fbpx

Unaðarbilið og áhrif þess á sambönd.

Höfundur:   0 athugasemdir

Með hugtakinu Unaðarbil (e. Orgasm Gap, líka talað um Pleasure Gap) vísa ég til þess, að í kynlífssamböndum gagnkynhneigra fá karlmenn oftar fullnægingu en konur.

Kynlíf er tækifæri fyrir pör að tjá ást sína á hvort öðru, tengjast, dýpka nánd og traust, auk þess sem það að stunda kynlíf hefur góð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu okkar.

Almennt upplifa karlmenn oftar fullnægingu í kynlífi en konur. Hugtakið áðurnefnda vísar til þessa bils, en ein rannsókn sýnir að í samböndum fólks af gagnstæðu kyni er bilið allt að 52%. Bilið eykst í tilfellum þar sem um kynlíf utan sambands er að ræða, en er minna í samböndum samkynhneigra. Rannsókn frá árinu 2014 greindi frá eftirfarandi mun á tíðni fullnæginga milli kynjannna:

Konur: 62.9% (gagnkynhneigðar: 61.6%, samkynhneigðar mælast með hæsta hlutfall: 74.7%, tvíkynhneigðar lægst: 58.0%).

Karlmenn: 85.1% (ekki mældist marktækur munur milli karlmanna eftir kynhneigð).

Konur eiga erfiðara með að fá fullnægingu í algengustu birtingarmynd gagnkynhneigðs kynlífs

Unaðarbilið er sýnir fram á ákveðinn samfélagsvanda í menningu okkar. Í bókinni Becoming Cliterate eftir kynlífsráðgjafann og TED fyrirlesarann dr. Laurie Mintz, er talað um ástæðan sé að of mikil áhersla er lögð á kynlíf þar sem maðurinn fer inn í konuna (e. penile-vaginal intercourse (PVI)). Í þannig kynlífi á maðurinn auðvelt með að fá fullnægingu en konan ekki, rannsóknir sýna að einungis 4% kvenna fá fullnægingu ef snípurinn er ekki örvaður.

Aðrar ástæður eru einnig fyrir bilinu og geta valdið vandamálum í sambandinu ef parið er ekki meðvitað um þetta. Menningarlega séð er dómur lagður á konur fyrir að njóta kynlífs, meira að segja innan hjónabands. Kynlífsfræðsla í skólum leggur enga áherslu á kenna um unað heldur einungis þurra líffærafræði. Við erum heldur ekki nógu dugleg að tjá þarfir okkar í kynlífi, en tjáskipti gegna lykilhlutverki í öllum samskiptum, ekki síst í kynlífi.

Að gera sér upp fullnægingu er sambandsmein.

Konur eiga erfiðara með að fá fullnægingu af ýmsum ástæðum, og sumar bæta gráu ofan á svart með því að gera sér upp fullnægingu (bæði kyn eru sek um þetta, en konur oftar). Fullnæging konunnar fer að sitja á hakanum og erfiðara verður að ná þessum áfanga, sem veldur því að parið á erfiðara með að tengjast. Þetta er varhugaverð þróun í sambandi, veldur rofi í samskiptum, gerir makanum erfiðara fyrir að læra hvað virkar og gefur þau skilaboð að unaður konunnar sé ekki eins mikilvægur. Úr verður óheillavænn vítahringur.

Gott ráð er að hafa það að reglu að konan fái fullnægingu í kynlífi til jafnts við maka sinn. Þannig regla hjálpar til við að viðhalda heilbrigðu samskiptamunstri í kynlífssambandi. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:

  • Við þurfum að vera opinská með hvað við viljum og þurfum. Samskipti eru mikilvæg, ekki síst þegar kemur að kynlífi. Við verðum að þora að segja hug okkar, makinn getur ekki lesið hugsanir og við erum eins mismunandi og við erum mörg.
  • Í heilbrigðu kynlífssambandi er vilji til að læra hvað veitir unað.
  • Kynlífið byrjar ekki 5 mínútum fyrir næstu umferð, heldur þegar síðustu umferð lýkur. Forleikur er afar, afar mikilvægur fyrir konur.
Berglind Rúnarsdóttir

Ég heiti Berglind Rúnarsdóttir og er jógakennari með BS gráðu í matvælafræði, kafari, fríkafari, ferðalangur, móðir, stjúpmóðir og kærasta. Ég hef ástundað jóga, hugleiðslu og öndunaræfingar í yfir 20 ár og snúast áhugamálin yfirleitt um að hámarka heilsu og vellíðan, dansa og að busla í vatni við hvert tækifæri. Árið 2006 varði ég þremur mánuðum við köfun við strendur Thailands til að ná PADI köfunarmeistararéttindum (e. Dive Master). Það var þá sem ég gerði mér grein fyrir mikilvægi meðvitaðrar öndunar og að viðhalda ró í krefjandi aðstæðum.

Ég hef tekið þátt í IFBB módel fitness þar sem ég vann í mínum flokki, æft Roller Derby með íslenska landsliðinu um árabil, gegnt hlutverki lukkudýrs og ferðast víðsvegar um heiminn eins míns líðs, bæði innan og utan Evrópu. Þetta hef ég gert til að fá þær upplifanir sem ég vildi, til að skora á sjálfa mig og til að þjálfa með mér hæfni til að dvelja utan þægindarammans.

Ég leitast sífellt við að bæta við mig þekkingu í næringarfræði, öndunartækni (Wim Hof, Buteyko, Soma og DMT öndunaræfingum) og hverskyns lífsleikni. Ég brenn fyrir að hjálpa fólki að ná árangri í sínu lífi og sigrast á sínum vandamálum.

Vefsíðan mín brglndyoga.is er komin í loftið og er hægt að óska eftir ráðgjöf á brglndyoga@gmail.com

Segðu þína skoðun...