Qigong og fjaran

Höfundur:   0 athugasemdir

Loftið er aðeins hreinna við sjóinn. Mikið sem við Íslendingar erum heppin, að það er ekki svo langt niður að næstu fjöru. Ég er farin að venja komur mínar við fjöruborðið. Finn þar mikla heilun og jarðtengingu. Eins og plánetan Jörðin sé að heila mig. Ég finn fyrir henni í gegnum berar iljarnar, hvernig orkan streymir í mig frá eins konar gátt eða vídd í miðju jarðar.

Hvað er qigong?

Í Qigong er verið að vinna með lífsorkuna okkar sem er kölluð qi (borið fram „chi“.) Ég hef stundum átt í basli með orkuna mína og er himinlifandi yfir að hafa fundið qigong. Æfingarnar eru orkuvinna og hjálpa okkur við að vekja upp lífsorkuna okkar, losa okkur við staðnaðar orkur og virkja góðu orkuna. Þær hjálpa við að hreinsa orkuna okkar, jafna hana út og koma í veg fyrir leka.

Það tók mig þónokkurn tíma að átta mig á út á hvað qigong gengur. Í fyrstu virðist þetta ekki mjög spennandi, lítur út fyrir að vera fólk í eldri kantinum að gera mjög hægar æfingar. En núna skil ég þetta betur og finnst þetta tengja saman mikið af því sem ég lærði í heilsunuddnáminu um orkubrautir og orkupunkta. Æfingarnar samanstanda af hreyfingum, öndun, hugleiðslu og snýst um að heila og jafna út qi. Qigong hlúir að alhliða heilsu líkama og sálar. Æfingarnar eru vanalega gerðar úti þar sem við tengjumst himin og jörð. Það voru einmitt nokkrir kennarar í heilsunuddnáminu sem minntust á að það væri gott að byrja daginn á að tengjast himin og jörð (þar sem heilarinn; nuddarinn er millistykkið.)

Ég vil taka fram að ég er sjálf byrjandi í qigong en er svo heilluð af þessum æfingum og ávinningnum af þeim að mig langar til að deila því sem ég hef komist að með ykkur. Ég hlustaði á Kristínu Báru í Sólum tala um qigong í Sólar podcastinu og varð ennþá heillaðri af þessu æfingakerfi fyrir vikið. Hef komist að því að hægt er að fara í qigong tíma til dæmis í heilsusetrinu Tveir heimar í Reykjavík.

Highly Sensitive Person

Qigong er góð leið til að hreinsa til í tilfinningalífinu og jafna orkusvið okkar; hreinsa og styrkja áruna okkar. Ég hef oft haft á tilfinningunni að orkan mín sé að leka. Stundum geta aðstæður og einstaka manneskjur virkað á mig eins og orkusugur, jafnvel það sterkt að það er eins og snúra sé tengd við mig og orkan sogin út. Verslunarmiðstöðvar til dæmis og flugvellir virka oft svona á mig. Þetta er líklega vegna þess að ég er það sem er kallað Highly Sensitive Person (HSP.) Ef þig grunar að þú sért líka HSP hvet ég þig til að googla orðið. Hérna er til dæmis að finna heimasíðu þar sem þú getur kannað hvort þú sért HSP. Líka hér. Við erum alveg þónokkur, það er talið að 15 – 20% manna séu að einhverju leyti HSP. Það var stór uppgötvun fyrir mig að taka þetta próf, eða skoða listann réttara sagt, þar sem nokkur einkenni eru talin upp, þar sem ég skildi sjálfa mig svo miklu betur eftir á og af hverju ég er eins og ég er. Gott að vita að ég sé ekki alger furðufugl. Þetta útskýrði svo margt og það var mikil huggun í því að vita að ég er ekki ein sem er svona. Qigong hefur hjálpað mér mikið með þetta og er tilvalin leið til að jafna orkusviðið og loka fyrir leka.

Qigong í daglegu lífi

Uppáhalds æfingin mín sem ég geri næstum daglega er að finna á Youtube hér. Ég fann hana með því að setja einfaldlega inn leitarorðið qigong. Þar er hægt að finna fullt af æfingum. Í þessu myndbandi talar Marissa í Yoqi um orkugáttina Ming men sem er kínverska fyrir það sem á ensku er kallað the door of life. Æfingin felst í að opna þetta orkuhlið sem er staðsett í neðra baki (í kringum L2.) Að gera þessa æfingu gefur mér eins konar lífslykil til að opna fyrir lífsorkuna. Æfingin á líka að vera góð fyrir hormónajafnvægi og kynorkuna. Mér finnst athyglisvert að hin orkugáttin sem oft er talað um í þessum æfingum er staðsett einmitt hinum megin við eða tveimur þumlum fyrir neðan naflann. Þar er að finna orkubirgðir líkamans samkvæmt þessum fræðum.

Það er mín tilfinning að qigong sé samansafn að æfingum sem færa iðkendum eins konar lífslykla að hamingjunni. Ávinningurinn er betri orka og friðsæld. Ég finn mikinn mun á mér og orkunni minni til hins betra sem er ástæðan fyrir því að ég er farin að iðka qigong daglega.

Ég mæli með 😊

Svava Ólafsdóttir útskrifaðist sem heilsunuddari frá FÁ vorið 2020. Hún starfar sem nuddari og er með aðstöðu tvo daga í viku í Yogashala í Skeifunni 7 í Reykjavík. Hún fer líka í fyrirtæki og nuddar starfsfólk þar. Nuddið hennar er aðallega heildrænt en hún býður upp á margar týpur af nuddi svo sem svæðameðferð (reflexology), klassískt-, íþrótta-, sogæða- og meðgöngunudd.

Segðu þína skoðun...