fbpx

Öndunartækni á tímum COVID

Höfundur:   0 athugasemdir

Ávinningar virkrar öndunar eru gríðarlegir, sérstaklega þessi misserin, þegar öndunarfærasjúkdómurinn COVID virðist ætla að vera hjá okkur enn um sinn.

Í þessum pistli mun ég fjalla um Buteyko öndunartæknina, mikilvægi þess að ,,anda niður í maga” og þá fjölmörgu ávinninga þess að anda inn um nefið, en líkurnar á að smitast af öndunarfærasjúkdómum eins og Covid eru minni við það eitt að anda inn um nef.
Nitur oxíð er okkar helsta náttúrulega sýklavörn, en gastegundin myndast við innöndun um nef og berst með andardrætti niður í lungun þar sem það getur unnið gegn sýklum.

Hvað er virk öndun?

Virk öndun er meðvituð öndun, s.s. að anda í vitund og er regnhlífarhugtak um hverskonar öndunartækni sem í boði er. Virk öndun er fljótvirkasta og árangursríkasta leiðin til að hafa áhrif á taugakerfi okkar og er svo fljótvirk að innöndun hefur öðruvísi áhrif á okkur en fráöndun.

Virk öndun getur bæði verið hröð og þá grynnri eða hæg og þá dýpri.

,,Andað niður í maga”.

Hægt er að fylgjast með börnum beita fullkominni öndunartækni en þau kunna að ,,anda niður í maga”, eins og sagt er, áður en þau læra ósiðinn að anda grunnt af hinum fullorðnu í umhverfi þeirra.
Með þessu orðtaki er átt við að fullnýta lungun. Þindin dregst þá saman við innöndun og þrýstir maganum út. Lungunum veitist rými til að taka við stærri andardrætti og öndun verður því dýpri.

Lungun ná jafnlangt og neðstu rifbein (sjá mynd) og gefur að skilja að því dýpra sem við náum að anda þeim mun áhrifaríkari verður öndunin. Ekki aðeins vegna þess að við erum almennt að nýta lungun betur heldur er meira af fellingunum (lungnapípur og lungnapíplur þar sem loftskiptin eiga sér stað) eftir því sem neðar í lungun er haldið.

Ávinningar Buteyko.

Djúp og hægari öndunartækni eins og Buteyko getur hjálpað við að ráða bug á ýmsum kvillum: hræðslu við að koma fram, svefnleysi, streitu, kvíða og þegar þyrmir yfir. Þetta er ein árangursríkasta og fljótlegasta aðferðin sem okkur stendur til boða til að koma okkur úr streituástandi (fight/flight) og í slökunarástand (rest/digest).

Þegar við ástundum Buteyko öndunartækni þá losum við koltvíoxíð (CO2) hægar út úr líkamanum. Þetta gerir það að verkum að:

  • Öndunarvegurinn víkkar þ.a. loftflæði verður betra.
  • Æðar víkka þ.a. blóðflæði verður betra.
  • Rauðu blóðkornin losa betur súrefni (O2) í viðurvist CO2 þ.a. súrefnisupptakan verður betri (Bohr hrif).

,,Andaðu með nefinu.”

Það er rík ástæða til að anda inn nef og margt af því hefur að gera með nitur oxíð (NO) sem myndast í nefinu við innöndun.

Nitur oxíðið sem myndast við innöndun um nef ferðast með andardrættinum niður í lungu. Þar kemur gastegundin að mörgum ferlum:

  • Tekur þátt í boðefnaskiptum hjarta- og æðakerfisins.
  • Víkkar öndunarveginn og æðar, opnar og auðveldar öndun og blóðflæði.
  • Vinnur gegn festingu fitufrumna á æðaveggi.

Það mikilvægasta sem gastegundin gerir þó fyrir okkur, er að virka sótthreinsandi gegn örveru- og bakteríuflórunni sem fylgt getur andardrættinum úr andrúmsloftinu. Myndun nitur oxíðs í nefinu við innöndun inn um nef er því okkar helsta náttúrulega sýklavörn. Ekki svo léttvægt, sér í lagi á tímum COVID.

Nitur oxíð myndast ekki við innöndun um munn, þetta atriði eitt og sér ætti fyrir flesta að vega svo þungt að það læri að tileinka sér innöndun um nef.

Fleiri ástæður eru sem mæla með innöndun um nef:

  • Nemar í nefinu greina hitastig loftsins sem kemur inn og hitar/kælir í samræmi við líkamshita, til að viðhalda jafnvægi í hitastigi lungna.
  • Hárin í nefi okkar gegna hlutverki filterkerfis og síar agnirnar í andrúmsloftinu úr andardrættinum.

Af þessu má sjá að mikill hagur er í því að anda rétt. Covid virðist komið til að vera enn um sinn og því ætti hvert mannbarn að tileinka sér þær aðferðir sem í boði eru til að verja sig gegn því að veikjast af faraldrinum.

Öndum djúpt inn um nefið og við erum skrefinu lengra í því að vinna bug á heimsfaraldri.

Berglind Rúnarsdóttir

Ég heiti Berglind og er einkaþjálfari og jógakennari með BS gráðu í matvæla- og næringarfræði frá Háskóla Íslands. Ég hef kennt fólki að elska sig frá því ég tók minn fyrsta sporahring árið 2006. Ég kenni tækjaþjálfun, jógastöður, öndunartækni og hugleiðslu í World Class og býð einnig upp á 1:1 þjálfun í lífsleikni.

Frekari upplýsingar og tímabókarnir:
brglndyoga.is | brglndyoga@gmail.com

Segðu þína skoðun...