fbpx

Ef þú liggur heima með Covid-19 – hvað áttu og hvað áttu alls ekki að gera ?

Höfundur:   0 athugasemdir

Kórónuveiran, SARS-CoV-2, sem veldur sjúkdómnum COVID-19 smitast aðallega með snertismiti og svokölluðu dropasmiti.

EINANGRUN Í HEIMAHÚSI
Einstaklingar sem eru með grunaða eða staðfesta COVID-19 sýkingu sem ekki þurfa á sjúkrahúsdvöl að halda, skulu vera í einangrun í heimahúsi eða á stað sem almannavarnir og heilsugæsla á hverjum stað tilgreina.

TAKMARKA SKAL SNERTINGU VIÐ ÞANN SJÚKA
Best er að einstaklingur sem er veikur sé einsamall í einangrun. Aðrir heimilismenn geta verið í sóttkví á sama stað ef þeir vilja ekki fara af heimilinu en ættu að takmarka snertingu við þann sem er í einangrun eins og raunhæft er, helst að halda sig í a.m.k. 1 m fjarlægð frá hinum sjúka. Ef fleiri veikjast á heimilinu lengir það tíma sem aðrir heimilismenn þurfa að vera í sóttkví og mögulega einangrun.

EMBÆTTI LANDLÆKNIS LEIÐBEINR UM EINANGRUN
Í leiðbeiningum frá Embætti landlæknis varðandi einangrum í heimahúsi má lesa ítarlega hvað má og hvað má ekki en vert er að hnykkja á nokkrum atriðum:

  • Takmarka þarf til hins ítrasta umgengni við annað fólk. Þess vegna getur einstaklingur þurft að fá aðstoð við aðföng o.þ.h. Ef hluti heimilismanna er í einangrun þurfa aðrir heimilismenn að vera í sóttkví ef þeir hafa verið á heimilinu þegar fyrstu einkenni komu fram.
  • Einstaklingur í einangrun ætti að sofa í sérherbergi eða að lágmarki í sérrúmi.
  • Rétt er að reyna að hafa glugga opna í sameiginlegum rýmum s.s. eldhúsi og baði. Æskilegt er að einstaklingur í einangrun hafi salerni til einkaafnota.
  • Einstaklingur í einangrun má fara í bíltúr á einkabíl ef heilsa leyfir en aðrir mega ekki vera í bílnum nema þeir séu þegar í sóttkví og ekki má eiga samskipti við aðra í návígi s.s. við bílalúgur veitingastaða.

MUNA HANDÞVOTT, HANDÞVOTT, HANDÞVOTT OG SPRITT
Eins og fyrr greinir þá smitast kórónuveiran sem veldur sjúkdómnum COVID-19 aðallega með snertismiti og svokölluðu dropasmiti. Algengt snertismit er að við berum veiruna frá höndum í munn, nef og augu okkar. Þaðan hefur veiran greiðan aðgang að okkur. Því er mikilvægt fyrir okkur að snerta ekki andlitið okkar nema með mjög hreinum höndum og einnig passa fletina sem við snertum (hurðahúnar, kortaposar, lyftuhnappar ofl.). Handþvottur er lykilatriði, þvo hendurnar vel og oft. Og einnig spritta hendurnar reglulega.

SAMFÉLAGSLEG SKYLDA OKKAR
Okkur ber samfélagsleg skylda að takmarka framgang veirunnar og fækka smitum eins og við mögulega getum. Því er mikilvægt að taka einangrun alvarlega til að lágmarka hættuna á að smita aðra.

EINANGRUN AFLÉTT
Einangrun vegna COVID-19 má læknir aflétta þegar BÆÐI eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
14 dagar eru liðnir frá greiningu OG sjúklingur hefur verið einkennalaus í a.m.k 7 daga

Eftir að einangrun lýkur ber hverjum einstaklingi engu að síður að forðast náin samskipti við áhættuhópa skv. nánari fyrirmælum læknis og huga vel að handhreinsun og almennu hreinlæti.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) gaf út 17. mars sl. ráðleggingar varðandi heimahjúkrun þeirra með væg einkenni COVID-19 sjúkdómsins. Það er gott að kynna sér þær leiðbeiningar sem og leiðbeiningar frá Embætti landlæknis.

Leiðbeiningarnar frá WHO hér:
https://apps.who.int/iris/bitstream/handle/10665/331473/WHO-nCov-IPC-HomeCare-2020.3-eng.pdf

Leiðbeiningar fyrir almenning varðandi einangrun í heimahúsi frá Embætti landlæknis:
https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item38989/Lei%C3%B0beiningar%20fyrir%20almenning%20var%C3%B0andi%20einangrun%20%C3%AD%20heimah%C3%BAsi%2027022020.pdf

Bent er ÍAK einkaþjálfari og auk þess með sterkan bakgrunn í vef- og markaðsmálum og vann m.a. um árabil við markaðs- og auglýsingamál hjá World Class. Bent var vefstjóri Kópavogsbæjar um árabil og hefur einnig unnið við margvísleg verkefni hjá mbl.is. Bent er ljósmyndari og hafa myndir eftir hann verið birtar í blöðum víðsvegar um heim. Hann er auk þess bæði tónlistarmaður og tónlistarkennari og brautryðjandi í fjarkennslu á gítar. Bent er einnig menntaður í garðyrkjufræðum frá Garðyrkjuskóla ríkisins.

Segðu þína skoðun...