Ert þú að taka inn ómega 3?

Höfundur:   0 athugasemdir

Ómega 3 er lífsnauðsynleg fitusýra, EPA (eikósapentaensýra) og DHA (dókósahexensýra) eru helstu ómega 3 fitusýrurnar sem nýtast okkur. Mataræði Íslendinga inniheldur almennt lítið magn af þessum fitusýrum.

Heilsufarlegur ávinningur af inntöku ómega 3

Dregur úr bólguvirkni: getur bætt líðan þeirra sem þjást af liðagigt, sóríasis, asma og sumra húðsjúkdóma.

Hjarta og æðasjúkdómar: lækkar þríglýseríða í blóði, hækkar HDL kólesteról (góða kólesterólið), bætir blóðflæðið, minnkar líkurnar á myndun blóðtappa, lækkar blóðþrýsting.

Sykursýki tegund 2: eykur insúlínnæmi.

Jákvæð áhrif á miðtaugakerfið: getur minnkað alvarleika margra geðrænna sjúkdóma eins og Alzheimers, þunglyndi, geðhvarfasýki, einnig sýnt minnkun á einkunnum hjá börnum greind með ofvirkni og lesblindu.

Vöxtur og þroski: hefur áhrif á taugaþroskun og þroskun miðtaugakerfisins.

Hvernig fæ ég ómega-3 ?

Ómega 3 finnst í jurtaríkinu af gerðinni ALA (alfalinoleniksýra) sem finnst í örfáum jurtum og jurtaolíum eins og sojaolíu, repjuolíu, rósakóli, valhnetum, chiafræjum og hörfræjum. Líkaminn þarf að umbreyta ALA yfir í EPA og DHA sem nýtist okkur en hann nær bara að gera það að litlum hluta eða undir 10%, lægra hjá körlum. Þannig háar tölur af ómega 3 í ALA formi geta blekkt.

Þess vegna er alltaf betra að fá ómega 3 úr dýraríkinu og best að fá úr fljótandi fiskiolíum eins og t.d úr þorskalýsi. Lýsi í perluformi inniheldur ekki eins mikið magn af ómega 3. Hvet ykkur til þess að lesa á umbúðir af ykkar ómega- 3 gjafa. Gott að miða við neyslu á bilinu 500-2000 mg af ómega 3 í formi fæðubótarefna (samanlagt af EPA og DHA), meira en það skilar ekki endilega betri árangri og getur í sumum tilfellum beinlínis verið skaðlegt.

Heimildir:
Insel, P.M., D. Ross, K. McMahon, and M. Bernstein, Nutrition. 2013: Jones & Bartlett Learning
Williams CM, Burdge G. Long-chain n-3 PUFA: plant v. marine sources. Proc Nutr Soc. 2006;65:42–50

Hrafnhildur er með B.Sc gráðu í Líffræði frá Háskóla Íslands 2008. Meistarapróf í Næringarfræði frá Háskóla Íslands 2011. ÍAK- einkaþjálfun frá Íþróttaakademíu Keilis 2012. Hrafnhildur starfar sem næringarfræðingur og einkaþjálfari í Hreyfing heilsulind.

Segðu þína skoðun...