Engar afsakanir

Höfundur:   5 athugasemdir

Þegar kemur að hreyfingu og líkamsrækt er fólk of gjarnt á að binda það við líkamsræktarsal. Ef það kemst í ekki í ræktina þá verði ekki af neinu.
Þá eru allt of margir sem ofhugsa hreyfingu og ekki síður mæður (þar sem ég er móðir sjálf). Það er mikil breyting að fara úr því að hafa allan tímann fyrir sjálfan sig í að hafa nánast engann.

Hreyfing þarf ekki að vera flókin og hún þarf ekki að heita eitthvað ákveðið. Fólk vanmetur oft hreyfingu daglegs lífs og hvernig hægt er að snúa jafnvel heimilisverkum eða leik við börnin upp í jákvæða og góða hreyfingu

Hef ekki tíma…
Mér finnst ég alltof oft heyra þá afsökun að fólk hafi ekki tíma til þess að hugsa um sjálfan sig, ekki síst foreldrar. Oftast er það réttlætingin sem við seljum okkur. Klukkutíma æfing er aðeins 4% af deginum!

Ef maður kemst ekki út úr húsi vegna barna eða öðru þá er svo auðvelt að gera æfingar heima hjá sér. Auðvitað þarf aga til þess en það að komast ekki í eitthvað ákveðið hús til þess að hreyfa sig er bara ekki afsökun til þess að sleppa því alfarið að mínu mati. Maður verður bara að aðlaga sig að aðstæðum.

Notaðu það sem er til staðar…

Það eru óteljandi æfingar sem hægt er að gera heima í stofu. Flestir eiga stóla, sumir eru með tröppur og skemmtilegustu lóðin sem við getum notað eru börnin okkar, bæði fyrir okkur að lyfta og fyrir börnin og allir hafa gaman af. En að sjálfsögðu þarf að fara varlega og forðast of mikinn hamagang. Með þessu móti þarf líkamsrækt t.d. ekki að kosta mikið.

Regluleg hreyfing og hollt og heilnæmt mataræði 5-6 daga vikunnar ætti að vera nóg til að halda fólki í góðu standi. Hreyfing þarf ekki að vera maraþon eða klukkutíma Crossfit æfing. Of mikil hreyfing getur verið heilsuspillandi alveg eins og of lítil hreyfing.

Agi er lykillinn að árangri

Til að ná árangri, sama í hverju, þá þarf alltaf að temja sér aga. Það þarf smá aga til að nenna að æfa heima þegar maður kemst ekki út úr húsi en það að vera foreldri er engin afsökun fyrir því að geta ekki hreyft sig eða borða hollt. Þetta er bara allt spurning um val

Engar afsakanir og drífum okkur af stað!

Yrja Dögg Kristjánsdóttir

Yrja Dögg hefur sterkan bakgrunn í fimleikum og frjálsum íþróttum. Hún er með ÍAK einkaþjálfararéttindi, Maxbells 1 og 2 réttindi, Joint mobility og Bodyweight réttindi frá Steve Maxwell.

Segðu þína skoðun...


Provided by water damage columbus