Má ég fá mér ? eða á ég að neita mér um það ?

Höfundur:   0 athugasemdir

Þegar við kjósum það að velja hollt umfram það óholla dettum við oft í þann öfgahugsunarhátt að málið snúist um allt eða ekkert. Nú skuli hert að sultarólinni þangað til þú ert kominn aftur í fermingarbuxurnar. Öll sætindi eru komin á bannlista og þú hugsar varla um annað, ég má ekki.. ég má ekki. Þér er boðið í dýrindisveislu þar sem kræsingum er pakkað upp í rjáfur. Þú íhugar að koma með einhverja ástæðu fyrir því að þú kemst ekki, en þig langar að hitta fólkið en veist að þú ert búinn að banna sjálfum þér um allar kræsingar þannig að þetta verður erfitt!

Hættu að lemja þig með svipu

„Ég má ekki, ég má ekki“ er verulega óþægilegt hugsunarmynstur. Okkur hættir til að skemma fyrir okkur með þessari öfgastefnu. Fyrir þá sem hafa lært íhugun og heyra jafnvel setningu eins og „tæmdu hugann“ í fyrsta sinn…. hvernig í veröldinni á maður að geta tæmt hugann þegar þessi hugsun hefur plantað sér stærri rótum en skólpétandi aspartré í þingholtunum? Þetta er ekki ólíkt þeirri svipu sem þú lemur þig gjarnan með því að segja við sjálfan þig „þú mátt ekki borða nammi“. Þessi hugsun hefur tendens til að margfaldast og eiga skrilljón afkvæmi í hausnum á þér!

Ömurlegur vítahringur

Þegar þú neitar þér svona sífellt um eitthvað, hættir þér til að hugsa um það út í hið óendanlega – þangað til þú „svindlar“ og þá líklega byrjaru að rífa þig niður fyrir að vera ekki nógu staðfastur og þú setur þér enn stífari mörk í framhaldinu – nú skal hangið á horriminni þangað til markinu sé náð! Þvílík leiðindi, kvöl og pína að ganga í gegnum sjálfskaparvíti, andlega og líkamlega, til að ná einhverjum misgáfulegum markmiðum.

Lausn í sjónmáli

Jákvæð lausn í þessu er að leyfa sér…. já þú mátt fá þér! En hafðu skynsemina með í för. Ef þig langar í súkkulaði, fáðu þér, en veldu skynsamlega – ekki kaupa tveggja kílóa Mackintosh dollu til að japla á yfir einum þætti af Friends. Það eru hollari kostir þarna úti.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir að ekki eru allir með heilbrigt samband við mat og eru að fást við matarfíkn af einhverjum toga.  Þá er mjög erfitt að „leyfa sér„ – þegar fíkniefnið er komið í kroppinn, þá er mjög erfitt að hætta.   Fyrir þau sem eru á þeim stað er auðvitað best að fara eftir þeim ráðleggingum sem þau hafa fengið og virkar vel hjá þeim.  Og fyrir þá sem eru mögulega að fást við slíkt en eru ekki vissir, mælum við eindregið kynna sér málið og fá ráðgjöf.  Það getur breytt öllu til betri vegar.

Það er erfitt að gefa eitt ákveðið ráð til allra, við erum það ólík að það gengur varla upp.  En þessi grein stíluð inn á fólk sem hefur tiltölulega heilbrigt samband við mat og getur leyft sér án þess að missa tökin á sínu prógrammi.

Njóttu ferðalagsins

Í allri umræðunni um streitu og góða líðan er mikilvægt að huga að því að njóta ferðalagsins sem við erum í. Hvort sem við erum að keyra hringinn með fjölskyldunni, sækja jólatré með börnunum eða ferðalagið að létta sig um 5-10 aukakíló. Öndum rólega, njótum verum þakklát fyrir augnablikið og veljum skynsamlega.

Bent er ÍAK einkaþjálfari og auk þess með sterkan bakgrunn í vef- og markaðsmálum og vann m.a. um árabil við markaðs- og auglýsingamál hjá World Class. Bent var vefstjóri Kópavogsbæjar um árabil og hefur einnig unnið við margvísleg verkefni hjá mbl.is. Bent er ljósmyndari og hafa myndir eftir hann verið birtar í blöðum víðsvegar um heim. Hann er auk þess bæði tónlistarmaður og tónlistarkennari og brautryðjandi í fjarkennslu á gítar. Bent er einnig menntaður í garðyrkjufræðum frá Garðyrkjuskóla ríkisins.

Segðu þína skoðun...