Samband með sjálfhverfum (e. Narcissism)

Höfundur:   0 athugasemdir

Fyrir nokkrum árum kynntist ég og byrjaði samband við mann sem hefur líklega haft sjálfsupphafningar persónuleikaröskun (e. Narcissist/Narcissism). Hann kenndi mér gríðarlega mikið um hvað ég vil ekki hafa í lífinu minu.

Í byrjun gekk allt í lyndi, reyndar of vel eftir á að hyggja. Hann speglaði mína hegðun þannig að ég héldi að hann væri dásamlegur, faldi fyrir mér hvaða mann hann hafði raunverulega að geyma og gerði svolítið sem kallað er að: ,,ástarbomba” (e. Love Bombing). Hér eru listi nokkur atriði sem einkenndu hegðun hans gagnvart mér í byrjun:

 • Sýndi yfirdrifið ást og umhyggju
 • Sagði mér oft að honum þætti ég falleg.
 • Sagðist elska mig fremur snemma eftir að við kynntumst.
 • Spurði mig mjög oft hvernig ég hefði það yfir daginn.
 • Sýndi lífi mínu áhuga.
 • Sýndi áhugamálum mínum áhuga.
 • Talaði mikið um hvað hann vildi hjálpa mér með mínar ábyrgðir.
 • Talaði mikið um hvað hann gæti lagað í íbúðinni minni.
 • Talaði mikið um það hversu mikla fjárhagslega aðstoð hann mundi veita.
 • Gaf dýrar gjafir.

Eftirfarandi einkenndi svo hegðunarmynstrið hans sem hann sýndi fremur fljótlega eftir að hann taldi ár sinni komið um borð í sambandi okkar:

 • Gasljóstraði mig (e. Gaslighting)
 • Oftast ósáttur, óánægður, í vondu skapi, hafði allt á hornum sér
 • Yfirleitt óánægður með framlag mitt
 • Skammaðist í mér, ég var ekki að sinna honum nógu vel eða gera nóg fyrir hann
 • Hótaði að hætta með mér ef ég breyttist ekki
 • Sendi mér ítrekuð stuðandi skilaboð
 • Hætti með mér þegar ég sýndi mörk og hætti svo hratt við að hætta með mér
 • Tók ekki ábyrgð á eigin hegðun

Gasljóstrun er það kallað þegar einhver kemur illa fram, stuðar, veldur uppnámi eða pirringi, hvort sem er af ásetningi eða ekki, og neitar svo öllu og reynir að telja viðkomandi um að það sem hann er að upplifa, heyra, sjá og finna, sé rangt. Neitar öllu og segir að hinn sé að muna þetta vitlaust eða gerir lítið úr atvikinu. Sá sem gasljóstruninni verður fyrir fer að efast um eigin upplifun, skilning og mat á aðstæðum, skynjun og geðheilsu. Gasljóstrun getur átt sér stað í samskiptum á hverskonar vettvangi: á vinnustað, milli para, milli foreldra og barns o.s.frv.

Þessa hegðun vildi ég ekki sætta mig við, enda ber ég kærleik til mín. Fyrst vildi ég koma honum í sálfræðimeðferð og sjá til þess að hann fengi hjálp, en sá fljótt að það var meðvirkni í mér og að hann hafði engan áhuga á að vinna í sér. Ég fór að lesa mig til um samskiptavandamál á veraldarvafranum og áttaði mig á því að líklega þjáðist hann af þessari persónuleikaröskun. Í framhaldi af því fann ég ráðleggingar um hvernig koma skal sér úr þannig sambandi.

Það sem ég lærði var:

 • Setja mörk og standa við þau
 • Halda ró minni, ekki svara stuðandi skilaboðum
 • Samþykkja sambandsslitin (sem var öruggt að hann mundi krefjast því hann gat ekki þolað að vera sett mörk)
 • Segja þá að ég teldi að ég væri ekki rétta konan fyrir hann
 • Loka svo alveg fyrir og ekki senda fleiri skilaboð
 • Halda mig frá þar til hann skildi að hann fengi ekki meiri athygli frá mér eftirleiðis

Tækifærið kom fljótt. Ég var á þessum tíma byrjuð að undirbúa þátttöku fyrir módel fitness. Ég fór á fullt að sinna því krefjandi verkefni, líka þegar ég gat verið að sinna honum í stað þess að vinna í kringum dagskrána hans eins og ég gerði áður.

Mörkin sem ég sýndi honum ærðu hann.

Til að sýna vanþóknun sína sendi hann mér sífellt fleiri og ljótari skilaboð. Ég svaraði ekki fyrr en hótunin um sambandsslit komu, þeim svaraði ég alveg samkvæmt leiðbeiningum og bætti við að hann hefði tvær vikur til að flytja úr íbúðinni minni, ég mundi vera annarsstaðar meðan hann flytti út. Lokaði svo á hann á öllum samskiptamiðlum og fór heim til foreldra minna að bíða af mér storminn.

Hafi hann maraþon-sent mér skilaboð fyrir, þá var það ekkert miðað við holskefluna sem kom eftir að ég samþykkti sambandsslitin. Eftirfarandi runa af skilaboðum komu næstu klukkustundir, daga og viku, þar sem hann sagði:

 • Að honum þætti þetta leitt
 • Að honum hefði ekki verið alvara
 • Að hann væri tilbúinn til að fara í sálfræðimeðferð
 • Að hann elskaði mig
 • Að hann gæti ekki lifað án mín
 • Að hann mundi láta mig fá öll launin sín
 • Að hann væri (líkamlega) veikur og þyrfti að fara á spítala
 • Að hann ætlaði að flytja úr landi
 • Að hann hygðist fremja sjálfsmorð ef ég talaði ekki við hann
 • Að ég væri óskaplega vond við hann.
 • Að ég ætti að koma að kúra með honum

Ég þurfti ekki staðfestingu á því að ég væri að gera rétt í því að koma þessum manni úr lífinu mínu, en hefði ég þurft hana þá væri þessi runa skilaboða sú staðfesting. Skilaboðin stönguðust á við hvort annað og sýndu svo ljóslega að ekkert mark var takandi á orðum hans. Hann sagði hvað sem honum datt í hug, í von um að eitthvað af því yrði til þess til þess að ég tæki við honum aftur.

Á milli skilaboða mætti hann óboðinn í vinnuna mína, klæddur fínustu fötunum sínum, og elti mig alla leið að kaffistofu starfsfólksins þar sem ég gat lokað að mér. Ég svaraði honum aldrei við þessar aðstæður, það er mjög mikilvægt að svara ekki, ekki einu sinni til að segjast ekki ætla að tala við viðkomandi. Sama hversu neikvætt og afgerandi svarið væri, hefði virkað sem haldreipi fyrir hann að ríghalda í og gera ferlið erfiðara og lengra fyrir mig.

Þegar hann var búinn að reyna nógu lengi til að sjá að hann fengi ekki viðbrögð frá mér gegnum einn miðil prófaði hann næsta, og svo koll af kolli. Þegar ekkert af því gaf af sér fór hann að senda móður minni skilaboð og gráta utan í henni, en fram til þessa hafði hann ekki sýnt neina burði til að mynda tengsl við hana eða nokkurn annan í mínu lífi. Einstaklingar með þessa persónuleikaröskun reyna þó gjarnan að koma upp á milli maka síns og fjölskyldu þeirra og vina, eða að öðru leyti minnka tengsl og samskipti. Þetta gera þeir til að einangra viðkomandi til að hafa hann út af fyrir sig.

Hann hótaði móður minni einnig sjálfsmorði, sem henni brá eðlilega að heyra. Sjálfhverfir einstaklingar virðast hafa einstakt lag á að snúa á fólk. Þeir leika hlutverk hins fullkomna maka, eða greys sem þarfnast vorkunnar. Þeir prófa allt sem þeim dettur í hug til að fá það sem þeir sækjast eftir, einlægni og hreinskilni er ekki ofarlega á lista hjá þeim. Það er mikilvægt að láta ekki meðvirkni ná tökum á sér við svona aðstæður.

Skilaboðin voru mest fyrst og fækkaði með tímanum. Eftir u.þ.b. viku eða svo gafst hann upp.

Sjálfsmorðshótanir hans höfðu engin áhrif á mig. Innantómar hótanir eru þekkt aðferð sjálfhverfa einstaklinga (og var ítrekað upplifun mín í samskiptum við þennan mann) til að fá aðra til að gera eins og þeim þóknast. Fólk sem fremur sjálfsmorð tilkynnir það ekki á undan. Ef hann hinsvegar hefði gert alvöru úr hótun sinni hefði það ekki verið á minni ábyrgð, heldur hans, algerlega.

Ég lærði gífurlega mikið af þessari lífsreynslu og fékk það staðfest að ég stend með sjálfri mér sama hvað. Ég hef engan áhuga á að vera með einhverjum sem kemur fram við mig öðruvísi en með kærleik og þakklæti til mín og sem er til í þessa samvinnu sem samband er. Ég er þakklát fyrir baklandið mitt sem ég gat leitað til, fyrri reynslu sem mótaði mig og hjálpuðu mér að greina og koma mér úr aðstæðunum.

Ég er einnig afar þakklát þessari hjálp sem ég fann frá ókunnugum á veraldarvafranum á þessum tíma. Þessi hjálp er ástæða þess að ég vil skrifa um þessa reynslu mína. Ég vil gera það sem í mínu valdi stendur til að vera til staðar fyrir fólk í sömu aðstöðu, eins og aðrir voru til staðar fyrir mig þegar ég þurfti á því að halda.

Ef þú telur að þú sért að upplifa óheilbrigð samskipti á borð við þau sem koma hér fram og vilt ráðleggingar er þér velkomið að senda á mig línu.

Auk þess er hér að neðan listi yfir samtök og stofnanir sem bjóða upp á fría ráðgjöf og hópastörf:

 • Hugarafl – Andlegar áskoranir, ráðgjöf, hópastarf, 4141550, hugarafl.is, dagskrá af fundum/námskeiðum á heimasíðu.
 • Kvennaathvarfið – konur sem búa eða hafa búið við ofbeldi, 5611205, opið allan sólarhringinn.
 • Geðhjálp – geðraskanir og geðfatlanir, 5701700, gedhjalp.is.
 • Pieta samtökin – sjálfsvígshugsanir/tilraunir/missir ástvina/aðstandendur 5522218, pieta.is.
 • Bjarkarhlíða – þolendur ofbeldis, líkamlegt/andlegt/fjárhagslegt/stafrænt, 5533000, bjarkarhlid.is.
 • Drekaslóð – þolendur ofbeldis, 5515511/8603358, drekaslod.is.
 • Stígamót – þolendur kynferðisofbeldis/aðstandendur, ráðgjöf og hópastarf 5626868/8006868.
 • Hjálparsími og netspjall Rauðakrossins, andleg hjálp, 1717, opin 24/7.
 • Sporakerfi: AA (áfengisvandi, aa.is), Al anon (aðstandendur alkóhólista, al-anon.is) SLAA (ástar-& kynlífsfíkn, slaa.is) neyðarsími: 6988702, NA (fíknivandi, na.is) 6612915, CODA (vinna að heilbrigðum samböndum, hópastarf) coda.is.
 • Grunn-, framhalds-, og háskólar bjóða margir hverjir upp á aðstoð náms- og félagsráðgjafa og jafnvel sálfræðinga.

Ég heiti Berglind og er einkaþjálfari og jógakennari með BS gráðu í matvæla- og næringarfræði frá Háskóla Íslands. Ég hef kennt fólki að elska sig frá því ég tók minn fyrsta sporahring árið 2006. Ég kenni tækjaþjálfun, jógastöður, öndunartækni og hugleiðslu í World Class og býð einnig upp á 1:1 þjálfun í lífsleikni.

Frekari upplýsingar og tímabókarnir:
brglndyoga.is | brglndyoga@gmail.com

Segðu þína skoðun...