Það er leikur að læra…

Höfundur:   2 athugasemdir

…leikur sá er mér kær, að vita meira og meira, meir‘í dag en í gær. Svona einhvern veginn hljómar textinn sem svo mörg okkar þekkja og höfum sungið ótal sinnum. En þetta er einmitt mergurinn málsins, það er leikur að læra!

Hornsteinn leikskólastarfs

Leikurinn er hornsteinn og kjarni alls leikskólastarfs enda er hann meginnámsleið barna. Hann er sjálfsprottinn, kallar fram gleði, veitir vellíðan og eflir vitræna og skapandi þætti. Leikurinn, í allri sinni fjölbreytni, skapar börnum tækifæri til að skilja og læra á umhverfi sitt, tjá hugmyndir sínar, tilfinningar og reynslu og þróa félagsleg tengsl. Í leik taka börn þátt í lýðræðislegum athöfnum þegar þau setja fram eigin hugmyndir og þurfa jafnframt að virða sjónarmið annarra. Hann getur einnig virkjað sköpunarkraft barna og löngun þeirra til að læra og afla sér þekkingar.

Leikum okkur meira
Hvaða foreldrar kannast ekki við þá gleði sem fylgir því hjá börnunum þegar við sýnum leik þeirra áhuga og leikum við þau. Í gegnum leikinn kynnumst við börnunum okkar betur, verðum betur meðvituð um gildismat þeirra og hvernig þau upplifa hlutverk sitt í samhengi hlutanna. Okkur gefast auk þess ótal tækifæri til að koma jákvæðum skilaboðum til þeirra í gegnum leikinn sem byggja undir sjálfstraust þeirra, sjálfsmynd, gagnrýna hugsun og samkennd með öðrum.

Hlutverk okkar fullorðna fólksins er því að styðja við leik barna á margvíslegan hátt, virða og hlúa að honum, gefa honum rými og tíma og skipuleggja leikumhverfið.

Leikum okkur lengur
Þegar kemur að leik skiptir aldur ekki máli og við þyrftum t.d. að nýta leikinn mun meira og mun lengur sem kennsluaðferð. Það gildir einu hvort við erum í leik-, grunn-, framhaldsskóla eða háskóla – við höfum nefnilega öll gaman og gott af því að leika okkur!

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf er lýðheilsufræðingur (MPH) og kennari (B.Ed.) og starfar sem fagstjóri heilsuskólanna hjá Skólum ehf. Hún er jafnframt verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Segðu þína skoðun...


Provided by water damage columbus