeti fyrir neyslu.

 

Getur veiran borist með umbúðum matvæla?
Það er mjög ólíklegt að menn smitist af COVID-19 við snertingu matvælaumbúða. Handþvottur eftir verslunarferð er góð venja. Fylgið leiðbeiningum um handþvott og smitvarnir.

 

Hvað þýðir að vera útsettur fyrir COVID-19 smiti?
-Einstaklingur sem hefur umgengist veikan einstakling með COVID-19 hefur verið útsettur. Með því er átt við að hafa verið innan við 1–2 metra frá veikum einstaklingi meðan hann var með hósta eða hnerra, eða hafa snert hann, sofið í sama rúmi, dvalið í sama húsnæði eða verið í sama farartæki.

-Heilbrigðisstarfsmenn sem sinna sjúklingum með COVID-19 hafa líka mögulega verið útsettir, en notkun hlífðarbúnaðar við slík störf minnkar verulega smithættu.

-Einkenni COVID-19 koma fram innan 14 daga frá smiti, svo aðeins þeir sem hafa verið útsettir innan 14 daga eru álitnir í hættu á að veikjast. Ferðamenn geta verið útsettir fyrir veirunni án þess að vita af því og þess vegna er mælt með sóttkví þeirra sem hafa verið á há-áhættusvæðum.

 

Er munur á sóttkví og einangrun?
Sóttkví er notuð þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af sjúkdómi en er ekki ennþá veikur (er einkennalaus). Einangrun á við sjúklinga með einkenni og staðfestan sjúkdóm. Hvort sem um sóttkví eða einangrun er að ræða þarf að takmarka umgengni við annað fólk, sjá nánar í leiðbeiningum til einstaklinga í sóttkví eða einangrun . Heimild sóttvarnalæknis til að grípa til slíkra ráðstafana er lögð fram í 12. grein sóttvarnalaga .

 

Ég var á ferðalagi erlendis, get ég hafa verið útsett(ur) fyrir COVID-19?
-Einstaklingar sem hafa dvalið á há-áhættusvæði undanfarna 14 daga eru taldir hafa verið útsettir og ættu að vera í sóttkví. Þeim er ráðlagt að skrá sig hjá sinni heilsugæslustöð eða hafa samband við Læknavaktina í síma 1700 til að fá frekari ráðleggingar. Mikilvægt er að taka fram hvaða áhættusvæði ferðast var um. Með dvöl á áhættusvæði er átt við að hafa gist á áhættusvæði.

-Flug gegnum flugvöll á áhættusvæði kallar yfirleitt ekki á sóttkví. Ef tilfelli koma upp í flugvél geta þeir sem næstir sátu þeim veika eða jafnvel öll vélin eftir atvikum þurft að fara í sóttkví, slíkt er metið í hverju tilviki fyrir sig enn sem komið er.

-Athugið að skilgreining áhættusvæðis getur breyst hratt eftir því sem nýjar upplýsingar koma í ljós, en tengillinn hér að ofan á alltaf að vísa á nýjustu upplýsingar sem sóttvarnalæknir býr yfir.

 

Ég á bókaða ferð til útlanda, á ég að hætta við að fara?
Sóttvarnalæknir ræður gegn öllum ónauðsynlegum ferðum á há-áhættusvæði . Ekki er hægt að spá fyrir um þróun mála á öðrum svæðum og verða einstaklingar sjálfir að taka ákvörðun eftir því sem þeirra eigið heilsufar eða aðrir þættir gefa tilefni til.

-Einstaklingar með áhættuþætti fyrir alvarlegum öndunarfærasýkingum (sjá “Hverjir eru í mestri hættu á að fá alvarleg einkenni?”) ættu að hafa samráð við sinn lækni hvað þeirra ferðir varðar. Bent á frétt Neytendastofu um afbókun pakkaferða 27.2.2020.

Tilmæli um að ákveðnar stéttir fresti utanlandsferðum hafa verið gefin út, en enn sem komið er eru engin ferðabönn í gildi, hvorki varðandi ákveðnar stéttir né ákveðna áfangastaði.

 

Á að hætta við ráðstefnur og aðrar fjölmennar samkomur, loka söfnum o.s.frv.?
-Ekki hefur verið sett á samkomubann. Ef smit verður útbreitt í íslensku samfélagi getur verið að gripið verði til slíkra ráðstafana.

-Skipuleggjendur og þátttakendur slíkra viðburða eru hvattir til að íhuga aðgerðir til að draga úr hættu á dreifingu smits við slíkar aðstæður, s.s. með góðu aðgengi að hreinlætisaðstöðu og/eða handspritti, beiðnum til þátttakenda sem ferðast hafa um áhættusvæði um að mæta ekki á slíka viðburði og reglulegri sótthreinsun yfirborða sem margir snerta.

-Í vissum tilvikum getur verið viðeigandi að fresta eða breyta umgengnisreglum á slíkum samkomum þótt ekki sé í gildi samkomubann, s.s. ef ætlast er til að gestir snerti sýningargripi sem erfitt er að sótthreinsa eða ef þátttakendur sýninga eða leiðbeinendur á námskeiði koma frá áhættusvæðum.

 

Ég tel mig vera í áhættuhópi fyrir alvarlega COVID-19 sýkingu, hvað á ég að gera?
Mjög mikilvægt er að gæta hreinlætis í umgengni við aðra einstaklinga og fresta ferðum á áhættusvæði, óháð áhættuþáttum fyrir alvarlegum veikindum. Mögulega þurfa einstaklingar í áhættuhópum að fara að undirbúa það að draga verulega úr umgengni við aðra, sjá leiðbeiningar til áhættuhópa. Einstaklingar geta leitað nánari leiðbeininga til sinna lækna ef þeir hafa hug á að ganga lengra en opinberar ráðleggingar segja til um á þessu stigi.

 

Ég hef verið útsett(ur) fyrir COVID-19 smiti, hvað á ég að gera?
Hættan á samfélagssmiti á Íslandi er að aukast, en tilfelli hafa komið upp meðal tengiliða þekktra tilfella sem ekki höfðu sjálfir ferðast. Ef þú hefur verið á ferðalagi undanfarna 14 daga á svæðum þar sem sjúkdómurinn hefur komið upp eða á einhvern hátt komist í snertingu við einstakling með sjúkdóminn, en hefur engin einkenni sjúkdómsins nú, er þér bent á að hafa samband við vaktsíma Læknavaktarinnar í 1700 eða þína heilsugæslustöð til að fá nánari leiðbeiningar. Sóttvarnalæknir mælist til að þú haldir þig heima í 14 daga eftir að þú fórst frá há-áhættusvæðum , Sjá leiðbeiningar um sóttkví .

 

Ég hef verið útsett(ur) fyrir COVID-19 smiti og er að veikjast, hvað á ég að gera?
Ef þú hefur verið á ferðalagi undanfarna 14 daga á svæðum þar sem sjúkdómurinn hefur komið upp eða á einhvern hátt komist í snertingu við einstakling með sjúkdóminn, og þú hefur einkenni sem gætu tengst COVID-19 er þér bent á að hafa samband við heilsugæsluna þína eða Læknavaktina í síma 1700 til að fá nánari leiðbeiningar. Ef um neyðartilvik er að ræða, hringið í 112.

Munið að nefna ferðasögu m.t.t. COVID-19 í samskiptum við heilbrigðisþjónustuna og 112. Ekki fara á sjúklingamóttöku, heilsugæslu, Læknavakt eða sjúkrahús án þess að hafa látið vita af þér fyrirfram. Meðan þú bíður niðurstöðu læknisskoðunar og/eða rannsókna getur verið gagnlegt að fara eftir leiðbeiningum fyrir einstaklinga í einangrun . Ef samskipti við aðra eru óhjákvæmileg er rétt að vera með grímu fyrir andlitinu eða að lágmarki nota bréf fyrir munn og nef við hósta og hnerra.

 

Mega einstaklingar sem eru í sóttkví en ekki á sama heimili halda áfram umgengni hver við annan?
Nei. Það lengir sóttkví þegar þeir veikjast svo einn af öðrum, einnig er mögulega hætta á smitmögnun sem er þekkt fyrirbæri við aðrar veirusýkingar svo sem hlaupabólu, þ.e. að þeir sem eru útsettir endurtekið eða yfir langan tíma fái alvarlegri einkenni.

 

Geta húsdýr eða gæludýr smitast af nýju COVID-19 veirunni, og geta þau orðið veik?
Talið er að veiran sé upprunin í dýrum, líklega leðurblökum en er nú aðlöguð að mönnum og fyrst og fremst lýðheilsuvandamál meðal manna. Engum sjúkdómi eða útskilnaði á þessari veiru hefur verið lýst hjá húsdýrum eða gæludýrum. Matvælastofnun fylgist með þekkingarþróun á þessu sviði og verða upplýsingar hér uppfærðar eins og við á.

 

Geta einstaklingar sem eru smitaðir af COVID-19 veirunni verið í kringum gæludýrin sín?
Það er engin ástæða fyrir fólk að vera ekki með gæludýrunum sínum og þau geta veitt mikilvægan andlegan stuðning við erfiðar aðstæður. Að þvo hendur eftir snertingu við dýr er góð venja og almennt ætti að forðast að hundar sleiki fólk í andlitið. Það er í lagi að fara út með hundinn að því gefnu að leiðbeiningum varðandi sóttkví í heimahúsi og einangrun í heimahúsi sé fylgt. Ekki er staðfest að gæludýr geti smitast af fólki.

 

Get ég gætt dýra einhvers sem er smitaður af COVID-19 veirunni eða er í sóttkví í heimahúsi?
Já, þú getur gætt gæludýra einstaklinga sem eru í sóttkví eða eru veikir af COVID-19 veirunni, en gæta samt fyllsta hreinlætis. Forðast skal að láta gæludýr sleikja andlit eða hendur og ávallt skal þvo hendur eftir snertingu við dýrin.

 

Ætti fólk sem hefur verið á áhættusvæðum að takmarka snertingu við dýr þegar það snýr aftur heim?
Mælst er til þess að þú haldir þig heima í 14 daga eftir að þú fórst frá helstu áhættusvæðum. Fyrir einstaklinga sem eru með matvælaframleiðandi dýr á heimili eða í nálægð við heimili, er mælt með því að takmarka snertingu við slík dýr meðan á sóttkví eða einangrun stendur. Matvælastofnun minnir líka á að einstaklingur sem hefur verið í snertingu við húsdýr erlendis umgangist ekki matvælaframleiðandi dýr á Íslandi fyrstu 48 klukkustundirnar.

Fleiri spurningar og svör varðandi umgengni við dýr er að finna á vef Matvælastofnunar.

Efni birt frá Embætti landlæknis, uppfært uppfært 09.03.2020

Bent er ÍAK einkaþjálfari og auk þess með sterkan bakgrunn í vef- og markaðsmálum og vann m.a. um árabil við markaðs- og auglýsingamál hjá World Class. Bent var vefstjóri Kópavogsbæjar um árabil og hefur einnig unnið við margvísleg verkefni hjá mbl.is. Bent er ljósmyndari og hafa myndir eftir hann verið birtar í blöðum víðsvegar um heim. Hann er auk þess bæði tónlistarmaður og tónlistarkennari og brautryðjandi í fjarkennslu á gítar. Bent er einnig menntaður í garðyrkjufræðum frá Garðyrkjuskóla ríkisins.

Segðu þína skoðun...