Hæglætishreyfingin

Höfundur:   0 athugasemdir

Í amstri dagsins og hröðu samfélagi kljást margir við að halda jafnvægi, rósemi og sjálfsöryggi. Mörg upplifum við pressu um að standast kröfur samfélagsins, um að vera til fyrirmyndar á helst öllum sviðum, að þéna vel, að líta óaðfinnanlega út, að vera fullkomnir uppalendur, hafa sjálfstraust og leiðtogahæfileika, kunna að prjóna, hekla, sauma og semja ljóð, eiga heimili sem komast á síður blaðanna fyrir fágun og fegurð og á sama tíma lifa sjálfbæru lífi og að vera sjálfstæð og umhverfisvæn. Allt eru þetta á sinn hátt eftirsóknarverðir hlutir og margir hafa þetta allt saman á hreinu. Aðrir ekki. Hvort sem við höfum náð þessari “fullkomnun” eða ekki, þá eiga mörg okkar erfitt með að staldra við og njóta ávaxtanna. Að njóta raunverulega og kunna að meta það sem við höfum. Ástæðan er gjarnan sú að fólk upplifir sig þurfa að gera enn meira og vera enn betri. Samanburður, keppni, kröfur, stífir mælikvarðar og dómharka valda okkur mörgum kvíða og vanlíðan. Þeirri tilfinningu að við séum aldrei að gera nóg eða nógu vel. Sumir brenna út og lenda í kulnun.

 

Svar við hraða og streitu samfélagsins

Hæglætishreyfingin er hreyfing fólks sem hefur tileinkað sér eða hefur áhuga á að tileinka sér hæglæti (e. slow living, einnig simple-living). Hæglæti er svar við hraða og streitu samfélagsins. Hæglæti er val um að lifa meðvitað og að hafa stjórn á og val um það hvernig maður ver tíma sínum. Hæglæti getur veitt okkur aðgang að því að verða meðvituð um að maður hefur alltaf val um ákvarðanir og aðstæður og þar með að upplifa sig ábyrgan fyrir eigin líðan, heilsu og samskiptum sínum við aðra.

 

Ávinningur Hæglætislífsstíls

Hæglæti getur haft það í för með sér að auðveldara verður að dvelja í núvitund, að vera vakandi og með athygli á núlíðandi stund. Að heyra og hlusta, að anda og njóta, að velja meðvitað að takmarka streitu, draga úr neyslu, taka sér minna fyrir hendur og gera færri hluti í einu. Að beina athyglinni frekar að því að vera í stað þess að vera upptekinn af því að gera æðislega mikið. Fara hægar yfir, þá aðallega huglægt, einfalda lífið og draga úr kröfum. Hæglæti er þó ekki það sama og að gera allt löturhægt. Hæglætishugsun getur einmitt hjálpað okkur að fara hratt yfir, þó við gerum bara eitt í einu.

Hæglætishreyfingin á rætur sínar að rekja til Hæglætisfæðuhreyfingarinnar (e. Slow-food movement) sem varð til á Ítalíu á níunda áratug liðinnar aldar. Sagan segir að upphafsmaður hreyfingarinnar, Carlo Petrini, hafi í einskonar mótmælaaðgerð gegn skyndibitastöðum á borð við MacDonalds, hafið baráttu við að vernda ítalskar matarhefðir og menningu sem fólu það í sér að taka sér góðan tíma til matargerðar og neyslu matar, að notast við hráefni sem væri ræktað sem mest í nálægð við neytandann og að matur væri útbúinn frá grunni. Aðalhvatningin var að njóta þess að matbúa og borða í hæglæti. Í dag hefur hæglætisfæðuhreyfingin breiðst út um allan heim og nýtur verðskuldaðrar hylli.

 

Hæglæti í ýmsu samhengi

Hæglætishugsun hefur verið yfirfærð á ýmis önnur svið mannlífsins og hafa margir hópar orðið til sem leggja áherslu á hæglæti á tilteknum sviðum. Þar má nefna hæglætisborgir (cittaslow), hæglætisuppeldi (slow-parenting), hæglætisskóla (slow-schools), hæglætistísku (slow-fashion), hæglætisferðalög (slow-travel), hæglætisfjármál (slow-money), hæglætissamskipti (slow-communication) og hæglætiskynlíf (slow-sex).

Í raun má hugsa sér að hæglætishugsun megi nýta sér hvarvetna og í öllu samhengi. Hæglætismenningin sem þróast hægt og bítandi, hefur alla burði til að gagnast vel við stóru verkefni samtímans, svo sem umhverfisvanda heimsins, misskiptingu og valdmisbeitingu, ófrið og ofbeldi. Því fleiri sem tileinka sér hæglætishugsun og líferni þeim mun líklegra er að heimurinn verði enn friðsælli og sjálfbærari.

 

Stofnun Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi

Nýverið var Hæglætishreyfingin á Íslandi formlega stofnuð, en hana má nú þegar finna á facebook og von bráðar verður opnuð heimasíða og nýtt hlaðvarp mun líta dagsins ljós. Verið öll velkomin til liðs við Hæglætishreyfinguna.

 

Þóra Jónsdóttir er hvatningakona fyrir hæglætislífstíl, ein af stofnendum Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi, verkefnastjóri hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi, lögfræðingur, markþjálfi, sáttamiðlari, fjölskyldumanneskja, glöð miðaldra kona sem hefur náð að endurheimta færnina til að leika sér, svo sem í gegnum tónlist og með því að skapa gleðistundir með góðu fólki.
Þóra heldur úti heimasíðunni www.thorathora.is; er með facebook síðuna Thora Þóra, hópinn Hæglætishreyfingin á facebook, og instagram reikninginn @slowlivingiceland.

Segðu þína skoðun...