Grænmetispönnukökur

Höfundur:   0 athugasemdir

Um helgar fáum við okkur stundum ýmsar útfærslur af eggjahrærum í hádegismatinn.  Að þessu sinni voru einmitt eggin notuð en í allt annarri útfærslu en venjulega – hér eru þau nefnilega notuð í grænmetispönnukökur sem voru bara ansi góðar og flottar með t.d. kotasælu eða jafnvel kaldri sósu úr grískri jógúrt.
Innihald:

 • 2 kúrbítar (zucchini) – rifnir
 • 3-4 egg (3 meðalstór ættu að nægja – en ef þú ert með óvenju lítil egg þá er alveg í lagi að bæta við því fjórða)
 • ½ tsk hvítlaukssalt
 • ½ tsk Maldon sjávarsalt
 • ½ tsk nýmalaður svartur pipar
 • ¼ bolli kókoshveiti
 • 3-4 msk kókosolía til steikingar

Aðferð:

 1. Gott að rífa kúrbítinn niður í matvinnsluvél. Þegar því er lokið þá er rifni kúrbíturinn settur í miðjuna á t.d. viskustykki eða í síupoka (sjá mynd af slíkum poka í Heimagerð möndlumjólk) – kreistu svo eins mikinn vökva og þú getur.
 2. Pískaðu eggjunum saman við hvítlauks- og sjávarsaltið ásamt svarta piparnum.
 3. Bættu því næst kókoshveitinu við.
 4. Þá er komið að því að hella rifna kúrbítunum sem búið er að kreista allan vökvann úr og hræra vel saman.
 5. Ef þér finnst þarna blandan vera of blaut þá er hægt að sáldra yfir 1-2 tsk af kókoshveiti – byrjaðu á 1 tsk því að kókoshveitið dregur vökvann mjög vel í sig – frekar að bæta við heldur en að setja of mikið.
 6. Setjið rúmlega 1 msk kókosolíu á heita pönnuna – rétt um meðalhita.
 7. Þá er að móta pönnukökurnar og fínt að miða við t.d. magnið sem fer í ¼ bolla og fletja svo aðeins út.
 8. Látið steikjast á vægum hita í um 3-4 mínútur á hvorri hlið.
 9. meðan pönnukökurnar eru í steikingu og þegar þú ert að snúa þeim við þá geta þær molnað mjög auðveldlega – farðu því varlega og fínt að nota jafnvel tvo spaða.

Borið strax fram með t.d. avokadó, tómötum, papriku, spínati og kotasælu eða settar til hliðar og látnar kólna – alveg fínar þannig – þá er alltaf hægt að hita þær aðeins upp. Geymast í lokuðu íláti í ísskáp í 2-3 daga.

Njótið!

Ásthildur Björnsdóttir

Móðir, eiginkona, hjúkrunarfræðingur B.Sc, ÍAK-einkaþjálfari og heilsumarkþjálfi frá IIN með mikinn áhuga á betri heilsu og heilsusamlegu mataræði.

Segðu þína skoðun...


Provided by water damage columbus